Grýlukvæði Hallgríms Thorlaciusar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Grýlukvæði Hallgríms Thorlaciusar

Fyrsta ljóðlína:Kom eg út og kerling leit ófrýna
Heimild:Lbs 437 8vo.
bls.735–736
Viðm.ártal:≈ 1700–1725
Flokkur:Grýlukvæði

Skýringar

Jón Sigurðsson birtir kvæðið í útgáfu sinni að Ljóðmælum Jóns Þorlákssonar í 2. bindi, bls. 383–384, og er það einnig gert í Snót þar sem kvæðið er prentað orðrétt eftir útgáfu Jóns Sigurðssonar. Það er nokkuð ljóst að sú feðrun er röng.
Grýlukvæði H[allgríms] J[óns]s[onar] Th[orlaciusar]

Kom eg út og kerling leit ófrýna,
svo1 kátlega hún á mig tók að blína.
Hana eg spurði um heit og nafngift sína.
„Hér er“, sagði hún, „Grýla, skrýtin trýna.
Reyna vilda eg rausnargeð þitt fína,
rammlega tekur sulturinn mig að pína,
í frosti svöngum fáum trú eg hlýna,
fæðu vantar, tóm er matarskrína.
Börnin þau sem brekótt eru að hvína2
best er ofan3 í pokann þau4 að tína.
Sesselja það sjaldan lætur dvína,
seldu mér hana keipastelpu þína.“
Svaraði eg Grýlu: „Séð get eg þig grína,5
svona6 þarftu ekki mig7 að brýna.
Alla gikki eflaust muntu krýna,
aldrei mun þér gott af henni skína.
Eftir börnum er þér gjarnt að rýna
og yfir þeirra hjartalaginu8 gína.
Þú værir betur barin eins og dýna
svo bylja mætti á skrokkinum og hrína.9
Böðullinn skyldi bakið á þér klína
svo blóðug yrði af hvörjum kvisti lína.
Farðu í burtu, flagðið þitt, til svína,
þú fær hana ekki,10 litlu dóttur mína.“


Athugagreinar

1.
svo] vantar Snót.
2.
að hvína] og hrína Snót.
3.
er ofan] mun vera Snót.
4.
þau] minn Snót.
5.
grína] hvína Snót.
6.
svona] samt Snót.
7.
ekki mig] mig ei til þess Snót.
8.
þeirra hjartalaginu] þau með kjaftinum á þér Snót.
9.
á skrokkinum og hrína] í skrokknum á þér og hvína Snót.
10.
ekki] aldrei Snót.