Tvö brúðkaupskvæði I | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tvö brúðkaupskvæði I

Fyrsta ljóðlína:Í brúðkaupi ef verður á veitingum hlé
bls.87
Bragarháttur:Sex línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcc
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1885
Í brúðkaupi ef verður á veitingum hlé,
og vínlaus ef boðsgestur situr,
þá stendur hann upp – nema studdur hann sé –
og stanslausa prédikun flytur.
Þó fari í óskilum efni og mál
er endirinn góður og fyllir manns skál.

Því brúðhjóna minnið sú uppspretta er –
svo á fyrir skál þeirra að mæla:
að þrámálga að ást sé í almætti hér
og af henni stafandi sæla,
og hrósa því rétt eins og hefðu nú fyrst
í hjóna-sæng manneskjur faðmast og kysst.

Og næst er, að þakka hve vel sé nú veitt –
að vörum sér staupið svo bera.
Sé púnsið ei afkælt en aftaka heitt
má aftanvið ræðuna gera,
og alvaldi senda þá alsherjar bón,
að aldra og blessa in nýgiftu hjón.

En neitirðu að hafirðu heyrt það og séð,
eg held þú sért farinn að gleyma;
eg býð um það vottorð, sem verið hef með,
á vísu um það skrifaða heima,
og rétt í þeim skorðum, sem skýrði eg frá –
og skáldmæltur var eg nú kallaður þá.

En nú vil eg helst ekki hafa það eins,
þó halli það skáldgæfu minni –
í kveld væri óþarft að óska hér neins,
öll ánægja býr hér að sinni.
Og haldið eg bætti ei úr basli mín sjálfs
ef bæn mín og óskirnar næðu til hálfs?

En hvað get eg áhitt í óskanna stað?
Jafn armur og bænalaus maður!
Þið brúðhjón, ef lánið snýr öllu ykkur að,
Eg ann ykkur þess, og verð glaður.
Og ætti eg gæfu að greiða ykkar veg,
þá gerði það enginn neitt fegnari en eg.

Og ef ykkur mótlæti mætir, og þið
ei megið það forðast, að líða,
að guggnið á þrekinu þrautirnar við
af þolleysi, skal eg ei kvíða –
öll jarðneska sælan er sigur i raun,
menn sækja ekki á himininn fegurri laun.