Vísur á sjó | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vísur á sjó

Fyrsta ljóðlína:Vagga, vagga
Höfundur:Hannes Hafstein
bls.67
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) tví- og fimmkvætt AbbAA
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Vagga, vagga,
víða, fagra undurbreiða haf,
ástarblíðum blævi strokið af,
>vagga, vagga,
allar sorgir svæf og niður þagga.
2.
Húmið hnígur
hægt og blítt um endalausan geim.
Stormur felldist fyrir eyktum tveim.
>Húmið hnígur.
Hægt í öldudali skipið sígur.
3.
Aldnar vakna
endurminningar, en sofna um leið;
hugann dregur aldan blökk og breið.
>Draumar vakna;
duldir þræðir upp í sálu rakna.
4.
Bernsku draumar,
blíðir eins og ljúfrar móður hönd,
andann leiða inn í blómskrýdd lönd.
>Ljúfir draumar
líða um sálu eins og heitir straumar.