Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Minni Steingríms Thorsteinssonar

Fyrsta ljóðlína:"Þú Vorgyðja" kemur úr suðrænum sal
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1911

Skýringar

„Á áttugasta afmælisdegi hans, 19. maí 1911.“
1.
„Þú Vorgyðja“ kemur úr suðrænum sal
með söngvana, gleðina’ og vorið,
og árdegishljómanna hlustandi dal
þú hefur með geislunum borið.
Þú sýndir oss vegina’ og víðsýnin blá,
og vaktir oss unga við hljómana þá.
2.
Og röddin, sem kallaði’ að kotunum heim
og kvaddi’ út í lífið og daginn,
var fjallanna bergmál af bylgjunum þeim,
sem brutust hér norðr yfir sæinn,
og aflið, sem fossandi fyllti þann óð,
var fjarlægu sonanna móðurlands blóð.
3.
Og það varð sú herhvöt, sem hóf okkar mál
og hratt af oss feðranna byrði,
allt það sem kveikir í sonunum sál
og sögunni’ er einskildings virði;
sá morgunn, sem færði’ okkur metnað að gjöf
og móðurást þá, sem oss fylgir i gröf.
4.
Þó munum við best hvernig börnunum leið
í „Brúðsöngnum“ vaggandi þýðum,
er vornóttin einsömul vakandi beið
hjá vinum í „Unadals“ hlíðum.
Og æskunni fannst þetta ort fyrir sig,
og elskaði, Steingrímur, vorið og þig.
5.
Þann sigur á skáldið með hörpuna’ á hné,
að hlýtt er við ljóð inni’ í dölum;
því vetur er einatt hjá völdum og fé,
en vor er hjá syngjandi smölum.
Oss fannst þegar ljóðin þín leituðu heim,
sem lóan og hlýindin kæmu með þeim.
6.
Og vel gerðu, Steingrímur, vordísir þær,
sem vögguljóð yfir þér sungu,
sem leiddu þinn „Morgun“ á ljóshvelin tær
og lögðu þér „Vorhvöt“ á tungu.
Og frítt er þitt „Haustkvöld“ og fagur þinn krans
úr fornvina þökkum og aðdáun lands.