Einn sálmur Davíðs | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Einn sálmur Davíðs

Fyrsta ljóðlína:Miskunna þú mér, mildur Guð
Bragarháttur:Níu línur (tvíliður) aaBccBooB
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Sálmar
1.
Miskunna þú mér, mildur Guð,
í minni nauð
fyrir mikla miskunn þína.
Og fyrir þína æðstu frægð
og náðar nægð
afmá illsku mína
og þvo þú klár mín synda sár.
Eg játa á mig að eg móðgaði þig.
Það er mér þunglig pína.
2.
Þér einum Guði á móti mest
svo margt og verst
eg braut af bernsku minni.
Eg þóttist stór og þar með vís,
þitt líknar hrís
hataði eg hvörju sinni.
Því virti eg rangt réttlætið strangt,
sannindin þín málefnin mín
öll trúi eg yfirvinni.
3.
Mig gat og fæddi móðir mín
í syndum sín,
sannleikinn vilt þú heyra,
því er svo óhreint eðlið mitt.
Mig huggar hitt
að hefur þú sýnt mér fleira:
Það leynda ráð um þína náð,
hvörninn eg má þá heilsubót fá
fyrir sjálfs þíns sonarins dreyra.
4.
Það góða ýsóp, Guð minn skær,
mig gjörla þvær
svo gjörist eg *snjónum fegri.
Dreif því yfir mín dauðlig mein,
þín höndin hrein,
*með huggun elskuligri.
Þitt líknarmál gleðji líf og sál
og beinin mín sem af beiskri pín
gjörð voru meyr og megri.
5.
Sjá þú ei, Guð, mín saurug verk
þó syndin sterk
þitt hugskot *hryggja næði.
Gef mér það kvitt og gleym því best
sem gjörði eg verst
og áður eg oft um ræði.
Skapa þú í mér hreint hjarta hér.
Lát anda þinn hug mýkja minn.
Miskunn þín brjóstið græði.
6.
Rek mig ei út frá ásján þín
í eymd og pín,
anda þíns lát mig njóta.
Þín augu skær sem allt mitt sjá
og að mér gá
svo aftur megi eg hljóta
þitt hjálparráð og hýra náð.
Þín andagift sé ei frá mér svipt.
Þinn frið lát mig ei þrjóta.
7.
Eg lofa að kenna lífsins veg,
þann lærða eg,
syndugum sem því trúa.
Það er mín raunar rétta list
og ráðið fyrst
ranglátum til þín snúa.
Frelsa þú mig, mjúkt beiði eg þig,
blóðskuldu frá – því brigsli hneykja má.
Lát mig þér lof til búa.
8.
Upplúk þú vörum og munni mín
fyrir miskunn þín
svo megi eg þér lofgjörð vanda.
Því ef að þú vildir offrið mitt,
svo yrði mér fritt,
af því skyldi eg standa.
Fórn er sú ein manns iðran hrein
klökkt hjarta hér, sem hugnast þér,
með ljúfum ástaranda.
9.
Sjón þín, kristni, eflist öll
sem himna höll
og hennar stjórnin sanna.
Gef þú, drottinn, þitt göfgist nafn
svo gleðjist safn
Guðs þjónustumanna.
Kristur náðarstóll valinn offur öll,
fórn bænar mest mun þiggja best
sem trúin hrein helst má kanna.
10.
Lof, dýrð, heiður á hvörri stund
af hjartans grund
sé himnaföðurnum skæra.
Hans syninum ljúfum líka með
að lof sé téð,
Jesú Kriste kæra.
Og anda þeim um allan heim,
sem allt lífga vann og upplýsa kann,
einum Guði sé æra.
Amen.