Þjóðminningarsöngvar í Reykjavík III (2. ágúst 1897) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þjóðminningarsöngvar í Reykjavík III (2. ágúst 1897)

Fyrsta ljóðlína:Í blíðri von um bættan hag
bls.262
Bragarháttur:Tvöföld ferskeytla með forlið
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1897
Í blíðri von um bættan hag 
er beri' oss senn að höndum, 
vér þennan höldum þjóðardag 
um þingtíð hér á ströndum;
og hún, sem yfir byggða ból 
sín breiðir ástarhótin, 
hins annars ágústs sumarsól, 
hún signi tímamótin. 

Að bæta stjórn er brýnust þörf, 
sig bæti og hver einn sjálfur, 
og gangi allt það afl í störf, 
sem eyddist fyr í gjálfur; 
menn hatur skulu stöðva og stapp 
og stríð um eigin hagnað, 
og um það heldur ala kapp, 
hver ættjörð mest fær gagnað. 

Það geymi djúpt í sálu sér 
hver systir og hver bróðir, 
að sami stofninn allra er,
og Ísland þeirra móðir. 
Þau láti – þó um þetta og hitt 
sé þráföld sundurgreining, – 
í því að elska þjóðland sitt 
ei þekkjast nema eining. 

Hinn innri krytur – oft það sást –
er eiturskaði bráður, 
en þar sem samhent ættlandsást 
í öllu er rauður þráður, 
þar verður höndin veika sterk, 
þar vinnast heillir fríðar; 
þar burir feðra blessa verk 
í blómgun eftirtíðar. 

Að áhrins verði orðum það, 
að andinn sá hér ríki, 
en hinn, sem niður heillir trað, 
í heljar falli díki. 
Í eining stundum ættlands gagn, 
svo allt til gæfu vendist, 
og herðum til þess móð og magn 
á meðan lífið endist.