Kvæði af Ingu lífstuttu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af Ingu lífstuttu

Fyrsta ljóðlína:Inga litla út í lönd
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sagnadansar
1.
Inga litla út í lönd
og undir hlíða.
Gull voru hennar axlabönd,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

2.
Hennar báðu margir menn
og undir hlíða.
Ei vill frúin giftast enn,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

3.
Hennar bað svo kóngrinn sjálfr,
undir hlíða.
Ei vill frúin giftast heldr,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

4.
Þar kom einn riddari ríðandi í land
og undir hlíða.
Honum var Inga gefin á hand,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

5.
Níu nætur voru þau saman,
undir hlíða.
*un‹n›tu sér með gleði og gaman,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

6.
En á þeirri tíundu nótt,
og undir hlíða,
þá tók Inga banasótt,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

7.
Kalla lét hún hann til sín
og undir hlíða.
„Góði riddari gá til mín,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

8.
Hvörninn muntu bera þig,
undir hlíða.
Dauðinn tekur að sigra mig?“
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

9.
„Eg mun lifa við sút á fold,
undir hlíða,
en þú munt grafin í vígða mold“,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

10.
„Ríðtu þig í Húnavík,
undir hlíða.
Þar er sú mey sem mér er lík,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

11.
Þegar þú kemur á hennar arm,
undir hlíða,
þá er í burtu tregi og harmr“,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

12.
Inga gaf upp sína önd,
undir hlíða.
Riddarar spenntu sorgarbönd,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

13.
Líkið var borið í kirkju inn,
undir hlíða.
Dauður lá þar og riddarinn,
vel mátti hún hans bíða,
grænt og fagurt aldin undir hlíða.

(Íslenzk fornkvæði II, bls. 1–3; Nks 1141 fol, bls. 373–376)