Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.
Með hymnalag

1.
Næturtíminn nú úti er,
alla dimmu og myrkur þver,
rís upp sál mín og sjá þig um,
sæl blessan fylgir deginum.

2.
Þínum Guði þú þakka átt
þig sem geymt hefur liðna nátt
og leyfði dagsins ljós að sjá,
lofaðu því hans miskunn há.

3.
Ljóssins faðir lofaður sé,
líf og sál offri þakklæte,
*blíðleiks lífgandi brunnur klár,
blessaður vertu um eilíf ár.

4.
Þér fórna eg lofgjörð, faðir minn,
fyrir Krist Jesúm soninn þinn
og helgan anda huggara,
hjálpara minn og stjórnara.

5.
Þú hefur geymt mig þessa nótt,
þar fyrir svaf eg vært og rótt.
Yfir mér vakti engill þinn,
*enn þú blessaður, drottinn minn.

6.
Andvökur mæddu öngvar mig,
ekki náttmyrkrinn hræðilig,
djöfullinn gat ei grandað mér,
Guð minn, slíkt allt eg þakka þér.

7.
Í þínum faðmi svaf eg sætt
sjálfur hefur mín drottinn gætt
vil nú því strax sem vakna fer
vegsemd og heiður færa þér.

8.
Allt hvað sem hefur andardrátt
á Guð að prísa dag sem nátt.
Fyrir uppheldi og geymslugjöf
gjörvöll þér skepnan syngi lof.

9.
Lof sé þér, faðir líknsami,
lof sé þér, Jesú góðgjarni,
heilagi andi huggare,
heiður og dýrð þér ætíð sé.

10.
Nú kem eg, faðir, fram fyri þig,
forsmáðu ekki auman mig.
Í nafni Jesú náðar þín
nú fer að leita bæninn mín.

11.
Öll mér forláttu illskuverk,
afpláni þau þín náðin merk.
Voldugi Jakobs verndari,
vertu í dag minn stjórnari.

12.
Gefðu yfir mig góðan dag,
greið þú fyrir mér allt í hag
so öll mín iðja þóknist þér,
það gjöri allt sem bauðstu mér.

13.
Geisli skínandi guðdómsins,
gistu í byggðum hjarta míns,
orð heilagt að eg elski þitt
og kall trúlega vandi mitt.

14.
Næringar varpa eg neti nú
í nafni þínu, minn Jesú.
Með auðmýkt bið eg einninn þig
að þú komir og blessir mig.

15.
Erfiða byrjar aumum mér,
ávöxtinn gefa heyrir þér.
Því bið eg þig um björg í dag
og blessa allt mitt vinnulag.

16.
Sankti Pétri þú sýndir lið,
sjáðu, eg þarf þín líka við.
Atvinnu, verk og umsvif mín
almáttug blessi höndin þín.

17.
Hvar sem eg fer um lög eða lönd
leiði mig, Guð, þín hjálparhönd.
Alla vega umkringi mig
eilíf blessanin guðdómlig.

18.
Ólukku snú mér allri frá,
*enn þína lát mig blessan fá.
Mig verndi á öllum vegum mín
vakandi guðdóms hjálpin þín.

19.
Af helgidómi hávum þín
heilaga sendu náð til mín
so hauður, vötn og himnarner
hagkvæma færi blessan mér.

20.
Bjóð þú að eg sé blessaður,
börn mín, kvinna og varnaður
og gjörvallt það, sem gafstu mér,
geymdu drottinn í hendi þér.

21.
Inngöngu mína og útganginn,
æðsti Guð, blessa hvört eitt sinn.
Áform, hugsun sem orð og verk,
allt mitt blessi þín náðin sterk.

22.
Ævi þá dagur endast hér
og andláts eftir kvöldið fer,
herra, tak sál í hendur þér,
hold geymi jörð sem tilheyrer.

23.
Þar til, dýrðlegi drottinn minn,
dagur tilkomu byrjast þinn
og þú uppvekur alla senn,
unga sem gamla af dauða menn.

24.
Sál klæðist holdi sama þá
sem fyrri bjó hér jörðu á,
aftur þá skipast almúginn
allur fram fyrir dómstól þinn.

25.
Ó, Jesú, lát mér auðnast þá
*eilífri dýrðar sælu ná,
í söfnuð helgra set þú mig
so eg um eilífð lofi þig.

26.
Þér, einum Guði í þrenningu,
þrennum og svo í einingu,
hæst lof syngist á himni og jörð
heilagri meður þakkargjörð.
Amen.

(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 4, bls. 130—132. Í útgáfunni er sálmurinn tekinn eftir ÍBR 26 8vo, bls. 247–251, og er hann birtur hér orðréttur og með sömu leiðréttingum og þar eru gerðar).

3.3 blíðleiks] < biturleiks (leiðrétt með annarri hendi í ÍBR 26 8vo). blídleiks (í LBs 238b 8vo).
5.4 enn] (óvíst hvort hér skal rita ‘enn’ eða ‘en’).
5.4 þu] < nú 238b.
25.2 eilífri] < eylífu Lbs 238b 8vo (einnig leiðrétt svo með annarri hendi í ÍBR 26 8vo).