Þú, kristin sála þjáð og mædd | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þú, kristin sála þjáð og mædd

Fyrsta ljóðlína:Þú, kristin sála þjáð og mædd
bls.232–244
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBoCoC
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir handritinu Lbs 1529 4to, bls. 46–48. Það handrit er skrifað af Halli skáldi Guðmundssyni, syni Guðmundar Erlendssonar skálds í Felli, líklega á síðasta fjórðungi 17. aldar. Sálmurinn er auk þess varðveittur í 12 öðrum handritum sem vitað er um. Þau eru: Lbs 506 8vo, bls. 159–163; Lbs 1119 8vo, bls. 328–333; Lbs 1335 8vo, bl. 28r–31r; Lbs 1337 8vo, bl. 103r–105v; Lbs 1527 8vo, bl. 67r–68r (brot); Lbs 1724 8vo, bls. 159–162; Lbs 1895 8vo, bl. 35v–39v; JS 208 8vo, bls. 20–26; ÍB 127 8vo, bls. 672–678; ÍB 181   MEIRA ↲
með tón: Náttúran öll og eðli manns
1.
Þú, kristin sála þjáð og mædd,
þreytt undir krossins byrði,
vanmegnast ekki, vert óhrædd
vilji drottins þó yrði.
Þrey, þol og lýð, bið, vona og bíð,
bölið fær góðan enda.
Þá neyð er hæst herrann er næst,
huggun mun hann þér senda.
2.
Þú líður kross og kveinar hátt,
kvíðir máske við dauða,
holdsins vani er þetta þrátt
þegar það kennir nauða,
heldur ætíð við andann stríð;
allir slíkt megum játa.
Styrk muntu þá þurfa að fá
ef það skal undan láta.
3.
Þanninn lætur oss drottinn dýr
deyja frá þessum heimi,
fagurlega sitt fólk tilbýr
fallvöltum auð so gleymi;
hirtir mjög hægt, hér með fær lægt
holdið metnaðargjarna,
grætir um stund, gleður þó lund,
gætir vel sinna barna.
4.
Þú sér að *móðirin mildigjörn,
mjúklát við sitt afkvæmi,
agar þó oft sín elsku börn
so ekki í skaða kæmi;
eftir hirting, auðmýktarslyng,
að sér blíðlega vefur,
afþurrkar klár öll þeirra tár,
ástarkoss margan gefur.
5.
Allt eins fer drottinn að við oss,
orð hans þar ljóst um hljóða,
hirting áleggur, hrís og kross;
hann vill oss allt til góða.
Mitt hörmung í Guðs mildin frí
miskunnar faðminn býður;
elskar þá best hann angrar mest,
er þeim næst sem þyngst líður.
6.
Heyr hvað Esajas hermir ljóst,
heilögum fylltur anda:
„Enn þó sjást megi móðurbrjóst
miskunnarlaust til handa
afkvæmi sín, so ei þess pín
elskudauft hjartað kenndi,
aldrei skal þér þó gleymt af mér,
þitt nafn er í minni hendi.“
7.
Gæt að hvörsu Guðs börnin blíð
báru sinn kross og liðu,
hlutu að reyna stundlegt stríð,
*stöðug í trúnni biðu;
*Job og *Móses, vér minnunst þess,
mjög þjáðir lengi vóru;
*Davíð og fann, sá drottins mann,
djúpin hryggðanna stóru.
8.
Hvör var meir virt en Maríá,
móðir drottins vors herra?
hlaut þó krossfestan son sinn sjá,
sár hans ei fékk að þerra.
Harmasverð beitt réð hjartað heitt
hennar í sundur grafa;
drottni mest kær sú milda mær
mun þó víst verið hafa.
9.
Já, Guð vildi sinn son til sanns
með soddan skarti prýða.
Því væri blíðri brúði hans
best og fegurst að líða
hvað loflegt er í heimi hér,
honum samlíkjast mega,
og Jesú hjá í himininn há
heimvon farsæla eiga.
10.
Kannske að þar um kvartir þú
og kennir vel holdið veika,
þér virðist so sem von og trú
vilji *hvarfla og skeika.
Þrátt stendur naumt þolgæðið aumt,
þjáningin lengi dvelur;
bænin er köld, misgjörð margföld
mjög soddan hjartað kvelur.
11.
Ekki er trúin þitt eigið verk
enn þó hún veikleg standi,
þolinmæði í þrautum sterk,
það gjörir heilagur andi.
Hvað hann upptók hér gaf og jók,
hjálpsamlega framkvæmir,
vanmegnan þá sem er þar á
aldrei hans náð fordæmir.
12.
Bænin ef virðist veik og stirð,
varastu þó að trega,
í augsýn drottins vel er virð;
vor Jesús fagurlega
þýðir það allt sem sýnist kalt
sé hún gjörð í hans nafni.
Það offur mest á sér hann best,
ei trú eg Guð því hafni.
13.
Hygg að því barni mest er mjúkt
móðurhjartað ágæta
vanmegna sem hún sér og sjúkt,
sýnir því hjúkun mæta.
Eins er Guðs hönd angraðri önd
ætíð sem nákvæmastur,
ástríkur best og blíður mest,
við börn sín veik trúfastur.
14.
Brákaðan reyr ei brýtur hann
né blæs út hör rjúkanda,
glataðan sauð fagnandi fann,
frávilltum lét ei granda;
á herðum sér heimleiðis ber,
hvör má oss þaðan draga?
veika sál mest bívarar best
bæði nætur og daga.
15.
Í Jesú nafni þú bið og bíð,
brúðguminn fullsnart kemur.
Hans ásján er þér hýr og blíð.
Hvað viltu girnast fremur?
Þín harmatár afþurrkar klár
þýð drottins höndin skæra.
Hér við þig skalt hugga ávallt.
Heilnæmt er slíkt að læra.
16.
Langt þó finnist að líða hér
lítil stund má það heita:
Óendanleg sú eilífð er
sem oss vill drottinn veita,
unaðsemd þá sem aldrei má
upphugsa mannlegt hjarta.
Vær lifum með fró, friðsemd og ró,
fagrir sem ljósið bjarta.
17.
Út er þá staðin öll vor sorg,
angist, hörmung og mæða
í himnaríkis *hreinnri borg
þar heilagir englar ræða
og syngja sætt Sanctus ágætt
segjandi af hjarta: Amen.
Lof, heiður vís, sæmd, sómi og prís
sunginn sé Guði og framen.
18.
Guði sé lof sem glaða von
gaf oss í efnum vöndum
og lét sinn elskulega son
leysa oss frá dauðans böndum.
Hans andinn kær er ætíð nær
öllum sem hörmung líða.
Vær skulum því þjáningum í
þreyja, vona og bíða.
Amen.


Athugagreinar

Athugasemdir og lesbrigði:
Í 4.1 stendur í Lbs 1529 4to: „Þú sér að *móðurin mildigjörn“. Hér er því breytt í „Þú sér að *móðirin mildigjörn“ þar sem beyging Hallgríms á orðinu „móðir“ í eigninhandarriti hans að Passíusálmunum er á reiki.
7.4 stødug] þannig 48, 1335, 1527, 113, 181, 1895, 1119, 208, 1724. stødugir 1529, 1337. stødugt LVb, 1759, 506, 1765, 127, HK1770, 1773. bidu] bidu < blifu 113.
7.5 Job] þannig 1337, 48, 1335, 1527, 113, 181, 1895, 1119, 208, 1724, LVb, 1759, 506, 127, 1765, HK1770, 1773. Jobs 1529.
Moses] þannig 1337, 48, 1335, 1527, 113, 181, 1895, 1119, 208, 1724, LVb, 1759, 506, 127, 1765, HK1770, 1773. Mösess 1529.
10.4 hvarfla] < huarla 1529.
17.3 hreinnri] þannig 1529.