Rímur af bókinni Ester – Fyrsta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af bókinni Ester 1

Rímur af bókinni Ester – Fyrsta ríma

RÍMUR AF BÓKINNI ESTER
Fyrsta ljóðlína:Guðs börnum skal gamna enn
bls.169–173
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur

Skýringar

„Hér skrifast rímur af bókinni Ester“
1.
Guðs börnum skal gamna enn
með grein úr helgu letri;
ef það vildu athuga menn,
ekki er skemmtan betri.
2.
Ævintýr af Esters bók
eg hefi fært í kvæði.
Ofdramb sjaldan auðnu jók,
það innir þetta fræði.
3.
Sérlega bið eg að sviplynd fljóð
til sögunnar hlýða vildu;
dragi sér hvörki dramb né móð
eða dreissið meir en skyldu.
4.
Mörg hefur játað manni sú
mjúklynd fyrst í bragði
en þegar líða árin þrjú
er hún þá líkust flagði.
5.
Forsmár þann hún festir við
fulla trú með ráði,
afrýr mannsins allan sið,
of seint þessa gáði.
6.
Sírak mælir satt um þær
sinnis stórar hrundir.
Höggorm fær sá henni nær
og hugraun allar stundir.
7.
Þó hún sé voldug, væn og rík
vara eg þig við henni;
hittast fljóð í heimi slík,
haf þau ráð eg kenni.
8.
Orðið Guðs þú iðka mest,
það eykur visku sanna;
drag þér öll af dyggðum best
dæmin góðra manna.
9.
Vilji þagna víf og menn
og vísu hlýða minni
þá skal byrjast óðurinn
upp í fyrsta sinni.
10.
Assverus hét öðling vitur
austur í Persía ríki.
Í heiðri stórum hilmir situr,
hæstu kónga líki.
11.
Þrjátíu lönd yfir hundrað hans
herradæmi þéna,
frá Bláfold allt til Indíalands
ei má frægðin réna.
12.
Það bar til um þengils hag
á þriðja ríkis ári
veglegt stofnar veislu plag
vísir dyggða klári.
13.
Í Súsans sloti á sínum stól
sat með fræga drengi.
Þangað bauð fyrir þriðju sól
þengill völdu mengi.
14.
Höfðingjar sem héldu láð
með heiður af ríkum tiggja
verða nú fyrir vísirs náð
veislu góða þiggja.
15.
Um Persía land og Medíam með
milding valdi lýði
svo hvör mann fengi heyrt og séð
hilmirs tign og prýði.
16.
Hálft ár skyldi hófið ríkt
og heilan mánuð standa.
Hér næst vendi hoffólk slíkt
heim til sinna landa.
17.
Síðan magnar sjóli boð
sínum völdum lýði.
Viku að auk sú veislan stóð
með veraldar mestu prýði.
18.
Höfðingjar og hirðin best
heim á kóngsins garði
herrans reyna hylli mest
en heiðurinn öngvum sparði.
19.
Í aldingarði er herlegt hof,
það höll má kalla glæsta;
milding fær því manna lof
þar magnast veislan stærsta.
20.
Öðling tjaldar allt um kring
einn veg múr og stræti,
sparlak sett með silfurhring
og samin á alls kyns mæti.
21.
Af marmara stein var gólfið greypt,
grænt og svart að líta;
rautt og gult sem rennt og steypt,
með reita einninn hvíta.
22.
Að silki hvítu er sæmdin mest,
svo skal tjöldin prýða,
gul og rauð þar gegndi best,
græn og blá svo víða.
23.
Sætin vóru með silfrið hreint
samin og gullið brennda.
Vegsemd sú hefur vísir meint
skal víðfræg heims til enda.
24.
Drykkjarkerin með dýrsta gull
döglings sveinar báru
og skiptu um þau svo skemmtan full
skapast af víni kláru.
25.
Kóngsins vín var kostulegt,
klárt sem hér má skilja;
að öngvum hélt þar öðling frekt
en allir hafa sinn vilja.
26.
Vastí drottning, vísirs kvon,
veislu heldur líka
kvenna skara, sem skilst mér von,
í skjöldungs salnum ríka.
27.
Þann sjöunda dag var sjóli kenndur,
sína hirð vill kæta;
frú[r]innar hagur með heiðri stendur,
hún mun gleðina bæta.
28.
Af sínum velur hann sveinum þá
sendimenn til fljóða,
fremsta og æðsta fimm og þrjá,
frúnni inn að bjóða.
29.
Vastí drottning, vísir kvað,
væn með sinni prýði,
hingað leiðist strax í stað
og stolta gleðji lýði.
30.
Drottning Vastí dramblát var
og döglings boð forsmáði;
sveinum ekki sinnir par,
að sómanum alllítt gáði.
31.
Ræsirs brjóst af reiði brenn
fyr ristils breytni slæma;
vill því láta vitra menn
um Vastí rétt að dæma.
32.
Sjö höfðingja setur hann til
sagðan dóm að vanda
sem lært hafa öll á lögunum skil
að leysa úr hvörjum vanda.
33.
Memúkan sá mestur var,
mælskur, gæddur sóma,
hátt og snjallt réð herma þar
hilmir þeirra dóma:
34.
Ef svo virðist öðling þér
eins og brjósti mínu
að Vastí drottning sjá fyrir sér,
hún sinnti ei boðinu þínu.
35.
Einskis virti hún yðar sæmd,
ill eru dæmin svanna.
Er hún því rétt af ríki dæmd
með ráðum bestu manna.
36.
Fleiri hefur hún fljóð en sig
fyr forsið leitt í vanda;
eftirdæmin uggir mig
að ill muni vífum granda.
37.
Ef það berst nú út fyrir sann
hvað Assverus leið hinn ríki,
að fljóðið Vastí forlét hann,
fæst þá hennar líki?
38.
Þá forsmár hvör sem fljótast kann
fljóð sinn eigin herra
og svo hvör sinn ekta mann
og er það ráðið verra.
39.
Af því skrifi nú öðling bréf
um sitt fræga veldi
svo viti það fljóð fyrir utan ef
hvað á sig drottning felldi.
40.
Komi hún aldrei í öðlings rann,
aðra milding festi
þá heiðarligustu hittast kann
og hlýðnin ekki bresti.
41.
Láttu á þessu letri skrá,
lög þau haldast mega,
að engin fljóð skuli einn forsmá
yfirmann sem þær eiga.
42.
Um Persía land og Medíam með
mun sá réttur ganga
því Vastí hefur þann vansa skeð,
hann varir um ævi langa.
43.
Hvört sem kvinnur meiri mann
eða minni tignar eiga,
í öllum greinum heiðri hann
og hafi þá sæmd er mega.
44.
Úrskurð þennan öðling vitur
allvel gjörði að róma
og svo hvör sem í honum situr,
alla tel eg þá fróma.
45.
Síðan skrifar og sendi letur
á sagðan hátt um veldi.
Þénörum kóngs það þóknast betur
að þengill reiði felldi.
46.
Drottning skilur við sjóla sinn
og söguna einninn líka.
Því bið eg nú fljóðin fögur á kinn
að forðast breytni slíka.
47.
Hvörri þjóð lét hilmir sagt
í hennar tungumáli:
Hafa skal bóndi í húsi magt
og heiðurinn ei með táli.
48.
Eftir þetta öðling þá
alla fellir kæti.
Dögling minnist drottning á
er dæmd var fyrr úr sæti.
49.
Kváðust vilja mildings menn
meyjunum safna víða
svo af þeim veldi öllum senn
öðling drottning fríða.
50.
Í brúðarstofuna bestu frúr
buðlung flytja láti;
þar velji hirðir vitur og trúr
og vísir tryggðum játi.
51.
Sá geldingur skal geyma þær
er grundum kann að þéna,
Hegi, sem það hentað fær,
og hilmir vill það léna.
52.
Ef yður þóknast einhvör best
fyr æru dyggð og sóma,
unni þeirri öðling mest
og eignist brúði fróma.
53.
Buðlung kvað það besta ráð
og býður dyggða mönnum
vænar meyjar um vísirs láð
að velja af heiðri sönnum.
54.
Sá var maður í mildings hirð,
Mardokeus að heitir,
af Gyðinga ætt með örlög stirð
og Ester fóstur veitir.
55.
Í herför þeirri hann var fluttur,
heiðursmanna líki,
þá Jekonías auðnustuttur
af var flettur ríki.
56.
Nabogosor hertók hann
og harðir kóngsins þjónar
fluttu kóng og margan mann
til miklu Babílonar.
57.
Mardokeus af mörgum þeim,
sem meiri kenndu sorgar,
Júðum dreifðum austur um heim
var innan Súsans borgar.
58.
Nefnda eg bjarta bauga rist,
hans bróðurdóttir fríða;
foreldra hafði fljóðið mist
þá fóstra gjörði síðan.
59.
Þá meyjarnar lét nú milding heim
margar til sín færa,
Ester var sú ein af þeim
sem öðling hafði kæra.
60.
Hirðir meyja, Hegi trúr,
hans geldingurinn frómi,
skarti öllu flýtti frúr
svo fríðleik prýddi sómi.
61.
Allt hvað vífið æskja kann
öðling veitti fljóði
því Ester náð hjá fylkir fann
sem framar er greint í óði.
62.
Kyn sitt vill ei kyrtla brú
kóngi að heldur greina;
Mardokeus bað mæta frú
milding því að leyna.
62.
Í forgarðinum hjá fljóða sal
fóstri reikar hennar;
í síðara óð það skýra skal
hvað skipt er um hylli kvenna.
63.
Mardokeus meyju ann,
merkja vill að sönnu
hvört Ester náð hjá öðling fann
og öllum sæmdar mönnum.
64.
Allra hæsti einka Guð
auðmjúk hjörtun sæmir,
hjálpar þeim úr hvörri nauð
en hofmóð rétt fordæmir.
65.
Vastí fékk þá verstu smán
og verður keyrð úr sæti
en Ester sæmd og auðnu lán
fyr ágætt lítillæti.
66.
Hlýðni læri hæversk fljóð
hér með auðmýkt sanna;
þeim fæ eg í hendur hinn fyrsta óð
en forsið öllum banna.
67.
Góðlynd vífin gamni sér
og gefi mér hvíld um tíma;
af Esters bók, sem vitum vér,
endast fyrsta ríma.