Skógarilmur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Skógarilmur

Fyrsta ljóðlína:Ég byrgist við runnalimið lágt
bls.54–56
Bragarháttur:Fimm línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaaB
Viðm.ártal:≈ 1925

Skýringar

Tvíliðir standa stundum í þríliðar stað og forliðurinn fellur niður í stöku tilviki. Oftast fylgir Einar þó mynstri háttarins.
1.
Ég byrgist við runnalimið lágt.
Í lognkyrrð öll hlíðin glitrar.
Sólin sér hallar frá hádegisátt.
Ég hlusta á skógarins andardrátt
og ilmbylgjan um mig titrar.
2.
Hún streymir og ber á brott minn hug
til baka, til liðinna daga.
Mér gleymast árin mín tug eftir tug,
mér tíminn finnst horfinn sem örvar flug
og allt sem ein augnablikssaga. –
3.
Ég minnist, ég minnist eins dýrðardags
í dögun míns vaknandi anda,
þá lund mín var blíð og bljúg sem vax.
Í barnahóp lék ég til sólarlags
um ilmskóg sem eldar nú granda.
4.
Og rétt eins og nú ég byrgðist við björk
með blikandi, titrandi greinum.
Ég var þar í felum, í ungviðsins örk,
alsæll og fávís sem dýrið á mörk,
í sveimi af hrópandi sveinum.
5.
Í gegnum laufþaksins ljóra ég sá
ljómann af vorinu bjarta.
Mig snart einn geisli frá bláloftsins brá;
ég brjótast og iða fann lífsins þrá
í eggskurns hjúpi míns hjarta.
6.
Ég hlustaði á þrastanna mjúka mál
við moldina bundna og þunga
og hneigði mín eyru að hljómsins skál;
ég hreyfast fann einhvern kraft mér í sál
sem vængi hins ófleyga unga.
7.
– Ég man þennan töfrandi birkiblæ
og bjarmann á vordagsins hvarmi,
sem fyrst dró mín augu að algeimsins sæ,
sem andaði fyrst á eitt skjálfandi fræ
er byrgðist mér djúpt í barmi.
8.
Nú finn ég hve ilmbylgjan að mér ber
með eldsárum, tregandi kvíða
hið liðna, hið horfna sem liðið er.
Lund mína minningar-bjarminn sker
og svipir í augum mér svíða.
9.
Ég kenni ei lengur þá kvikandi þrá
þó kvaki skógarins þrestir.
Með alvöru hljóðri er himinsins brá,
mörg hjarta míns fræ eru kulnuð strá
og sólgeislar vonanna sestir.
10.
Helið og gleymskan sinn höggstað á,
þar hlaðast þeir visnu kestir.
Björkin, sem minningin berst mér frá,
er brennd og runnurinn felldur í lág
og drengirnir dánir flestir.
11.
En nú er minn hugur þó heill og frjáls,
ég hlusta þá náttúran þegir.
Ég veit hvað stenst eyðingu axar og báls.
Minn andi er vaknaður til sín sjálfs
og vængirnir vaxnir og fleygir.