Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Guð á himnum hjálpi mér

Fyrsta ljóðlína:Guð á himnum hjálpi mér
Bragarháttur:Hugbótarlag
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar

Skýringar

LXVIII psalm. eður christilegar iðrunarvísur
Með Hugbótar lag.
1.
Guð á himnum hjálpi mér
og huggi sálu mína.
Særðan huga sorgin sker,
syndir hjartað pína,
þungan kvilla brjóstið ber;
það berst við þanka sína.
Mæðist hold en lengist líf,
langvesælt er harmakíf;
ei vill angur dvína.
2.
Löngum gjöra mér langsamt geð
liðnar ævitíðir.
Heldur seint eg hef það séð,
hefndum sálin kvíðir.
Dauðans ógn og ótti með
oft á holdið stríðir.
Hugraun sú er harla sár,
himnafaðirinn dýrðarklár,
bæti bölið um síðir.
3.
Getinn var eg í sekt og synd
svo mig móðurin fæddi
eftir fornri Adams mynd
eins og Davíð ræddi.
Því er sálin sjúk og blind,
sorgin hjartað mæddi.
Holds náttúran heimsk og villt,
herfilega með öllu spillt,
í vonskunni áfram æddi.
4.
Snemma hefur bernskan blekkt
barndóms hug og sinni
áður fyrri en fékk það þekkt,
frá því skýra kynni,
að styggja Guð en safna sekt,
sálu að glata minni
var hið fyrsta verkið mitt,
voldugur Jesús, nafnið þitt
bót á böli vinni.
5.
Lengi hefur þó leitast við
líknarfaðirinn mildi
að leiða mig frá lastasið
so lífið öðlast skyldi;
með þolinmæði og *blíðri bið
bjarga mér hann vildi,
en eg sló því öllu í vind,
elskan holds og dárleg synd
heimsku hjartað fylldi.
6.
Illa hefur mig holdið ginnt
og heimsins lystin bráða.
Sathan sló mér svikamynt,
sést nú fátt til ráða.
Því er hjartað blekkt og blint,
það bið eg Guð að náða.
Þreyi eg við þann hryggðarhag,
harmar bæði nótt og dag
sálin þrautarþjáða.
7.
Guð minn hefi eg raunar reitt
til reiði og heiftarbræði,
hans milda náð og þolgeð þreytt
með þrjósku og synda æði,
yfir mig grimma glötun leitt
gamall og ungur bæði.
Samviskan því særð er mín,
sæti Jesús, gæskan þín
hana huggi og græði.
8.
Um síðir þó ég setji mér
syndagirnd að deyða
holds náttúran þrjósk og þver
þangað vill mig leiða
sem tíðast áður tamdi hún sér
á töpunarveginn breiða.
Viljinn ekki fær sig frí,
fjötrum dauðans vefst eg í,
sárlega mig þau meiða.
9.
Hvörki ber eg til hug né dáð
hjálp mér sjálfum veita,
einskis nýt eru öll mín ráð
þó ætti eg þeirra að neyta.
Jesús minn hefur nóga náð,
nú vil eg þangað leita.
Hann mun aumur á mér sjá,
eflaust fæ eg huggun þá
sem bölinu kann að breyta.
10.
Þó stærri virðist misgjörð mín
en má eg sjálfur greina
meiri er, Jesús, mildin þín
og miskunn gæskuhreina.
Hjá þér aldrei hjálpin dvín,
helst mun eg það reyna.
Hér við hressist hjartað mitt,
heilagasta blóðið þitt
er lækning minna meina.
11.
Þó gengið hafi eg glæpastig
gálaus mörgu sinni,
elskað hold en hatað þig
af heimsku og ofdirfð minni,
góði Jesús, mundu mig
í miskunnsemi þinni.
Særð og lemstruð sálin er,
sýndu vægð og linkind mér
so hjartað huggun finni.
12.
Mig hefur djöfullinn sárum sært
og svikið af lífsins vegi,
kranka sálu úr klæðum fært,
hún kann sér bjarga eigi,
öllum krafti tapað og tært,
tjón það mest eg segi.
Ó! þú sæti Samarítan,
sjáðu aumur á þeirri smán
so eigi eg út af deyi.
13.
Góssið það eg þáði þrátt
af þinni gæskuhendi
illskugirndin eyddi brátt,
aftur drafið sendi.
Hef eg so lengi hungra mátt,
heim nú loksins vendi.
Tak þú við mér útlegð úr
eins og faðirinn hjartatrúr
í brjóst um barnið kenndi.
14.
Lækna fyrir þinn dýran deyð,
drottinn, sálu mína,
fárleg syndafjötur greið
so finni eg huggun þína,
villtan sauð á veginn leið,
varginn lát ei pína,
opna hug og hjartað mitt
so heilagt náðarljósið þitt
skært þar megi skína.
15.
Hjá föður þínum legg mér lið,
lausnarinn Jesús góði,
so eg finni sátt og frið,
sviptur þungum móði,
auðmjúklega eg um það bið
af ást og táraflóði.
Segðu eg sé orðinn einn
af öllum syndum klár og hreinn,
þveginn í þínu blóði.
16.
Framdar syndir forlát mér,
faðirinn dýrðar sæli.
Fyrir Jesú dýrstan dreyra hér
af döprum hug eg mæli:
Kastaðu ei frá augum þér
ómaklegum þræli;
efldu líf með ást og dáð
so aldrei mig frá þinni náð
freisting nokkur fæli.
17.
Á fyrirheitin heilög þín
af hjartans grunn eg treysti;
frá djöfli, synd og sárri pín
son þinn kær mig leysti;
með beiskri kvöl og benjum sín
barn sitt fallið reisti.
Herra Guð, mér hjálpa þú
so haldist eg við rétta trú
þó frekt *mín Satan freisti.
18.
Heilags anda hjálpin þýð
hug og sinni geymi
so aldrei héðan af illskustríð
yfir mig syndin sveimi;
þá döpur nálgast dauðans tíð
drottinn sálu geymi..
Veiti mér þín líknin lið,
leið í eilífan dýrðar frið
*héðan úr þessum heimi.
19.
Allar skepnur allan tíð
af öllum hug og rómi
syngi þér lof sem veröld er víð,
voldugur drottinn frómi.
Jesú Christo þökkin þýð
þar með fögur hljómi.
Heilögum anda á himni og láð
fyrir huggun, styrk og líknarráð
aukist æra og sómi.


Athugagreinar

Amen.
(JS 208 8vo, bls. 229-234 og Lbs 1724 8vo, bls. 129–130)
Á sama stofni er síðan byggt
syndagrandið fleira.
Guð hef eg mjög úr máta styggt
sem mest er raun að heyra,
anda hans og engla hryggt
æ því lengur og meira.
Hefndin sár fyrir höndum er
nema hjálpi hinn góði Jesús mér
fyrir sinn dýrstan dreyra.
Geymdu mig frá sekt og synd
við sannleik þinn alleina,
örvænting úr huga hrynd
hvað sem fæ að reyna
so villi mig aldrei veröldin blind
af veginum lífsins hreina.
Þess eg bið af ljúfri lund
lát ei sál á dauðastund
kenna kvala né meina.
(JS 272 4to II, bl. 339r–340r)
Lesbrigði:
17.9 mín] < H 1759, H 1765, HK 1770 og H 1773, JS 496 8vo og JS 223 8vo. mig
18.9 Lbs 1724 8vo.
18.9 héðan] < H 1759, H 1765, HK 1770 og H 1773, JS 496 8vo og JS 223 8vo. heiedann Lbs 1724 8vo.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 3, bls. 52–58. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir JS 208 8vo, bls. 229–234, aftur í 4. línu 16. erindis (en þar eftir vantar í kvæðið í handriti) og síðan eftir Lbs 1724 8vo, bls. 126–130, sem trúlega hefur verið skrifað eftir JS 208 8vo, en lok kvæðisins vantar í það. Tvö síðustu erindin, sem eru ónúmeruð, eru skráð eftir JS 272 4to II, bl. 339r–340r. Óvíst er að þau erindi hafi fylgt sálminum frá upphafi og séu eftir Hallgrím. Hér er algerlega farið eftir útgáfu ljóðmæla og lesbrigði tekin úr útgáfum Hallgrímskvers eins og þar. Önnur handrit og útgáfur, sem stuðst er við, eru: JS 272 4to II, bl. 497v–498r (tvö aukaerindi); JS 85 8vo, bl. 57v (tvö aukaerindi); JS 223 8vo, bl. 116r–118v; JS 496 8vo, bls. 291–294, og Hallgrímskver: H1759, H 1765, H 1770, K1770 og H 1773)