Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Hjartað fagnar og hugur minn

Fyrsta ljóðlína:Hjartað fagnar og hugur minn
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir NKS 56d 8vo, bl. 1r–5v, en það handrit var skrifað 1676 fyrir Ragnheiði Jónsdóttur, biskupsfrú á Hólum, líklega af Jórunni Henriksdóttur. Sálmurinn er varðveittur í 12 öðrum handritum sem kunnugt er um en óheill í fjórum þeirra. Handrit þessi eru: Lbs 237 8vo, bls. 71–79; Lbs 782 8vo, bl. 53v (brot); Lbs 1724 8vo, bls. 54–60; Lbs 2158 8vo, bls. 120–127; JS 208 8vo, bls. 139–147; JS 385 8vo, bl. 181v–184v; ÍB 446 8vo, bls. 201–203 (brot); Þjms 11072, bls. 461–465; AM 210 8vo, bl. 56v (brot); SÁM 3, bl. 46r–48v; MS Boreal 77, bl. 172v–174r, og MS Icel. 19, bl. 25r (brot). Hér er útgáfu ljóðmæla alls staðar fylgt nema í 3.10. Sjá Lesbrigði)
Einn ágætur psalmur út af upprisunni herrans Jesu Christi
Tón: Gæskuríkasti gr[æðari minn]. Á spássíu: s.H.P.s.
1.
Hjartað fagnar og hugur minn,
herrann Jesús er upprisinn
kvöl þó á krossi ætti;
árla sunnudags er það skeð
áður en sólin lýsa réð
af Guðs dýrðar almætti.
– Þýður, fríður
engill kemur, kraftinn fremur,
klárt eg greini,
af gröfinni veltir þeim *stóra steini.
2.
Jarðskjálfti mikill skeði þar,
skærastan ljóma engill bar;
varðmenn þá soddan sáu
ótta miklum yfir þá sló,
afl og styrkleika frá þeim dró,
líka sem dauðir lágu.
– Þegar vegar
ljósið skapta lífsins krafta
loksins fengu
heim í borgina hryggvir gengu.
3.
Höfuðprestana hittu senn,
hermdu öll þessi tíðinden;
hinir þeim hétu gáfum:
„Segið að lærisveinarner
sóttu líkamann burt með sér
þegar vér þreyttir sváfum.“
– Hraðir, glaðir
gjaldið þiggja, þar að hyggja,
síðan sögðu
*líka sem Júðar þeim ráðin lögðu.
5.
Áður en dagurinn upprann klár
útgengu af staðnum kvinnur þrjár:
María Magdalena,
móðir Jakobs hins minna var,
með þeim líka Salóme þar.
Þær hugðust Kristó þéna.
– Hryggvar, dyggvar
lausnarans vildu
af ljúfri skyldu líkið smyrja.
Hvör réð aðra hljótt að spyrja:
5.
„Hvör mun burt velta hörðum stein,
hindrar sá oss á marga grein.“
Þegar sem litu þangað,
opin stóð gröf en engill var
alhvítu klæddur líni þar,
hræðsla réð hjartað fanga.
– „Hljóðar, móðar
hryggvar kvinnur“, sagði svinnur,
„Syrgið eigi, upprisinn Jesúm eg yður segi.“
6.
Kvinnurnar glaðar gengu heim,
græðarinn Jesús mætti þeim
segjandi, „verið sælar“.
Þær féllu síðan fram til sanns,
á fætur kysstu lausnarans.
Hann réð hýrlega mæla:
– „Eg bið að þið
mínum blíðum bræðrum þýðum
brátt það innið
í Galílea þér fyrst mig finnið.“
7.
Magdalena á meðan fer
mjög fljótt þangað sem Pétur er
og Jóhannes með honum.
Sagði: „Líkama sælastan
sjá hvörgi eg né finna kann,
burttekinn vær hann vonum.“
– Báðir, þjáðir
undrast þetta er það frétta
og án tafar
út þau gengu nú öll til grafar.
8.
Fyrstur Jóhannes framkom þar,
fornam að gröfin opin var;
Pétur þá greitt inn gengur;
sáu þar lögð línlökin mjúk,
líka þann Jesú sveitadúk;
forundran af því fengu.
– Allskjótt og fljótt
aftur snúa og því trúa
öll að sönnu
burt muni líkið borið af mönnum.
9.
Æpandi María úti stóð,
inn í gröfina horfði fljóð,
englum tveim gaf að gætur.
Varð hún mjög hrædd og við leit þá,
vaktarans garðsins hugðist sjá.
Hann spyr strax hvað hún grætur.
– Hún kvað helst það:
„Minn herrann þýður, hjartans blíður
hér finnst eigi.
Efnið sorgar það eitt eg segi.
10.
Hafir þú borið hann burt með þér
bið eg að, herra, segir mér
svo eg hann þangað sæki.“
Maðurinn *svarar: „Máríá“.
„Meistari“, sagði hún aftur þá,
ei leyfir á sér tæki.
– Öll hryggð og styggð
snýst í gleði, skjótt það skeði
er Kristum kenndi,
heim til postula hana sendi.
11.
Hún kom strax og þeim kunngjörðe
Kristur af dauða risinn sé.
Atburði alla sagði;
hinar konurnar hermdu með
hefðu þær líka Jesúm séð
lífs og í ljúfu bragði.
– Þetta rétta
viku héldu, hug sinn hrelldu,
herrans sveinar.
Sjónhverfingar það sögðu einar.
12.
Til Emáus gengu einir tveir,
um herrans pínu tala þeir.
Það skeður á þessum degi.
Enn so til bar, sem segi eg frá,
sjálfur Jesús nálægðist þá
þó að hann þekktu eigi.
– Hann spyr hugskýr:
„Hvaða hjalið, hryggðartalið
hafið bræður.“
Kleófas ansar með klökkri ræðu:
13.
„Ertu einn svo ókenndur mann
í Jerúsalem að gjörning þann,
sem er fyrir skömmu skeður,
veistu ekki“, enn hann spyr að;
honum Kleófas sagði það:
„Jesús, sem oss var meður
– hæstur, æðstur
af spádómsorðum og gæskugjörðum
fyrir Guði og mönnum
á krossi deyddan, vér sjálfir *sönnum.
14.
Enn nú í morgun árla víst
áður en fékk af degi lýst
kvinnur frá oss út gengu,
lifandi sögðust líta hann,
líklegt það öngvum virðast kann
felmtur því allir fengu.
– Heimska, gleymska
kvað þá báða kóngur dáða;
kenndi síðan:
Kristur svo hefði fengið að líða.
15.
Alla ritning útleggja réð,
opnaði þeirra hugskot með,
skriftina glöggt réð skilja.
Kauptúnið allir nálgast nú,
nær því enduð var leiðin sú
ganga lést lengra vilja.
– Beiddu, neyddu
Krist að bíða, kváðu líða
á kvöldið næsta.
Inn með þeim gengur mildin hæsta.
16.
Settist til borðs og brauðið þar
blessaði sem hans siður var
og síðan að þeim rétti.
Báðir í senn hann þekktu þá
þeirra sjónum hvarf burtu frá;
harmi úr hjarta létti.
Hraðir, glaðir
postulum hinum, herrans vinum,
hér frá sögðu.
Öngvan trúnað þeir á það lögðu.
17.
Á sömu stundu það svo til bar
sjálfur Jesús var kominn þar
og mitt í miðið stendur;
þeim óskar friðar þessu næst,
þá var dyrunum aftur læst,
*sjá lét á sínar hendur.
– Enn þeir því meir
urðu fegnir, óttaslegnir
og þó trúa,
grát réði öllum í gleði snúa.
18.
Ekki var Tómás þá með þeim
en þegar seinna hann kom heim
þeir sögðu allt hið sanna.
„Aldrei trúi eg“, hann ansa réð,
„utan að naglaförin séð
fái með fingri að kanna.“
– Liðu, biðu
átta dagar, dýrðarhagar,
drottinn sætur
að lyktum dyrum kom mildur mætur.
19.
Hjá þeim stóð herrann hýr í mið,
hér næst Tómás svo ræddi við
og vill hann verði glaður:
„Í naglaförin lát fingur þinn,
fljótt legg mér hönd í síðu inn,
vert ekki vantrúaður.“
– „Drottinn, Guð minn“,
sagði dyggur, trúartryggur
tvíburinn fríður.
Aftur Jesús þá ansar blíður.
20.
„Sannlega Tóma trúðir þú
tilsýnd mín þessu olli nú
og eg enn framar segi:
Sæll er sá hvör mig sér ei hér
samt þó af hjarta treystir mér
huggun svo hljóta megi.“
– Fleiri, meiri
jarteikn hrein fyrir sínum sveinum
síðan gjörði
öll þó að greind hér ekki verði.
21.
Við Genesaret-vatnið brátt
voru þeir þá að fiskidrátt
enn sig opinberandi.
Pétur aðspurður þrisvar þar
því játaði sem vonlegt var
að hann Jesúm elskaði.
– Býður, þýður,
lífsins brauði sína sauði
Símon fæddi;
um hans dauða og útför ræddi.
22.
Fjörutigi daga drottinn réð
dveljast hér lærisveinum með
eftir upprisu dýra.
Til himna síðan upp héðan sté,
hjá hönd föðurs almáttugre
situr vor hjálpin hýra.
– Amen, amen,
allar tíðir lofi lýðir
lausnarann góða,
honum skal jafnan heiðurinn bjóða.


Athugagreinar

Lesbrigði:
1.10 stóra] 1682, 11072, 208, 1724, 237, 446, 3, 1751, 1759, 1765, HK1770, 1773, 2158, 19. [st]ora 782. harða 56d.
3.10 líka sem] öll handrit og útgáfur nema Þjms 11082 sem hefur rétt sem að, líklega vegna stuðlasetningar, og er ekki ótrúlegt að svo hafi Hallgrímur ort.
10.4 svarar] þannig 385, 1682, 208, 237, 446, 3, 1751, 1759, 1765, HK1770, 2158, 1773. sagði 56. svarar < sagde 77, 1724.
13.10 sönnum] þannig 385, 77, 1682, 11072, 208, 1724, 237, 3, 1751, 1759, 1765, HK1770, 2158, 1773. sáum 56.
17.6 sjá lét á] þannig 385, 77, 1682, 11072, 208, 1724, 237, 1751, 1759, 1765, HK1770, 2158, 1773. þá lét sjá 56. sjá lét þá 3.