Minningarkvæði um Friðrik konung annan sem lést árið 1588 | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Minningarkvæði um Friðrik konung annan sem lést árið 1588

Fyrsta ljóðlína:Mitt óþakklætið arma
Bragarháttur:Átta línur (þríliður) þríkvætt AbAbbAAb
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1588

Skýringar

Minningarkvæði um Friðrik konung annan sem lést 1588.
1.
Mitt óþakklætið arma
mig aumlega hrellir nú.
Það má eg af hjarta harma
eg hefi svo veika trú.
Duga mér drottinn þú.
Huggunar víst ei varna,
eg vil þig heiðra gjarna
svo linni ei lofgjörð sú.
2.
Nú vil eg nafn þitt prísa,
náðugi herra minn,
fyrir kristnum lýð því lýsa
og lofa velgjörning þinn
því að eg fullvel finn
þó lifi eg á landi ísa
og lítil sé mín vísa
þér hugnast hróðurinn minn.
3.
Hvör kann með orðum inna
allt þitt lánið til sanns,
mitt er þó hvörju minna
málfæri kennimanns
sem innan er Ísalands.
Þó vil eg það fyrst til finna
föðurnum lofgjörð inna
fyrir ástarorðið hans.
4.
Það Jesús Kristus kenndi,
vor kærasti hjálparmann,
og í síðustu tíð oss sendi
sjálfur Guð lærdóm þann
til lífsins leiða kann.
Með hirðurum vísum vendi,
þá valdi af drottins hendi
úr öld sem æðsta fann.
5.
Þú gafst oss kóng svo kæran,
Kristján þriðja við nafn.
Þitt orðið elska og læra,
enginn var honum jafn.
Það kennir Kaupenhafn.
Það vildi hann víðar færa,
veitti hann kost að næra
vort lærisveina safn.
6.
Hans gæskuverk öll að greina
gefst mér nú ekki tóm.
Því gjöri eg þá ending eina
um hans herradóm –
svo endaðist æfin fróm.
Á lífsbraut hélt hann hreina
til himnaríkis beina.
Vér syngjum sætum róm.
7.
Yfirvald engla og manna,
Jesú, hjálpa þú mér
svo lofið og lotning sanna
fyrir lánið allt veiti eg þér –
þú einn af öllum ber.
Konunginn eftir annan
ástvin drottins sannan
Friðrik þá fengum vér.
8.
Kristjáns sonur hinn kæri,
kóngur í föður síns stað,
forprís frá eg að bæri
sem fræðaskáldið kvað
og komst svo orði að:
herra víðfrægur væri
og voldugur nóg sem bæri
og mildur, – eg minnist það.
9.
Þó nú sé mér hryggð að nefna
náðugan herra þann
því sturlan styttir svefna,
stúra eg eftir hann,
svo voldugan verndarmann.
Þá mun eg fyrir gáfu gefna
við Guð minn heitin efna.
Lofi sá kóng sem kann.
10.
Sírak segir, hinn vísi,
að sérhvörn lifandi mann,
þó einn eður annan prísi,
enginn rétt leyfa kann
fyrr en héðan er hann.
Því er nú rétt að rísi
ræðan og það lýsi
hvað frómi Friðrik vann.
11.
Það máttu, Danmörk dýra,
djarflega votta nú
að Friðriks hjartað hýra
hafði lifandi trú,
helst er vor huggun sú.
Hans veiting varla rýra
vel má Ísland skýra
þó vil eg ei þagnir þú.
12.
Doctores dæmi eg skylda
þá dygð að minnast á
hvörsu hans höndin milda
hefur vel auðgað þá –
sem enn má eftir sjá.
Kann eg ei víst þó vilda
vitna um rentu gilda
sem skólunum skenkti þá.
13.
Þér máttuð, herrar hýrir,
heyra hans daglegt mál.
Því veri þér vottar dýrir
og vitið það er ei tál –
hann bjó fyrir sinni sál.
Fátækra flokkurinn skýri
og fagnaðar *himni stýrir
Friðrik en forðast bál.
14.
Vér aumir á Ísalandi
einneiginn vottum það
hans auðlegð yfir oss standi
í einum og hvörjum stað –
það lögsögn lýtur að.
Yrði á enginn vandi
ef að vér rétt fagnandi
kynnum að þakka það.
15.
Eg einn með örfum mínum
er ölmusubarn til sanns,
mig firrti fátæktarpínu
föðurleg mildin hans,
þess dýrlega drottins manns.
Hann veitti af örleik hreinum
afgjald af klaustri einu
sem nefnist norðanlands.
16.
Hvað sterkur var hann í stríði
studdur með giftunægð,
hann lifir með list og prýði
lengi í heimsins frægð,
en hataði háð og slægð.
Herrann hjartaþýði
huggaði auma lýði
en voluðum sýndi vægð.
17.
Hvað mun eg fávís finna
Friðriks kóngs veitta prís?
Eg vil hér uppá minna
önnur skáldin vís
og það af þeim kýs
þeir láti aldri linna
lofstír herra sinna
sem svo að sönnu rís.
18.
Á skírþórsdeginum dýra
Danmörk gleðina lét.
Við andlát herrans hýra,
hvörs eg nú áður get,
Sophia sáran grét.
Hvör kann þann harm útskýra,
henni bið eg nú stýra
Guð þann sem huggan hét.
19.
Danmörk döpur af gráti
á drottins kalli nafn.
Noreg svo líka láti,
lýðurinn er þar jafn,
og Íslands sauða safn
sínar syndir játi
og síðan af þeim láti
því auður er orðinn stafn.
20.
Hrindum þó harmaþunga,
oss huggi hin góða von
um Kristján kóng vorn unga,
kærasta Friðriks son, –
og er það enn mín bón:
Yfirvald allra kónga,
Jesú, lát blekking öngva
granda nú þínum þjón.
21.
Kristján kenndur hinn fjórði,
kóngur vor dygðaklár,
lærður í lífsins orði,
lífs hefur tólfta ár, –
hans líf til lukku stár.
Stýra mun sínu sverði
svo sem hans faðir gjörði
því mildur Guð með honum gár.
22.
Því bið eg þig, Kristján kæri,
vor kóngur á æskutíð,
orð Guðs að þú lærir
og iðkir vel fyrr og síð, –
sú er þín fordild fríð.
Heilagur andi hræri
hjartað svo ávöxt færi,
með friði þú stöðvir stríð.
23.
Erf þú nú náð með nafni,
náðugi herra minn,
svo er þinn enginn jafni
afi því hét svo þinn, –
allt með auðnu vinn.
Dygð og dáð í stafni
drottinn yfir þig safni
og anda þér sendi sinn.
24.
Heyri þér, herrar frómir,
herra kóngs ráðamenn:
Gjörið nú sem yður sómir,
svo er vís heillin tvenn –
því dygð launar drottinn enn.
Yður á efsta dómi
eilífur búinn er sómi;
það umbunar eining þrenn.
25.
Lofið og eilíf æra,
eilífur Guð, sé þér.
Þig lofar þín kristnin kæra
fyrir kóngdóm þennan hér –
sem nýlega nefndum vér.
Bið eg þú hefjir hærra
herra Kristján skæra
og hans ráð – það hollast er.
26.
Sophiam drottning dýra
og dýrborin hennar börn
biðjum þitt hjartað hýra
henni að veita vörn, –
útrek óvin hvörn.
Gef Kristján kóng að stýra
og kunna lög þín að skýra,
hans hönd sé hjálpargjörn.
27.
Láttu þess líka njóta
löndin öll til sanns
þitt orð nái aldrei þrjóta
undir valdi hans,
þess volduga verndarmanns.
Svo vér megum huggun hljóta,
herra Guðs náð svo fljóta,
amen! gefur þú ans.
28.
Lof sé þér, faðirinn frómi,
frægðar Guð, árla og síð.
Syni Guðs aukist sómi
sunginn á hvörri tíð –
svo sem veröld er víð.
Heilögum anda hljómi
heiður með sætum rómi.
Lofuð sé þrenning þýð.


Athugagreinar

Amen.