Rímur af bókinni Ester – Fjórða ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af bókinni Ester 4

Rímur af bókinni Ester – Fjórða ríma

RÍMUR AF BÓKINNI ESTER
Fyrsta ljóðlína:Hlýða bið eg á hróðrar fund
bls.177–180
Bragarháttur:Samhent eða samhenda (alhent, ferstikla, stikla)
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
1.
Hlýða bið eg á hróðrar fund
hæfiláta menn og sprund.
Gefi sér þar til góða stund
að gætum stöðvað holdsins lund.
2.
Því mun holdið hreyfa sér,
hygg þú að hvörsu vont það er,
aska leið og orma ker
ofan í jörð að fúna fer.
3.
Hvað er maður ef holdið ræður,
hrekkvís blekkir Satan skæður
nema fallinn allur í eldsins glæður,
eilíft bál og Guði fjarstæður.
4.
Skamma stund hér blóma bar,
bóla vatns að maðurinn var;
drambið ekki dugði par,
við dauðann reynast heillirnar.
5.
Endadag þeim góðan gefur
Guðs sem meinlaust lífið hefur
og orðið Drottins að sér vefur
en engin ráð með falsi grefur.
6.
Því skal fram það fyrir mig tók
fjórða ríma af Esters bók.
Aman sneypu á sig jók
því ekki dugðu ráðin klók.
7.
Þessa nótt sem næst var þá
niflung ekki sofna má.
Annáls bækur hvílu hjá
hlýða vildi fylkir á.
8.
Lofðung hafði í letri skráð
því launa vildi hann dyggð og dáð
það Mardokeus gaf milding ráð
svo mætti hann forðast svikarans háð.
9.
Þá lesarinn kom þeim annál að
ansar tiggi þegar í stað:
Hvar er sá mann, að hilmir kvað,
eða höfum vér nökkru launað það.
10.
Lesarinn gaf það lofðung svar
launað var honum ekki par;
Aman gekk um garðinn þar
fyr gálga hann mesta hugsan bar.
11.
Þá milding veit að Aman er
þar innan garðs hann þanninn tér:
Kallið brátt svo komi hann hér;
á kóngsins fund hann gjarnan fer.
12.
Hvörninn skyldi heiðrast sá,
hilmir spyr til reynslu þá,
sem milding veitir virðing há,
vil eg þú, Aman, kveðir þar á.
13.
Dulinn er margur að sér til sanns,
svo var hugsun þessa manns
að milding hefði meint til hans,
á móti svarar og gefur til ans:
14.
Gangvara kóngs og góðan hest,
að gullkórunu er sæmdin mest,
prýði hann sá sem borinn er best
buðlungs sveinn með þingin flest.
15.
Hans taumjór út leiði tignarmann
um tún og stræti vítt sem kann;
kallara láti hrópa hann
svo heiðrist sá sem kóngurinn ann.
16.
Minnstu þess, kvað milding nú,
Mardokeo að veitir þú,
gjörvallt svo með góðri trú
að gleymist engin virðing sú.
17.
Aman þetta innan skar,
af sér þó með hörku bar,
setur á besta mildings mar
Mardokeus með sóma þar.
18.
Aman leiðir hestinn hans,
hér lét ekki varða á stans,
um strætin öll og svo til sanns
sóma rómar þessa manns.
19.
Svo skal hirðin heiðra þann
sem hilmir bestu sæmdar ann.
Aftur að porti öðling rann,
Aman skyldi þar við hann.
20.
Aman kvelst af angri og þrá,
í sitt hús hann skundar þá,
sínum vinum hann sagði frá;
svöruðu þeir og bauga ná:
21.
Ef maður er sá af Júðaætt,
of seint höfum vér þessa gætt,
sem fyrir hefur þú minnkan mætt
við meira falli er þér hætt.
22.
Kóngs geldingar koma þar að,
kalla Aman þegar í stað
með heiðri að sækja heimboð það
sem húsfrú Ester fyrri bað.
23.
Nauðugur gekk nú Aman inn
en ofsa glaður í fyrra sinn
því særðu hann, á sannleik minn,
samviskunnar gaflok stinn.
24.
Öðling drakk í Esters sal
áfengt vín með gleðinnar hjal
en spyr þá að með orðaval
Esters hvörs hún beiðast skal.
25.
Af víni glaður vísir tér:
Veitt skal þetta allt af mér:
ríkið hálft eða hvað sem er
til heiðurs viltu óska þér.
26.
Ester féll þá fram í stað,
fylkir svo með tárum bað:
Vilji minn herra veita það
sem voru lífi er huggun að.
27.
Gullspýruna rétta réð
að rjóðri snót og huggar með.
Bið þú þess sem býður geð
buðlung lét svo vífi téð.
28.
Lífi mínu líkna þú,
ljúfi herra, sagði frú,
og ættfólks míns fyrir ást og trú
því oss er stefnt til dauða nú.
29.
Eg kjöri mér heldur þrældóm þann
er þyngstur lífi verða kann;
vér þegðum öll um öfundarmann
ef ekki skaðaði kónginn hann.
30.
Hvör er sá mann, að milding tér,
svo mikla fólsku tekur að sér.
Ester segir hann Aman hér
illsku slíka með sér ber.
31.
Öðling reiður útgekk þá
svo Aman sína helför sá;
veik að Ester mjúkt sem má
svo mætti hann sínu lífi ná.
32.
Inn gekk ræsir aftur í stað
meðan Aman veik sér drottning að.
Gramdist milding meir við það,
morðingjann því fanga bað.
33.
Er hann svo djarfur, öðling tér,
Ester vill hann deyða hér
inn í sal fyrir augum mér,
illan dauðann kaupir sér.
34.
Fyr Amans bundu augun þar,
óstillt reiði kóngsins var.
Hilmirs sveinn sá hörku bar,
Harbóna, gaf þetta svar:
35.
Fram í garði er fimmtugt tré
er falsarinn setti upp á spé
Mardokeus að myndinni
mjög vel fer þar hengdur sé.
36.
Hilmir talar af hörku þá:
Hengið hann þar sjálfan á.
Svo var gert og sefaðist þá
siklings grund og létti þrá.
37.
Þennan dag gaf döglings náð
drottning Ester vald og ráð
yfir Amans húsi, eign og láð;
það af sér braut hans fólskan bráð.
38.
Mardokeus fyr milding sté
meir er von hann falli á kné.
Ester dregur nú ekki í hlé
að hans bróðurdóttir sé.
39.
Mardocheo milding fær
sinn mekta hring með tryggðir þær
sem Aman hafði allar nær
því Ester var honum hjartakær.
40.
Ester talar við öðling þá:
Ef eg má þessa beiðni fá
þér kallið aftur skrifaða skrá
þar skipaði Aman Júða að slá.
41.
Ei má eg sjá, kvað auðar nift,
að ættfólk mitt sé lífi svift;
það er mér bæði skaði og skrift,
skjöldung, lát því aftur kippt.
42.
Eg lét hengja Aman þann,
öðling talar sá vífi ann,
gaf eg þér hans eð göfuga rann,
góss og fé það átti hann.
43.
Fyrir þá sök hann gróf það grand
Gyðinga lýð um sérhvört land.
Nú sel eg þér pant af sjálfs míns hand,
minn signets hring í ástarband.
44.
Undir nafni mínu má
Mardokeus láta skrá
letrið sem þín lyst er á,
legg eg þar til gleðilegt já.
45.
Rit það enginn rjúfa má
sem ræsirs hring er þrykkt upp á;
því munu Júðar frelsi fá
að fyrirsögn Ester ræður þá.
46.
Á mánuði fyrsta sývan setur
sjóli lét þá skrifa það letur,
tuttugu daga telja getur,
tvo og einn að auki betur.
47.
Þeim sem halda lofðungs lén
letrin verða birt og sén.
Sú bífalning er hilmirs hrein
að hindri Júða ekkert mein.
48.
Á Súsans sloti er sagt og tjáð
svo væri út um löndin skráð
að Gyðingar fengi af niflung náð
nógan styrk með fullri dáð.
49.
Með lofðungs ráði rétt í stað
var ritað og skráð sem drottning bað
að Gyðingar fylgist allir að,
Assverus þeim býður það.
50.
Býður Júðum buðlungs letur
að búist til varnar hvör sem getur
á þann dag sem Aman setur
og óvini þeim í móti hvetur.
51.
Dag þrettánda setti sá
og sagðan mánuð kvað þar á
að Júða skyldi alla slá
en þeir búist til varnar þá.
52.
Drepið og deyðið heiðinn hvörn,
hlífist ei við konur og börn.
Það leyfist þó þér landsmann vorn
látið sæfa unda þorn.
53.
Þessi bréf voru þrykkt sem best
með þengils hring og tryggðum fest,
hleypt með þau sem mátti mest,
milding sparaði ei svein né hest.
54.
Af hundrað löndum heimti skatt
hilmir ör með lyndið glatt
og þrjátigi betur, það var satt,
þremur að tölu varð á fátt.
55.
Lofðungs vóru því letrin skráð
um löndin öll sem fyrr var tjáð.
Í hvörju máli er hafði náð
heiðin þjóð um séhvört láð.
56.
Á ungum múl svo ört að reið
einn og sérhvör fram á leið
bréfasveinn að gjörðist greið
Gyðinga hjálp um þetta skeið.
57.
Dásamlega Drottinn má
duga þeim best hann treysta á.
Ending skal svo fulla fá
fjórða ríman Ester frá.