Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Á Rauðsgili

Fyrsta ljóðlína:Enn ég um Fellaflóann geng
Viðm.ártal:≈ 1925
Flokkur:Ævikvæði

Skýringar

Almenna reglan er að hver braglína hefjist á tveimur þríliðum en iðulega stendur tvíliður í stað annars þeirra í kvæðinu.
1.
Enn ég um Fellaflóann geng,
finn eins og titring í gömlum streng,
hugann grunar hjá grassins rót
gamalt spor eftir lítinn fót.
2.
Hugrökk teygist á háum legg
hvönnin fram yfir gljúfravegg,
dumbrauðu höfði um dægrin ljós
drúpir hin vota engjarós.
3.
Löngum í æsku ég undi við
angandi hvamminn og gilsins nið,
ómur af fossum og flugastraum
fléttaðist síðan við hvern minn draum.
4.
Mjaðarjurt, hvað þú ert mild og skær,
mjög er ég feginn, systir kær,
aftur að hitta þig eina stund;
atvikin banna þó langan fund:
5.
Handan við Okið er hafið grátt,
heiðarfugl stefnir í suðurátt,
langt mun hans flug áður dagur dvín,
drýgri er þó spölurinn heim til mín.