Kötlukvísl | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kötlukvísl

Fyrsta ljóðlína:Drynur und fjallsrótum, dimm eru ský
bls.127–129
Bragarháttur:Fimm línur (þríliður) fer- og þríkvætt aabbO
Viðm.ártal:≈ 1800
Flokkur:Náttúruljóð
Kötlukvísl
1.
Drynur und fjallsrótum, dimm eru ský,
döpur er sunna, en náfölum í
jöklinum Skaftafells meinvættur mest
magnar þá dynki, en ólga fram sést
fljót undan fjalli yfir sanda.
2.
Jökulfljót rennur af sandinum svart
sent uppúr náheimum berg gegnum hart,
dökk gnæfa feigðarkuml eyrinni á,
sem ógróin leiði yfir jörðuðum ná
um kirkjugarð strjállega standa.
3.
Í austri sést jóreykur, gjörist þá gnýr,
gumasveit ríðandi að móðunni snýr:
sýslumaður Öefiord og presturinn Páll,
prúðorður Benedikt – stansar þá áll –
og ýta sem fleiri þeim fylgja.
4.
Drynur und fjallsrótum, dimm eru ský,
dauðinn þar kallar: „Ó! leggið útí.“
Benedikt Öefiord og presturinn Páll,
prúðmennin, segja þá „fær er sá áll“ –
en þeim varð hann bana þó bylgja!
5.
Þeir ríða í jökulfljót svart allir samt,
og sem þeir frá landi komnir vóru skammt
dauðinn úr launsátri fjallsrótum frá
framhljóp í öldu úr jökli hvítblá
með strauminum þeirra til þriggja.
6.
Reiðskjótar duttu, og duttu reiðmenn,
því dauðinn er sterkur, og allir þrír senn
losna frá fákum, en fætur þó á
fírar tveir komust, en prestur ei sá
framar á foldu að skyggja.
7.
Frá unnunum svörtu til ljósheima leið
og lukkuna stríðlaust þá vissustu beið.
Hinir tveir, Öefiord og Benedikt, brátt
bárust á grynning en treystu ei mátt
aftur að leggja að landi.
8.
Því Benedikt ellin hafði aflinu svipt,
en Öefiord hann studdi, til burtu gat kippt
vatnskuldinn önd hans frá unnunum blá,
en Öefiord þá landstaddir fylgjarar sjá
einmana á eyrinni standa.
9.
Hann veður þá útí og stefnir að storð
og sterklega frambraust – en búið er morð!
það drynur í fjallsrótum! dauðinn því frá
dapurri í jöklinum meinvætti þá
framvalt í annarri öldu.
10.
En strauminn hann kljúfandi lagði fram leið,
sem lífstraum í mótlæti – aldan framskreið,
gnæfði yfir höfuð, og harkaði þá
hlakk undir jökulrót, Skaftafells frá
helbruna býlinu köldu.
11.
Með Þórarni Öefiord í unnir þar hné
atgjörvi og ráðvendni jafnan í té,
aldurtjón snillingur ungur þar beið,
en alséðan fósturjörð skaða þar leið. –
Sá helst til var harmurinn þungur!
12.
Forðastu að ríða þann feigðar um sand,
í fjallinu er Katla, og ætlar þér grand,
kaldhlátur dauða þar gellur í gjá,
en grátandi Skaftafells landvættir tjá
„Æ hví dó hann Öefiord svo ungur!“