Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Króka-Refs rímur 10

Króka-Refs rímur – Tíunda ríma

KRÓKA-REFS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Níu enn fyrir bauga brú
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Níu enn fyrir bauga brú
brá eg Ijóðum óðs í krá.
Tíu eru taldar nú,
tjáir ekki að dvelja frá.

2.
Grun hef eg, að gefist laun,
greinin máls þó verði sein.
Mun sá finna megna raun,
um mein er gjörir að taka stein.

3.
Stirð eg veiti vísuorð,
verður ekki mœlskan herð.
Virði dyggðug skikkju skorð,
skerð er lítil mœlsku ferð.

4.
Fala vildi eg Viðrix öl,
vel það gengi síst eg tel.
Kjalars dýr var dregg ei föl,
dvel eg því við arnar stél.

5.
Ný fyrst ekki náðist nú
námsins kvœða listin há,
því skal tjalda, þorna brú,
þá er til og hafa má.

6.
Stutt er mansöngs málið sett,
máttur kvœða linnir brátt.
Flutt skal síðan sagan rétt,
sátt nú hlýði auðar gátt.


7.
Þangað víkur Þundar feng,
er þröng mun næsta óbyggð ströng.
Fangaði Refur rauna streng,
röng var honum útlegð löng.

8.
Synir hans nú sviptir raun,
seinir ei á lista grein,
hlynir sverða heilla laun
hreinir fundu, misstu mein.

9.
Báru hefð og hreysti þeir,
hlýrum tveim var gæfan ei rýr,
skáru rönd og skyggðu geir,
skýrum þénti lukkan dýr.

10.
Getið er fyrr um fræða reit,
fljót ef kæmi þörfin skjót,
hétu ljúft hjá lýða sveit
ljótri hefnd að standa á mót.

11.
Sendi Refur á rekka fund
reynda bræður, þó með leynd.
Bendir gerða gengu um stund,
greind var þeirra leiðin beind.

12.
Runnar klæða rétt með sann
renna þegar í byggðir senn.
Gunnar ei það athuga vann,
en þeir hittu sagða menn.

13.
Kváðu nú þar komið að,
kvíðasöm að gerðist tíð,
báðu sig að búa á stað.
Blíð nam játa sveitin fríð.

14.
Traustir héldu trúnað best,
tvist var lund á rómu þyrst.
Hraustir því sér hraða mest,
historían so greinir fyrst.

15.
Dugnaðar fljótum firðum gegn
fagnaði Refur og þótti gagn.
Hugnaðist þetta þýðum þegn,
þagnaði mesta sorgar magn.

16.
Úr skorðum byrðing einn með arð
örðug setti kempan hörð.
Forðum glöggt þess getið varð,
gjörður var hann á Ísa-jörð.

17.
Förunautar þýðir þar
þrír og níu á hlunna dýr
vöruna þangað besta bar.
Býr so skipið hetjan skýr.

18.
Þrenn er valin varan svinn,
vann í burtu flytja hann
tennur, svörð og safalaskinn,
sanna þetta öldin kann.

19.
Bjóst með lýðum lauka Rist,
lest af harmi brúðurin sést.
Fóstri hennar, fylldur list,
flestar kunni dáðir best.

20.
Sonur kveðst á karfa tún
að kyni yngstur, brúðar vin.
Von er meiri hryggist hún,
hinir fylgja stála hlyn.

21.
Þrír skulu feðgar framar meir
fara aftur í virkið þar.
Dýri hlunna héldu þeir,
hvar sem kunna, út á mar.

22.
Fylldi gustur græðirs tjald,
goldinn hreinn við Ýmirs hold.
Vildi Refur virkis hald
með voldugum bræðrum hafa á fold.

23.
Dag til enda tjölduð tog
tregast ei um síldar veg.
Lag í einum virðar vog
vegum fjarri tóku mjeg.

24.
Víkur að Bárði Viðrix kveik,
vakur hélt um öldu skvak,
ríkur hafsins reyndi leik,
rak með strengjum öldu blak.

25.
Hraður býtti byrinn lið
í breiðar hafnir settu skeið,
glaður tók þeim Gunnar við,
greiða mestan Bárður leið.

26.
Mátti ei lengi líða neitt,
léttist varla geðið þétt,
hátt bauð seggjum sölu greitt,
setti verð á góssið rétt.

27.
Runnar *tjörgu tólf um sinn
tvenna völdu hrausta menn.
Gunnar so og seggur hinn
senn frá landi héldu enn.

28.
Ára dúfur einar tvær
ýra bendir sjálfur býr.
Báran snúðug snerti þær,
snýr úr höfnum sveitin dýr.

29.
Hirðar auðs um humra jörð
harðan skáru Ránar garð.
Firða sveitin finnur hörð
fjarðar loks hið gamla skarð.

30.
Reyndir gengu rétt um stund
randa brjótar þegar á land.
Greindir Refs nú girnast fund,
grand skal honum þetta kland.

31.
Gengu kaskir kapps með föng
kringum breiðan foldar bing.
Lengi þótti þegnum ströng
þvingast skútan róðrar slyng.

32.
Setta virkið virðum hátt
veittist glöggt að líta eitt.
Rétt að hyggur Bárður brátt,
breytt fá ekki um það neitt.

33.
Þar um síðir sverða bör
sér, hvar liggur gryfjan þver.
Var hún djúp í veldið gjör,
ver mun þetta gegna hér.

34.
Refur höldum heilsan gaf,
hlífar öngar bar um líf,
krefur frétta köppum af,
kífin hlýddi öldin stíf.

35.
Ljótum Bárður beint með sút
beitir orðum geðs um reit:
„Fótum gekkstu feigum út,
fleytist þér í heljar sveit.

36.
Annað vita ekki um sinn
enn að greina vorir menn.“
Sanna kvaðst það seggur hinn:
„Senn munu lýsast brögðin tvenn.“

37.
Hófu þeir að hefja rof,
hreif nú sveitin allt og þreif.
Grófu djúpa drengir gröf,
dreif þá vatn úr foldar kleif.

38.
Rennu fundu rétt um sinn
runnar gulls í foldar grunn,
spenna næfur út og inn,
unnar þennan stemma brunn.

39.
Ljóst þá báru bragnar hast
byrstir eld í virkið fyrst.
Þjóstur vex, en vatnið brast,
vista mæt er horfin list.

40.
Ör það virkis vörður sér,
var hann ei til orða spar:
„Hvör gaf ráðin þessi þér?“
Þar til greiddi Bárður svar:

41.
„Ríður varla þér um það,
þreyðu enn um lítið skeið.“
Þýður aftur enn í stað
eyðir stáls gaf svörin greið:

42.
„Síst var yður soddan list
setst í hug né þanka fest.
Líst mér virkið mitt sé misst
mest fyrir annars ráðin verst.“

43.
Ansar Bárður býtir líns
brunns úr hyggju rótum grunns:
„Hans að ráðum hagleiks þíns
til hruns þér listin verður unns.

44.
Hagur þó þú þættist nóg,
þegar fyrr þig hitti eg,
í dag eg þínum drottna plóg
og dreg þig líka á heljar veg.

45.
Hengi eg þig á hárri stöng,
hingað máttu sjá um kring.
Lengi augun stara ströng
með stingulreyk í hvarma bing.“

46.
Svör í vísu seims gaf Þór,
sér kvað ekki líka ver,
ör í virkið aftur fór,
er nú reykjarsvælan þver.

47.
Listin byrgð hjá brögnum sést,
brast nú þegar í virki hast.
Fyrsti hluti fallinn sést,
fast þá gjörði taka kast.

48.
Féll sá partur fram á völl,
fallið þungt í loftið skall.
Hvellurinn glumdi hátt við fjöll,
hjallur skalf, sem greinir spjall.

49.
Fjórir misstu firðar fjör,
fárið hart af þessu stár.
Stór vex raun þeim dugði dör,
dáraður hann verður skár.

50.
Hljóp þar fram á hjólum skip,
hrapaði flugs í sjóar gap.
Hrópar traustur til í svip:
„Tapið ekki veiðiskap.“

51.
Vatt þá Refur voðir hátt,
veittist byr af landi greitt,
hratt nam strika hauðrið blátt,
hreytti bylgjum fleyið breitt.

52.
Hljóðum Bárður háum með
hraða alla sér nú bað.
Óðum víst á vastrið réð
vaða skútan hans af stað.

53.
Vindum breiddist voðin spennd,
vönduð rá og siglubönd,
hindin Ránar róðri vend,
röndin skalf um humra lönd.

54.
Sá nú Refur rétt muni ei
róið geta, en hyggur þó
náið sér að sigra fley,
í sjóinn niður voðir dró.

55.
Hátt við Björn nam herma greitt:
„Hljótt með árum dafla skjótt.
Láttu ganga lítið eitt,
ljótt er þeirra skipið fljótt.“

56.
Göfugum bróður boðið gaf:
„Blíf þú hér með unda kníf,
höfuðböndin höggðu af,
hlífumst ei við þeirra líf.“

57.
Hvetur Refur ryðugt spjót,
rataðist allt, sem til hann gat.
Setur skútan fram hjá fljót,
við flata lyfting Bárður sat.

58.
Sendi Steinn þá brand á bönd,
beindist hinum sorgin greind.
Renndi spjóti Refur af hönd,
reynd mun verða gæfan leynd.

59.
Falur stinnur stefndi vel,
stálið veitti Bárði tál.
Halurinn norski nú fékk hel,
nálega hvarf vit og mál.

60.
Rá og seglið sökk í sjó,
sjá þar nógar raunir má.
Lá við fári firðum þó.
Frá nam Refur halda þá.

61.
Voðir setti vindum við,
vaða súðum bylgjur að.
Gnoðin humra hafs um mið
hraðar ferðum nú í stað.

62.
Lundar gulls á græðis hind
grandað tóku sigluband.
Þundar auðs við öfugan vind
andaðan fluttu Bárð á land.

63.
Gunnar sorgum gleymdi senn,
grannlega virkið skoða vann.
Þunnar féllu flísir enn,
fann þar ekki minnsta hann.

64.
Lítur þegar á laginu út
um lautir karfa Refur flaut.
Nýtur þenkti þá með sút,
þrautir baga hjörva Gaut.

65.
Hraðar göngu mönnum með
móður allt að fiska slóð,
staðar nam við strauma beð,
stóð þar fyrir skútan góð.

66.
Eigi seinka seggir því,
um sjóinn vökur snekkjan fló.
Veginn Refs skal renna í,
róa þeir af megni þó.

67.
Fer nú Refur um fiska kór,
færist ekki landi nær,
sér hvar Gunnar geystur fór,
grær því lítt um hyggju krær.

68.
Róður taka um ránar láð,
reyðar flýgur knör um leið,
hljóður síðan hugsar ráð,
heiðurs menntin þeim er greið.

69.
Brátt nam segja Birni greitt,
bætt mun verða nauðin hætt:
„Láttu síga seglið breitt,
sættu því, að þess mun gætt.“

70.
Klárum dag var kvöldið nær,
knörrinn rann um síldar vör.
Árum Gunnar öllum rær,
ör var hans um sjóinn för.

71.
Brjótur vigra við þá leit
vitur, þanninn greinir rit,
njótur seima sunda á reit
situr nú og skiptir lit.

72.
„Sækjast lítt á sundi tök,
svíkur oss hin gamla vík.
Klækjasöm voru róðrar rök.“
Ríkur talaði orðin slík.

73.
„Hægt vér sáum hölda glöggt“,
hryggt nú talar geðið styggt.
„Bægt er þeim í burtu snöggt,
byggt er það so undarligt.“

74.
„Vil eg ekki um síldar sal
í sólhverfingum eiga ról.
Til því landsins skipa skal,
skjól er lítið um síldar ból.“

75.
Sneru aftur þegnar þar,
þeir ei vilja sækja meir,
reru fleyi fljótt af mar,
fleiri síðar rjóða geir.

76.
Endar nótt um græna grund,
gröndin birtast raunavönd.
Kenndan báru hafs af hund
höndum Bárð og firrtan önd.

77.
Kom þá Gunnar hryggur heim,
hræmuleg var ferðin slæm,
sómadauf hjá drengjum þeim
dæmist hún og skaðanæm.

78.
Fóru höldar fimm og þrír,
fyrr með Bárði héldu styr,
í Noreg brátt með borða dýr,
byrinn kom þá hægur og kyr.

79.
Hittu kóng og hermdu satt,
hlýtt var á það málið nýtt.
„Mitt“, kvað tiggi, „talið glatt
títt það Bárði greindi blítt.“


80.
Stuttan, breyttan hnýtti hátt,
hætti þrátt er kætti sætt,
fluttan, þreyttan býtti brátt,
bætti fátt í þætti rætt.