Sunnudaginn eftir miðföstu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 27

Sunnudaginn eftir miðföstu

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Júðunum ansar Jesús þá
bls.31–33
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Evangelíum Jóh. viij (46–59)
Með tón: Hvör sem að reisir hæga byggð
1.
Júðunum ansar Jesús þá,
jafnlyndur alla daga:
Hvör af yður er sá mig má
um synd einhvörja klaga.
Fyrst sannleikinn hafi þér heyrt af mér
hvar fyrir viljið ekki þér
trúa af hreinum huga.
2.
Af Guði er sá sem girnist hér
Guðs orð jafnan að heyra;
án Guðs eru því allir þér,
enginn ljær þar til eyra.
Júðar svara: Vér segjum það vel,
samverskur ertu, býr um vél
með djöful og draflið meira.
3.
Ei hef eg djöful, að Drottinn kvað,
dýrðar föður míns leita;
vanheiðri þér mig strax í stað,
sturla viljið og reita.
Ei sæki eg eigin sóma nægð,
sá er, sem verndar mína frægð,
yfirvald allra sveita.
4.
Sannlega, sannlega segi eg víst,
sá mín orð vildi geyma
eilífan dauða sjá mun síst,
syndum vil eg hans gleyma.
Júðar segja: Nú vitum vér,
víslega með þér Satan er
og djöfull lætur þig dreyma.
5.
Því Abraham bað sinn andlátsdag
og allir spámenn forðum;
þú hrósar þó af þínum hag
þar með kröftugum orðum.
Hvör sem elskar þau ei mun sá
eilífan dauðann kunna að sjá,
meiri í máli en gjörðum.
6.
Allir spámenn og Abraham
eru framliðnir núna.
Muntu gjöra þér mesta afmán
og minnkan fyrir þá trúna
ef þykist þú meiri heldur en hann,
heiðrum vér aldrei slíkan mann.
Kristur fann klausu búna.
7.
Væri eg sjálfhælinn, sagði hann,
sortnaði lofið í munni;
minn faðir hann mig heiðra kann,
hvörn þér Guð nefna kunnið
og þekkið hann ekki en eg veit
ástsemdin hans er til mín heit,
vegsemdar víst mér unnir.
8.
Segða eg það eg þekkti hann ei
þá kynni eg sem þér ljúga;
nú kenni eg hann og held af því
hans boðorð sem mér duga.
Lysti Abraham líka með
líta minn dag og fékk hann séð,
glaður í góðum huga.
9.
Fimmtugur ertu ekki enn,
Júðar Guðs son ávíta,
Abraham og hans aldar menn
aldrei máttir þú líta.
Lausnarinn gaf þeim ljúflegt svar:
Langtum fyrr en Abraham var
er eg, svo ei má neita.
10.
Júðasveitin þar ólmast við,
upp tóku margir steina,
grýta vildu þann fór með frið,
frelsarann allra meina.
Af musteri veik þá Jesús út
að hann svo forðist þeirra grjót,
ljúfur með lund svo hreina.
11.
Jesús, þitt orð er aldin hreint,
einbær lækning við dauða;
þeim það geymir mun einskis meint,
öngra kennir sá nauða.
Gef þú mér þennan gæskulauk,
gjafir þínar svo með mér auk,
sjá vel til þinna sauða.
Vísan
1.
Sá sem Guðs orð geymir,
græðarinn, Jesús, ræðir,
ekki um ævi smakkar
ógn dauðans né nauðir.
Það megum svo þýða,
þeir sem guðs orð heyra
af ást fá afgang bestan
og eilífa himna sælu.
2.
Læknir lífs sá reiknast
er lærði að græða særða,
kostasmyrsl kallar bestu,
kaupum dýrt þau hann af raupar,
en sálardrykk þann sæla,
sæta Guðs orð sem bætir;
andarmein ekki stundum
eða sinnum því minna.