Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Þorgerður Jónsdóttir (erfiljóð)

Fyrsta ljóðlína:Ó drottinn guð! hvað sæll er sá
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt aabbcc
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1800
Tímasetning:1791
Flokkur:Eftirmæli

Skýringar

„Skáldið kallar erfiljóð þessi „grátblandið feginsmál við lát guðhræddrar heiðurskvinnu, o. s. frv.“ – Þorgerður var fyrri kona merkismannsins Þorláks Hallgrímssonar í Skriðu, og andaðist 1. febrúar 1791, á 43ja aldurs-ári. Minning hennar er hér prentuð eftir þrem handritum.“
Lag: Faðir minn sem á himnum ert.
1.
Ó drottinn guð! hvað sæll er sá
sem þínu fjalli byggir á!
hvað yndislig þeim auðnast vist,
í þinni tjaldbúð staðnæmist!
Réttlátum hvíld þar ætluð er
eftir lyktaðar mannrauner.
2.
Æ, hversu langar mæddan mig,
minn Jesú! þar að eignast þig!
Nær skal mín önd af nauðum leyst,
nálgast þann vin sem eg hef treyst?
Nær mun hjálpræðis höndin þín
harmkvæla-fjötur slíta mín.
3.
Álengdar, gegnum eymdastand,
eg sé það fyrirheitna land,
en leiðin þangað er svo ströng,
armæðu-flóð og dauðans göng.
Torveldni slík mér ófær er
utan eg njóti styrks af þér.
4.
Hafir þú flutt á höndum mig
heims yfir sérhvern raunastig
lát nú ei þann sem eftir er,
ó, Jesú! skilja þig frá mér.
Hjálp þinni vil eg hrósa þar
við hina síðu Jórdanar.
5.
Oft lætur þú mig eftir sjá
öðrum sem þenna bústað fá.
Ó, hvað eg feginn fylgðist með
fagnaðar- upp í -samkvæmeð!
Ó, hvað mig langar meir og meir
að meiga leysast eins og þeir!
6.
Verði þó, Jesú! vilji þinn!
vera skal hann og líka minn.
Því lengur sem þú þjáir mig
því framar skal egg vona á þig.
Hugur minn glaður hjá þér sé
holdið þó stynji á jörðinne!
7.
Nær sem úr útlegð hugsar heim
harmþrungin önd, eg samgleðst þeim
sem undan komnir eru mér
í þær farsælu tjaldbúðer;
því sæll er hver sem fyrstur fær
fyrir hrakning að öðlast þær!
8.
Þó virðist dauðinn vorri sjón
viðbjóðsligasta gleðitjón
samt fyrir drottni dýrmætt er
nær deyja burt hans heilager.
Enginn færir þeim æðra gagn
en sá himneski brúðarvagn.
9.
Hvað er vor hérvist? útlegð aum!
öll hennar kæti líkt við draum!
Hvað er á himnum? góði guð!
gæði sem fást ei útmáluð.
Hver er jöfnuður þá á því
þar að dveljast og veröld í?
10.
Enn vekur hér um minni og mál
míns Jesú faðmi reifuð sál,
innlífuð, guð! og þakknæm þér,
Þorgerður blessuð Jónsdótter
sem eftir langvinnt sorgarstríð
sigurkjör hefir öðlast fríð.
11.
Fram hér í ótta guðs hún gekk,
guði var æ og mönnum þekk,
elsku til guðs í brjósti bar,
brjóst Jesú hennar svölun var:
veraldar brjóstum vanin frá
vonaði brjóstgeð drottins á.
12.
Blóðferil Jesú örugg óð,
auðmjúk, biðjandi, þolinmóð,
ástundan hennar sú var söm
sár þó líkamann nísti kröm.
Hún var guðs barn og honum kær,
hlaut því að líða raunir þær.
13.
Ekkert mat hún sér hærra hnoss
en herrans Jesú sára kross.
Þjáningar marga þunga stund
þolug afbar með glaðri lund,
eftirbíðandi í ást og trú
umskiptum þeim sem hreppti nú.
14.
Ektamann sinn og ástkær börn
elskunni vafði tryggðagjörn.
Lífs þá bliknaði síðast sól
sig og þau guði á hendur fól
þar til fagnaðar farsæld í
fundunum saman ber á ný.
15.
Mannorð hennar og minning kær
meðal vor æ í blessun grær.
Beinin í jörðu geymir guð
góðs til frumvaxtar innsigluð.
Sálin er lukt í höndum hans
helgan berandi sigurkrans.
16.
Hún prísar nú í himnakór
herrans dásemdarverkin stór,
þakkandi guði lausn og líf,
laus við armæðu, synd og kíf.
Önd mín, sem þreyr í eymdardal,
undir með henni kvaka skal:
17.
„Hallelúja! þitt heiðrað sé
helgasta nafn, vor lausnare!
hvers dauði og pína dásamleg
deyjendum tilbjó opinn veg
í dýrð sem aldrei deyja má,
deyjandi lífi þessu frá.“
18.
Ó, þú dýrðskrýdda sæla sál!
sorga viðskilin klögumál,
augu vor tárug eftir þér
upphefja sig, og þankarner.
Æ, hvað vér vildum eins og þú
aflokið hafa stríði nú!
19.
Ó, hvað þín blessuð eru kjör!
ó, þá dýrðligu sigurför!
þar guðs auglitis eilíf sól
yfir þig skín við lambsins stól.
Eymdanna myrkur allt er gleymt
eins og það hefði í svefni dreymt.
20.
Lif nú í friði um eilíf ár!
óskir vorar og harmatár
uppfylli drottins elska góð
og innhelli þeim í náðarsjóð;
hann sé vor allra hjálp í neyð,
huggun í sorg og líf í deyð.
* * *
Sjá! hversu lína lífs
leið sína niður gár,
en gröf er endir kífs,
í henni sefur nár;
því næst til hægri handar
mannsins upprisu-stigi stár.