Sjötta tíðavísa yfir árið 1784 – 1. til 38. erindi | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tíðavísur Jóns Hjaltalíns yfir árin 1779 til 1834 6

Sjötta tíðavísa yfir árið 1784 – 1. til 38. erindi

TÍÐAVÍSUR JÓNS HJALTALÍNS YFIR ÁRIN 1779 TIL 1834
Fyrsta ljóðlína:Dvalinsleika leiftrandi
bls.13–16
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1775
Flokkur:Tíðavísur
1.
Dvalinsleika leiftrandi
lýsir dimman æginn.
Skjótt framdregur Skinfaxi
skíran nýársdaginn.

2.
Datum ritar rekka þjóð
rétt mun ári nýju
seytján hundruð friðar fróð
fimm og áttatíu.

3.
Liðna árið raunarammt
rúði gæðastandið.
Mun það verða minnisamt
meðan byggist landið.

4.
Flúði tíðin lista ljúf,
lengi harkan varði.
Kalla má að stingi í stúf,
steyptist flest er hjarði.

5.
Fimbulvetur ferligur,
fárra maki að kalla,
huldi sköflum harðfenntur
Hnikars beðju alla.

6.
Gripir nærðust naumliga,
nöguðu elju Rindar,
jafnt við skafla járnharða
jálmuðu kjálkatindar.

7.
Hvað sem ekki hafði því
hús og fóðrið inni
hrundi dapran dauðann í
drepið af vesöldinni.

8.
Eins og hrannir hafs við lón
Hárs á beðju þungri
lágu skorin skeifna ljón
skinin, dauð af hungri.

9.
Slíkum kynjaógnum á
undra þjóðir flestar.
Náðu falla nærri í strá
nautin, féð og hestar.

10.
Hinu, sem þó hafði ró
hungurs fyrir kvölum,
liðaveikin bana bjó
og benti að dauðasölum.

11.
Aumt er að líta út um bý,
eru tómir hagar.
Býlin leggjast eyði í,
angrið fram úr skagar.

12.
Fólkið hrynur hungri af
hópum saman niður.
Margir vaða hryggðarhaf,
horfinn er gleðifriður.

13.
Sótt og kvillar mæða með,
margir þar af deyja.
Hinir síðan gramt með geð
grátnir eftir þreyja.

14.
Heyskap lítinn höfðu menn
hér um sumars stundir.
Þetta græða góðviðren
sem ganga um þessar mundir.

15.
Hluti mikla þegnar þó
þangs úr ranni fengu.
Þeim það sæta saðning bjó
er sárhungraðir gengu.

16.
Sumra trú eg minni og mál
í megnum sóttum þrotni.
Aðrir drekka dauðaskál
djúpt á mararbotni.

17.
Suðurnesjum sagðist af
svipull dauðans voðinn
sexæring þar keyrði í kaf
kólgan dreyra roðin.

18.
Bát úr Engey burtu sleit
brim á þara-rönnum,
annar fórst í Eyrarsveit
á með fjórum mönnum.

19.
Skjálftan jarðar fælist frí
fólkið enn um stundu
er fjórtánda ágústí
Ísa hrærði grundu.

20.
Hrana beðja hristist fest,
hægðum þjóðin sleppti.
Árnessýsla allra mest
af því skaða hreppti.

20.
Bæir víða bifuðust,
byltust sumir niður.
Skálholtshúsin högguðust
hræring þessa viður.

21.
Þó dómkirkjan sé fúin frekt
föst hún stóð að vana.
Það var yfrið undarlegt,
ellin studdi hana.

22.
Flúðu bæinn biskupar,
blöskrar við það öldum,
lágt á jörðu, letrað var,
lágu menn í tjöldum.

23.
Öldin bæjum flúði frá,
færðust hús úr skorðum.
Svoddan undur enginn sá
Ísa fyrr á storðum.

24.
Margur hreppti meiðsli þar
maður í þessu kífi.
Tvær manneskjur, tjáð það var,
töpuðu einninn lífi.

25.
Farsælt er í hýra hönd
hjálparans að falla.
Hann kann leiða lúna önd
lífs til dýrðarhalla.

26.
Fengið hefur fyllta von,
fagnar sælu-hnossi
Þorsteinn Stepháns síra son
sem að var á Krossi.

27.
Guð lét æðstu unun fá
eftir raunabyrði
síra Þorberg Eyri á
í honum Skutulsfirði.

28.
Öndu hniginn höldar þó
huldu jarðar-rofi
síra Þorleif sem að bjó
í sýslu Múla á Hofi.

29.
Síra Jón með listalag
Laufás þént sem hefur
finnur dýran hvíldarhag,
hægt í jörðu sefur.

30.
Borgarfjarðarsýslu sá
sæmdi dómum snjöllum
játast liðinn, ég vil tjá,
Jón á Hvítárvöllum.

31.
Hann var ljúfur höfðingsmann,
hýr með lund ónauma,
gestrisni ei gleymdi hann,
gjörði vel þeim auma.

32.
Því hefur engla helgur her
hér úr táradalnum
fært hans öndu fús með sér
friðar upp að salnum.

33.
Menntum hlaðna mannvalið,
margra reifður hrósi,
Lárus Scheving skildi við,
skoðar Guð í ljósi.

34.
Eyrarbakka kaupmanns knör,
kafinn þrautum vöndum,
hreppti enn nú feigðar för
fyrir Mýrdalssöndum.

35.
Fley og góssið fór í sjó,
falið mararsandi,
fólkið allt með fjöri þó,
frelsað, náði landi.

36.
Herra Árna þrautin þver,
þakinn Rínarsólum,
sest nú fjáður best sem ber
biskup nýr að Hólum.

37.
Hönum fylgir friðargnægð,
farsælr, yndi, sómi,
vinsæld, gleði, hugarhægð,
heiður, gæðablómi.

38.
Sendi eg aftur ómaval
upp að þagnarlandi.
Erfitt fellur hryggum hal
að hreyfa ásablandi.