Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Í Betlehem er barn oss fætt

Fyrsta ljóðlína:Í Betlehem er barn oss fætt
Þýðandi:Valdimar Briem
Bragarháttur:Þrjár línur og stef
Viðm.ártal:≈ 1900

Skýringar

Latneskur sálmur frá 14. öld. Sbr: Annar lofsöngur og Puer Natus in Betlehem.
I

1.
Í Betlehem er barn oss fætt,
barn oss fætt.
Því fagni gjörvöll Adams ætt.
>Hallelúja.
2.
Það barn oss fæddi fátæk mær,
fátæk mær.
Hann er þó dýrðar Drottinn skær.
>Hallelúja.
3.
Hann var í jötu lagður lágt,
lagður lágt,
en ríkir þó á himnum hátt.
>Hallelúja.
4.
Hann vegsömuðu vitringar,
vitringar,
hann tigna himins herskarar.
>Hallelúja.
5.
Þeir boða frelsi’ og frið á jörð,
frið á jörð
og blessun Drottins barnahjörð.
>Hallelúja.
6.
Vér undir tökum englasöng,
englasöng,
og nú finnst oss ei nóttin löng.
>Hallelúja.
7.
Vér fögnum komu frelsarans,
frelsarans,
vér erum systkin orðin hans.
>Hallelúja.
8.
Hvert fátækt hreysi höll nú er,
höll nú er,
því Guð er sjálfur gestur hér.
>Hallelúja.
9.
Í myrkrum ljómar lífsins sól,
lífsins sól.
Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól.
>Hallelúja.
II

Í Barnasálmum Valdimars frá 1893 er það sem virðist eldri þýðing hans á sálminum:
1.
Í Betlehem er barn eitt fætt,
barn eitt fætt,
í Davíðs borg af Davíðs ætt. –
>það blessað barn.
2.
Hið gamla fólkið gladdist þá
gladdist þá
er frelsara sinn fékk að sjá, –
það blessað barn.
3.
En ungir gleðjast einnig með,
einnig með;
þeir lausnarann fá líka séð, –
>það blessað barn.
4.
Já, góðu börnin gleðjast enn,
gleðjast enn;
og allir gleðjast góðir menn
>við blessað barn.
5.
Já, barn mitt, allra gleð þú geð,
gleð þú geð,
þá guð þú sjálfan gleður með,
>mitt blessað barn.