Enn eitt kvæðiskorn að mann játar ... | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Enn eitt kvæðiskorn að mann játar ...

Fyrsta ljóðlína:Margt trú eg hrelli mína önd
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer,- þrí- og fimmkvætt aaaBB
Viðm.ártal:≈ 1550

Skýringar

Kvæðið er undir vikivakahætti. Fremst er viðlag, 3 línur og sú síðasta þeirra (lítið eitt breytt) er fimmta lína hvers erindis.
Enn eitt kvæðis korn að mann játar hann vilji líða það að höndum kemur í nafni Drottins.
Hæsti Jesú, fyrir helgan þín
hjálpaðu lífi mínu,
þó er mér ljúft að líða í nafni þínu.
1.
Margt trú eg hrelli mína önd,
mótlætið og sorgarbönd.
Vertu mér Jesú við hægri hönd,
hjálp og stoð í pínu;
þá er mér ljúft að líða í nafni þínu.
2.
Því ekki varir allan tíð
eymdin þessi hörð og stríð,
heldur mun þín mildi blíð
miskunna lífi mínu;
því er mér ljúft að líða í nafni þínu.
3.
Og fyr sáru sjálfs þíns pín
syndir muntu afmá mín,
því burt er horfin bræðin þín
blóðs fyrir rauða línu,
því er mér ljúft að líða í nafni þínu.
4.
Hér með muntu hjá mér stá
hjari eg meðan jörðu á,
blíðar einninn bænir sjá
þá bið eg af hjarta fínu;
því er mér ljúft að líða í nafni þínu.
5.
Tiginn mun upp teikna þær
þinn tignar fingur, andinn skær,
hæfilegt gjör það, herrann kær,
mitt hjarta geðinu þínu;
þá er mér ljúft að líða í nafni þínu.
6.
Allt mitt traust það er á þér,
að aldrei munir þú gleyma mér,
síst þá dauðinn sundur sker
sál frá lífi mínu;
því er mér ljúft að líða í nafni þínu.
7.
Heldur þegar héðan fer
af húsi því sem byggði hún hér
til himna hana hefur með þér,
heims frá allri pínu;
þá er mér ljúft að líða í nafni þínu.
8.
Þar plagar mig hvörki sorg né sótt,
sálu minni er þar rótt.
Af helgum vísdóm er hjartað frótt
hreinsað blóði þínu;
þá er mér ljúft að líða í nafni þínu.
9.
Eins og sólin eg þá skín,
eru þá burtu tötrar mín,
rósað er þá mitt rykkilín
rauðu blóði þínu;
þá er mér ljúft að líða í nafni þínu.
10.
Þitt nafnið, Jesú, mun þá mér
mildast lýsa hvar eg fer,
fæða mín það ávallt er
og örkumsl bæta pínu;
því er mér ljúft að líða í nafni þínu.
11.
Að heyra er það heldur mætt,
hjartað fær það allvel kætt,
Jesús nafnið, Jesús sætt,
ilmur í munni mínum;
því er mér ljúft að líða í nafni þínu.
(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 323–324)