Persíus rímur – fyrsta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Persíus rímur 1

Persíus rímur – fyrsta ríma

PERSÍUS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Öllum sé þeim óskað góðs
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Öllum sé þeim óskað góðs
er óði hlýða mínum,
kveiking orða kveður hljóðs
af kunningjunum mínum.
2.
Reiðubúinn ræðst eg til
rímnavers að semja,
mættu hlotnast hróðrar skil
hörpu Sónar temja.
3.
Skemmta öðrum og svo mér,
ef einhvör vildi heyra,
hugur og vilji einatt er,
en öngvan hlutinn meira.
4.
Öðru megin mælsku skort
má eg hjá mér finna,
en annars vegar yndið kort
og einveru fásinna.
5.
Hvað skal þeim að dilla dátt
sem drifinn er burt frá mengi,
hvörsu sem hann hljóðar hátt
heyrir til hans engi.
6.
Til að sýna mannvits mót
mærð á fætur reisi
og með stuttri bragarbót
bekkinn skálda leysi.
7.
Hér má letruð ljóðakorn
lesa á kveri mínu,
þjóðin kallar fræði forn,
fyrr voru á látínu.
8.
Hlýði til hvör sem heyra kann
og hefur ei skemmtan betri,
en njóti hvör er nema kann
nytsama grein úr letri.

9.
Acrisíus öðling réð
utan á Grikkja láði,
dóttur átti drottning með,
hún Danae heita náði.
10.
Sú var drósin dægileg,
drengi má það tæla,
mælskustuttur strax verð eg
stórum vænleik halda.
11.
Bar hún þó af brúða ferð
sem brennda gull af eiri
eða perlan pardus verð
af potta rauðum leiri.
12.
Fylkir hafði fengið spá,
fæddist sveinn af sprundi
sem sinn afa fjöri frá
fella og ríkjum mundi.
13.
Í læstum turni lukti mær,
lét úr málmi smíðast,
so enginn skyldi afmors fær
auðar gefni þýðast.
14.
Danae sat öll dægur ein
þó dögling stundum kæmi.
Setur hann fyrir silkirein
sauma og annað næmi.
15.
Umgang hefur enginn þar
utan sjálfur tiggi,
því ekki neinum unnt þess var
inni hjá meyju byggi.
16.
Hilmir þykist heldur traust
hafa um sætu búið,
ætlar að lifa uggalaust,
en upp á hitt mun snúið.
17.
Fyrir að spyrna fráleitt er
forlög Adams barna.
Eður hvörninn lukkast lofðung hér
lagnaðinum að varna?
18.
Kóngsins mær í koparturn
kreppist utan ferða,
margir fá af meyju spurn,
mun þar raun á verða.
19.
Einn dag situr æskilín
undir hússins glugga,
sólin mitt í suðri skín,
sá þar enginn skugga.
20.
Úr lofti inn um ljórann datt
líkast daggar regni,
draup í kjöltu gullið glatt,
gleðst því svanninn fegni.
21.
Hyggur hún slíka himnagjöf
hafi sér guðinn senda,
breiðist undir utan töf
oturs verðið brennda.
22.
Fyrri ei veit til frúin þar
en flæðar bríminn skæri
að karlmanni orðinn var
og allvel gengur næri.
23.
Mærin lét þar meydóminn,
móðurnafnið keypti,
í gyllinregni rétt um sinn
ræsir út sér steypti.
24.
Eftir níu mána mund
mærin þegar að bragði
fæddi son á sömu stund,
svein á brjóstið lagði.
25.
Nú sem þengill þangað er
þegar kominn að vitja,
undrast frú með augum sér
undir barni sitja.
26.
Kemur að honum stans og styggð
með stóru ofsa sinni:
„Hvaðan kemur bölvuð blygð
byrjuð dóttur minni?
27.
Bana hef eg heitið þér
happalausu vífi,
ef þú brygðir útaf hér
erlegu hreinlífi.
28.
Sé eg hvorki vill né vel
vöktun örugg duga
né forboð mitt, því fáheyrð vél
fengu það yfirbuga.
29.
En hvorki skal sá hóru son
yfir höfði mínu standa,
né fleiri barna verða von
af vefju góins landa.„
30.
Hilmir leiddi hringþöll út,
hélt hún á sínu jóði,
fetar ofan að fiska lút
fylltur grimmd og móði.
31.
Er hún þá rétt sem lítið lamb
leóns með hrammi dregin,
sitt þó stærir dýrið dramb,
digurt bógna megin.
32.
Snótin vill afsaka sig,
sér væri ekki að kenna,
orðum með áminnilig
mýkja vill ofsa þenna.
33.
Faðirinn væri sá að svein
sem að er hærri mektar,
kunni nokkra klóka grein,
kóngur eður stærri slektar.
34.
Byrgir hann allan bænastað,
bt´ðin ein skal ráða,
víkur brotnum báti að
með barnsmóðurina þjáða.
35.
Ofan í þetta ferjuflak
fleygðist svanninn hýri,
út á opinn æginn rak,
árar brast og stýri.
36.
Rétt af landi stormur stóð,
stillir vill so kjósa,
undan spennir fagra fljóð,
firrtist strönd og ósa.
37.
Þengill horfði á þangað til
þau bar á víðinn bláa,
sýndist ofan í svartan hyl
sökkva ferjan hláa.
38.
Kvað þar hefði kafnað spá
konstra norn er sagði,
sem þau vondu ósköp á
öðlings forlög lagði.
39.
Kænuhróf með kvendi hrekst,
kafna ekki náði,
til bjargar alltjafnt eitthvað leggst
ófeigum að ráði.
40.
Bylgju köfin kannar drós,
kvíddi við að deyja,
ein þar fyllti, önnur jós
aldan, mátti segja.
41.
Barni hélt hún hvað á gengur,
hvort mun æpa meira.
Sem eg ekki um svannann lengur,
við söguna kemur fleira.
42.
Framar greina fyrst eg hlýt,
frá Danae reika,
Júpíter hét kóngur í Krít,
kunni margt að leika.
43.
Megtugasti í miðjum heim
milding um það leyti
talinn var að tign og seim,
títt er vífi hans heiti.
44.
Fjölvitugur á konstra kyn,
kynngi og missýningar,
marglátt fróður á meistara dyn
með álrúnir slyngar.
45.
Eftirlits þá ellin vann
aldurinn leyfa honum,
heiðnir frá eg héldi hann
hæstan af guðonum.
46.
Einn plánetinn og svo er
af hans nafni heitinn,
fagur og vænn sem vitum vér,
vænstur um stjörnu reitinn.
47.
Sá var fylkir faðir að svein
fyrrgreindum í ríki,
bólað hefur með baugarein,
brugðist gulls í líki.
48.
Tiggi hefur talið til
tíma þann er hún skyldi
ala barn með eðlis skil,
aftur hverfa vildi.
49.Uggði hann að græðgi grams
granda mundi svanna,
setur upp faldinn siglu gamms,
siglir um leiðir hranna.
50.
Var það ekki vonum fjær,
víst sér hetjan búna,
Grikklands megingeimi glær
gín yfir barn og frúna.
51.
Júpíter í sjóvolk sárt
sækja vífið náði,
berast lét með barnið klárt
og brúði að eyjar láði.
52.
Serifus hét útey ein
er hún nam að lenda,
dularklæðum kóngurenn
kæru gjörði í venda.
53.
Hvarf hann burtu þar frá þeim,
þorði ei með fíki
færa barn og frillu heim
fyrir konuríki.
54.
Því Júnó drottning stolt og stygg
straffar Jóvis klæki
ef það vissi falda Frigg
fram hjá sér hann tæki.
55.
Danae fjármann finna réð,
fullvel þóttist veiða,
brúði tók og barnið með,
beinan veitti greiða.
56.
Þótti vænt um þorna Lín,
þenkti eignast brúði,
eins og báðum augum sín
unni menja Þrúði.
57.
Vífið öllu veik á frest,
verst með soddan hætti,
vanmáttug og lasin lést
lífinu síðan hætti.
58.
Fróni þessu einn ræsir réð,
reikar hann um stundir
einn dag liði ýta með
út um þorp og grundir.
59.
Sér hann skammt frá sínum veg,
sat við hirðirs leyni
Danae heldur dægileg,
dillaði ungum sveini.
60.
Leist honum vel á lauka hlíð,
lagleg sýndist kæri,
ávarpar með orðin blíð
auðþöll hvör hún væri.
61.
Lengi var hún til þess trauð
telja nafn og ættir,
lofðung gleðst og gullskorð bauð
greiða tryggð og sættir.
62.
Þá kóngurinn veit hvað kæran er
kyngóð, dýr í haldi,
hefur frúna heim með sér
hirðirs burt úr valdi.
63.
Sér að giftast sætu bað,
sæmdir vann að bjóða,
vannst um síðir þengil það
þorns var föstnuð tróða.
64.
Pílumnus hét kóngur kænn,
kenndur að sínu nafni,
stillir bæði sterkur og vænn,
stoltra herra jafni.
65.
Ólst þar upp hinn ungi mann
sem áður vann eg skýra.
Persíus kallar hoffólk hann
hans og móðirin dýra.
66.
Fegurð hans og frábærleik
flestir mundu kjósa
en mín er of dauf mærðar kveik
það mynduglega að glósa.
67.
Kinnin rjóð sem rósin dýr,
rétt var munnur í lagi,
ennið fríða, augun hýr
eins og geislann sæi.
68.
Hörundið bjart sem hvíta mjöll,
hárið gulli skærra,
sköpun hans og skikkun öll
skilning gengur hærra.
69.
Danae ól við buðlung börn
beint á tímans færi.
Þaug voru prúð á prísinn gjörn
þó Persíus langt af bæri.
70.
Persíus ólst þar upp með sann,
sem áður vann eg skýra,
til íþrótta ýmsra kann,
er allra vinur dýra.
71.
Stjúpsinnað bar gramur geð,
grómt um sveininn uggði,
á ýmsar þrautir eggja réð
sem aldrei vinnast hugði.
72.
So var sveinninn sigursæll
sóknir strangar heyja,
heim kom jafnan heill og sæll,
hlotnaðist ekki að deyja.
73.
Um síðir hugðist sjóli bert
seggnum fjörráð spinna.
„Þá eð fyrsta frægur ert
ef fer þú Gorgon vinna.„
74.
Svo kom til að sveinninn fór
í sókn við ógnar gríður,
líka vannst það laufa Þór,
lukkaðist ekki að síður.
75.
Danae hefur feigð um flúð,
fóstri heldur sínu,
það mun kóngi í þanka búð
þyngri afla pínu.
76.
Feðrunum gengur stundum stíft
stúlkunum hjúskap spara.
Áform þeirra ei fær hlíft
eigi hitt fram að fara.
77.
Reiki heldur ræðan brutt
en ráðist að því kýma.
Þanninn hverfur stirð og stutt
stefjum blönduð ríma.