Í Betlehem er barn oss fætt | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Í Betlehem er barn oss fætt

Fyrsta ljóðlína:Í Betlehem er barn oss fætt
Þýðandi:Valdimar Briem
Bein slóð að efni
Bragarháttur:Þrjár línur og stef
Viðm.ártal:≈ 1900

Skýringar

Latneskur sálmur frá 14. öld. Sbr: Annar lofsöngur og Puer Natus in Betlehem.
I

1.
Í Betlehem er barn oss fætt,
barn oss fætt.
Því fagni gjörvöll Adams ætt.
Hallelúja.

2.
Það barn oss fæddi fátæk mær,
fátæk mær.
Hann er þó dýrðar Drottinn skær.
Hallelúja.

3.
Hann var í jötu lagður lágt,
lagður lágt,
en ríkir þó á himnum hátt.
Hallelúja.

4.
Hann vegsömuðu vitringar,
vitringar,
hann tigna himins herskarar.
Hallelúja.

5.
Þeir boða frelsi’ og frið á jörð,
frið á jörð
og blessun Drottins barnahjörð.
Hallelúja.

6.
Vér undir tökum englasöng,
englasöng,
og nú finnst oss ei nóttin löng.
Hallelúja.

7.
Vér fögnum komu frelsarans,
frelsarans,
vér erum systkin orðin hans.
Hallelúja.

8.
Hvert fátækt hreysi höll nú er,
höll nú er,
því Guð er sjálfur gestur hér.
Hallelúja.

9.
Í myrkrum ljómar lífsins sól,
lífsins sól.
Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól.
Hallelúja.

II
Í Barnasálmum Valdimars frá 1893 er það sem virðist eldri þýðing hans á sálminum:
1.
Í Betlehem er barn eitt fætt,
barn eitt fætt,
í Davíðs borg af Davíðs ætt. –
það blessað barn.

2.
Hið gamla fólkið gladdist þá
gladdist þá
er frelsara sinn fékk að sjá, –
það blessað barn.

3.
En ungir gleðjast einnig með,
einnig með;
þeir lausnarann fá líka séð, –
það blessað barn.

4.
Já, góðu börnin gleðjast enn,
gleðjast enn;
og allir gleðjast góðir menn
við blessað barn.

5.
Já, barn mitt, allra gleð þú geð,
gleð þú geð,
þá guð þú sjálfan gleður með,
mitt blessað barn.