Vísnaflokkur um Íslands gæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vísnaflokkur um Íslands gæði

Fyrsta ljóðlína:Heilagan anda hjartað mitt
Bragarháttur:Hugbótarlag
Viðm.ártal:≈ 1575
1.
Heilagan anda hjartað mitt
af himnum bið eg nú fræða
að mildiverkið mætti þitt
fyrir mönnum gjörla ræða
því oftlega hefur mig angrið hitt
að Ísland margir hæða
en móðurjörð er mér svo kær,
mig hefur langað, Guð minn skær,
að geta þess allra gæða.
2.
Eg vil spyrja Íslands þjóð
enn af bernsku minni,
þá hér lifir við þrautarmóð
í þungri fátækt sinni:
Hvört langar yður í löndin góð
hvar lysting mest er inni?
Indíalandið er gullinu glæst,
Grikkjaveldið þessu næst,
en hér er nú heimurinn minni.
3.
Hvar er það land í heimi nú
svo hart sé inni að byggja?
Af kulda og frosti kveina hjú
þar klæðfá inni liggja.
Hafís sjaldan bætir bú,
bændur mun það styggja.
Löngum vex hér lítið gras,
leiðast tekur mér soddan þras
því hug minn vill það hryggja.
4.
Jökull, sandur, aur og grjót
er hér mestur á landi,
blásin öll í burtu rót
þó byggðin víða standi.
Eg kann þar ekki mæla á mót
þó margar nauðir grandi.
Því angrar mig það oft til sanns
að enginn talar um gæðin lands.
Það er hinn versti vandi.
5.
Margan löst kann maðurinn spakur
móðurlands að finna,
hér er ei salt né sáður akur,
sætur lín ei spinna.
Því má verða lofstír lakur
að lýtum flestir sinna.
Heyri eg þar til háð og spott
að hér sé aldrei mikið gott.
Mein er ekki að minna.
6.
Góðum mönnum gef eg það svar,
því gott er satt að ræða,
Ísaland að aldrei bar
við önnur líkt til gæða
þar málmur, korn og vínið var
og villibráðsins fæða.
Þó skiptir því svo skaparans náð,
hér skortir ekki á Ísaláð
kost eða nóg til klæða.
7.
Því held eg skyldu hvörs þess manns
sem hér er borinn á landi
að mæla slíkt hann má til sanns,
yfir miskunn Guðs fagnandi,
og gæta þess að heillin hans
hér yfir lýðnum standi
svo augljóst verði öllum heim
að Ísland ber nú langt af þeim
sem vefjast villublandi.
8.
Þó þetta land sé allra yst
og ei hafi fordild neina,
hvörki bjór né heimsins lyst,
heldur ís og steina,
þá er því gefið til gæða fyrst
guðdómsorðið hreina
því Kristí náðar kynning skær
kringum landið gengur nær
fyrir ljúfa hans lærisveina.
9.
Herra Guðs hið hæsta ráð
hingað augum renndi
þá elskan hans að nýju náð
á Norðurlöndin sendi.
Þetta hið auma Ísaláð
einninn drottinn kenndi.
Það fagra ljós þá fengum vér
sem fram til þess nú lýsir hér
að verður á veröldu endi.
10.
Kristján þriðji kóngur vor
kjörinn að spekt og dáðum
lærdómsskóla efldi ör
hér innanlands með ráðum.
Friðrik annar fékk þau kjör
vort föðurland hélt með náðum.
Ungi Kristján einkafrægur
Íslandi mun verða hægur
og fylgja feðgum báðum.
11.
Kóngur vor með klára trú
kristin lög vill bjóða,
af oss hrindir hlífin sú
hernaði vondra þjóða.
Hann lætur stjórna landinu nú
lénsmenn harla góða.
Hvör hér lifir með heiður og dáð
fær hylli kóngs og drottins náð,
landsins gagn og gróða.
12.
Vorir landar votta það,
þeir víða fara með þjóðum,
að heiðursmenn í hvörjum stað
hreyfi sæmdum góðum.
Náðar Guðs vér njótum að
sem nú var skýrt í ljóðum.
Langa ævina lukkan sú
landsmenn vora studdi trú.
Það sést í sögnum fróðum.
13.
Hvör er nú meiri heill en sú
að hlotnaðist Ísalandi?
Vor erkibiskup traustur í trú
talar um það fagnandi,
stoðar þar til og styrkir nú
með stöðugu ástarbandi
að báðum stólunum biskupsvald
með bestu rækt og skólahald
frómir menn forstandi.
14.
Því vil eg að allir vitrir menn
vakandi augum renni
um biskupsdæmin bæði senn
og blessan drottins kenni,
fyrir fimmtíu árum áður og enn,
um það hugsa nenni
hvað betrast hefur vort lærdómslag
og lofi nú drottin nótt sem dag
og orð hans að sér spenni.
15.
Sunnanlands var sveitin stödd
svo hún ei drottin kenndi.
Gissur, Martein, Gísla og Odd
Guð lét þau tíðendi
þangað bera, svo þjóð var glödd,
hans þýðlegt orð í hendi.
Herra Ólafur hefti grand.
Himnafaðirinn þá Guðbrand
í norðursveitir sendi.
16.
Gáfur þær hefur gefið og lént
Guð vor þessu landi
sem herrann Jesús hafði oss sent
til himna uppstígandi.
Frábær var sú fróðleiksmennt
vér fengum með Guðbrandi:
öll Biblían uppá prent
á íslenskt mál sem best er hent.
Hafi lof heilagur andi.
17.
Prentverk er sú iðjan ein
sem allt vort land mun prýða.
Nú berst út mörg sú bókin hrein
sem best kann oss að hlýða.
Sá drottins maður vill dimma grein
daglega fyrir oss þýða.
Það er þá best til bóta veitt
að biskuparnir halda eitt
með prestaflokkinn fríða.
18.
Hér á landi höfum vér nú,
hvör kann þessu að neita,
kennimenn með klárri trú
sem kristni efling veita.
Daglega eykst þeim dygðin sú
drottins hylli að leita.
Fólkið líka fræðist margt
fyrir það klára ljósið bjart
sem herrans orð má heita.
19.
Vor betrast hagur í hvörri grein,
hér eru listir fleiri,
lærðir menn á handverk hrein
hafa nú visku meiri.
Vísnasmíð er íþrótt ein,
eykst það eg nú heyri
dýrleg sálmadiktan sú,
drottinn gefi vér lærum nú.
Hún glóar sem gull hjá eiri.
20.
Svo eru margir sæmdarmenn
og siðugar kvinnur víða
þeir hér lifa í landi enn
og lofstír fagran bíða
fyrir mildiverkin mörg í senn,
má það landið prýða.
Greiði veitist gestum frí.
Guð mun sjálfur dást að því
og blessan auka blíða.
21.
Styggðarlítið stjórnarhald
hér stýrir landsins rétti.
Þó fær lýður af þessu gjald
að þar eru oft til settir
þeir sem angra andlegt vald;
eru það verstu fréttir.
Því hef eg þess Guð af hjarta beitt
að haldi um landið jafnan eitt
allar æðri stéttir.
22.
Hvað hef eg til nema hjartans bón
hvörri stétt að veita?
Stýr þú, drottinn, þínum þjón,
það skal valdstjórn heita.
Lát forlíkast föður við son
og fara svo góðs að leita.
Kirkjuvald og kóngsins ráð,
það kýs eg helst af þinni náð;
það hafi nú elsku heita.
23.
Lögmenn vora láttu tvo,
lifandi Guð, þér kæra.
Allar stéttir siðaðu svo
að samtök mættu læra.
Lögsögnin þér þóknist þó,
það er oss heiður og æra.
Þá munu flest öll gæðin góð
gagnast vorri landsins þjóð
og fagran ávöxt færa.
24.
En þó að flestir athugi lítt
Íslands þessi gæði
þá læt eg heyra hugboð mitt
hér í litlu kvæði
að daglega fremur hér drottinn sitt,
það dýrðarverk eg ræði,
þann hulda mjólkurhjálparbrunn,
hér er sú dásemd mörgum kunn,
að fjölda manns það fræðir.
25.
Hér er það eitt í hörðum reit
að herrar þyrfti aðgæta,
halda stjórn í hvörri sveit,
um hegðan lands að bæta.
Letingjar sem lýðurinn veit
lítið bændum sæta.
Það útarmar allt vort land
að ei vill fólkið vinna grand.
Þess má enginn þræta.
26.
Fæst hér bæði fiskur og hey
og fleiri önnur veiði
ef búmannsyrkjan bilaði ei
og bænin fyrir þeim greiði
og þénarar segðu ei nokkru nei,
af nöldran verður leiði.
Ef dygðin engin dregst í hlé
drottinn lætur brauð í té.
En letin landið eyðir.
27.
Þó varningskaupin harðni hér
hvört ár fram úr máta
því útlend þjóðin veit að vér
verðum öllu að játa,
en vildi fólkið sjá að sér,
af sinni heimsku láta
að kaupa *það *ei þarfnast getur
þá færi allt í landi betur.
Það er minn grunur og gáta.
28.
Þó kaupmenn vorir segi sig
senda oss til góða
og nóg sé varan nytsamlig
nú sem þeir fram bjóða
þá er það enn sem uggir mig
þeir um sinn hugsi gróða.
Þó er það Íslands auðlegð stór,
að árlega kemur nú hér til vór
sigling þýskra þjóða.
29.
Það hefur guðdóms viskan vönd
veitt af miskunn sinni
svo hjálpast mætti um heiminn lönd
að hvört fyrir öðru vinni.
Í nauðsyn réttir nálæg hönd
það náir ei til með hinni.
Í voru landi er vara sú ein
sem vér höfum kallað brennistein.
Hann finnst í fjöllum inni.
30.
Fleira er þó en þetta eitt
af þessu landi að selja.
Hvað Guð hefur oss til gæða veitt,
get eg það seint að telja.
Ef landsmenn halda allir eitt
ei má neyð oss kvelja
og hér væri þakklát þjóð
þá munu fjölga árin góð,
því ei vill drottinn dvelja.
31.
Mér er þar skylt að minnast á,
fyrir mína hönd að játa,
minn barnaflokkur með mér má
af mjúkri elsku gráta,
hér á landi oss herrann sá
og huggaði öll í máta.
Því vil eg elska Ísaláð
og yfir það kalla drottins náð
en aldrei af því láta.
32.
Allt eins líka er orðið þitt,
minn elsku faðirinn kæri,
það nú hrærir hjartað mitt
sem heilnæm smyrsl að væri,
græðir allt og gjörir nú fritt;
gef þú eg lifi sem bæri.
Láttu og vora landsmenn hér
fyrir lífgan slíka þakka þér
sem neistann trúar nærir.
33.
Gef þú vér hugsum glöggt um það
guðdómsverkið dýra
að hér er þitt orð í hvörjum stað,
heillum mun það stýra,
hvað ávallt gjörir sem óðurinn kvað
alla hlutina rýra.
Blómgast vort eð litla land,
nú lætur oss ei skorta grand
þitt gæsku hjartað hýra.
34.
Hef eg til vitnis himin og jörð
að hvörn mann uppá minni,
unga og gamla af Íslands hjörð
sem er hér fæddur inni,
vér þökkum Guði fyrir þessa gjörð
þó svo aldri linni
að þetta eyland aumt og kalt
orðið Guðs nú blómgar allt
með mjúkri miskunn sinni.
35.
Hér næst bið eg vér höldum eitt
og höfum nú guðlegt æði,
athugum það oss er veitt,
öktum heimsins gæði
í sínu gildi sérhvört eitt
sem eg nú fyrr um ræði.
Eru þau dæmin ekki góð,
yfir óþakkláta Gyðingaþjóð
kom hefnd og herrans bræði.
36.
Hugsum um þann heimsins part
sem hefur nú auðinn mestan,
í heiðindóm með skraut og skart,
það skemmtan þykir hin besta,
en þetta lifanda ljósið bjart
lætur Guð þá bresta.
Fyrir óþakklæti er það skeð
en eilíf kvöl þar fylgir með
og eymd hin allra versta.
37.
Heyr þú, faðir á himnum, mig,
eg heiti á miskunn þína,
elskan þín mun innilig,
athuga beiðni mína.
Hörmulega það hryggir þig
ef hér skal stjórnan dvína.
Vek þú bæði völdin senn
og varðveit landsins stjórnarmenn.
Þeir skoði nú skyldu sína.
38.
Í báðum stiftunum blessa þú
biskupsvaldið, herra,
lát þá kenna lifandi trú
og lifnaði hafna verra,
frá þeim allri flekkan snú
en frið lát ekki þverra.
Lærdómsskólana líttu á,
það læra og kenna mætti fá
að komast í heiðurinn hærra.
39.
Lærða menn um landið vítt
og lögsögn allra sveita,
eilífi Guð, fyrir orðið þitt
lát ávallt dygða neyta,
búfólk *ráðið bæti sitt
og bænina verndi heita
svo þín milda hjálparhönd
yfir himin og jörð sem sjóinn og lönd
vilji blessan veita.
40.
Nú fel eg vort land og lýðinn með
lifandi drottins hendi
að bæti allt sem áður er téð
og eymdum burtu vendi,
ávöxt jarðar og svo féð,
hann yfir það blessan sendi.
Fyrirgef þú oss, faðirinn kær,
í fáviskunni brjótum vær.
Vor óvin illt oss kenndi.
41.
Að öllu tel eg nú Ísaland
Indíalöndunum betra
því oss mun skorta ekki grand
innan fárra vetra.
Jesús laðar með ástarband
oss til himnasetra
skipandi sér á hægri hlið,
og hýrlega mælir alla við
þá er gættu guðspjallsletra.
42.
Komi þér blessuð, börnin mín,
búin er eilíf sæla.
Þessum ástarorðum sín
Jesús mun þá mæla.
Er eg því sviptur allri pín
að öngvan vill hann tæla.
Hjartaglaður þar hugsa eg á
að hann muni blítt oss nefna þá
arfa, en ekki þræla.
43.
Þitt hreina orð eg haldast bið
hjá mér framan til dauða
skaplega svo eg skiljist við
skuggann veraldarnauða;
síðan öðlist fagran frið
í flokkinum þinna sauða.
Herra Jesú, hjálpari minn,
í himnasæluna leið þú inn
auðuga eins og snauða.
44.
Sé þér heiður, sæti Guð,
með syni og helgum anda.
Þú leystir oss frá allri nauð
og undan valdi fjanda,
himnaríkis arf og auð
oss hefur keypt til handa.
Fyrir Íslands gæðin einneginn með
ávallt sé þér dýrðin téð.
Hér skal hróðurinn standa.