Hvað illt ágirndin verki | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hvað illt ágirndin verki

Fyrsta ljóðlína:Fyrir penings aflan er
bls.65–67
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) ferkvætt abab
Viðm.ártal:≈ 1650
1.
Fyrir penings aflan er
illskan flest í heiminn komin
en dyggðin út af deyr og þver
dáðlaust fyrir peninginn.
2.
Fyrir pening sig og sitt
setur í veð kaupmaðurinn
og hættir sér í háskann mitt,
hvað nema fyrir peninginn.
3.
Fyrir pening mörg er mær
manni afgömlum títt gefin.
Hinn ungi kerling ástir ljær
*einatt fyrir peninginn.
4.
Fyrir pening margur mann
maka tíðum styggir sinn.
Við bóndann líka kífa kann
konan fyrir peninginn.
5.
Fyrir pening missir mær
meydóm líka stundum sinn.
Að heiðri töptum hóru fær
heitið fyrir peninginn.
6.
Fyrir pening penings nægð
penings ríkum gefst um sinn.
Ágirnd vex og alls kyns slægð
einatt fyrir peninginn.
7.
Fyrir pening loforð léð
löngum brigðar sérplæginn.
Áður gefið einninn með
aftur tekst fyrir peninginn.
8.
Fyrir pening vonin veik
verður að engu, það eg finn.
Kemst svo gjörvallt ráð á reik,
*ringlast allt fyrir peninginn.
9.
Fyrir pening læknir laug
lofinu uppá meðölin.
Sjúkur ekki þiggur þau
þess vegna fyrir peninginn.
10.
Fyrir pening einatt er
of dýrt metin lækningin
svo snauður ei til þess treystir sér
að taka hana fyrir peninginn.
11.
Fyrir pening orkar ei
aumur læknirs vitja um sinn.
Hann segir við hjálpinni hvers kyns nei
hönum fyrir peninginn.
12.
Fyrir pening þrætu þrá
þrengir sér til margra inn.
Dómarinn leggur úrskurð á
einatt rangt fyrir peninginn.
13.
Fyrir pening hér og hvar
í húsum ríkra og snauðra finn
þjóta um, ráfa og rupla *þar,
raunar allt fyrir peninginn.
14.
Fyrir pening styrjöld stór,
stríð eflist og gripdeildin.
Friðar margur sáttmál sór
sumpart rangt fyrir peninginn.
15.
Fyrir pening hvörn ei hér
hrakning líður veröldin?
Borgir, ríki og fleira fer
forráðið fyrir peninginn.
16.
Fyrir pening, fylltur hrekk,
forréð Júdas herra sinn
en sundur brostinn síðan hékk
sjálfur fyrir peninginn.
17.
Fyrir penings sýki og sút
sál ferst bæði og líkaminn.
Góssið dregst og auður út
allt saman fyrir peninginn.


Athugagreinar

3.4 einatt] leiðrétt úr „oftlega“ á spássíu.
8.4 ringlast] leiðrétt úr „ruglast“ á spássíu.
13.3 þar] leiðrétt úr „þar inn“ en skrifari hefur í ógáti skrifað „inn“ fyrir aftan „þar“.