Fjórða tíðavísa yfir árið 1782 | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tíðavísur Jóns Hjaltalíns yfir árin 1779 til 1834 4

Fjórða tíðavísa yfir árið 1782

TÍÐAVÍSUR JÓNS HJALTALÍNS YFIR ÁRIN 1779 TIL 1834
Fyrsta ljóðlína:Sitji í friði frúr og menn
bls.8–10
Bragarháttur:Ferskeytt – víxlhent (frumhendingalag)
Viðm.ártal:≈ 1775
Tímasetning:1782
Flokkur:Tíðavísur
1.
Sitji í friði frúr og menn,
fagni nýju ári.
Dýrkum smiðinn sólar senn
sem að mýgjar fári.
2.
Ártal fundið inna rétt
ýtar sátta fríu:
Seytján hundruð þrifa þétt
þrjú og áttatíu.
3.
Landsins reita raunafár
reifa trega mestum.
Það má heita eymdarár
ætla eg hjá flestum.
4.
Harður vetur þókti því
þrauta tærði söfnum.
Kuldahretin kvíða ný
krásir færðu hröfnum.
5.
Æddi góa eins og ljón,
yppti þungum nauðum,
þakti snjóum fjöll og frón,
færði hungur snauðum.
6.
Hristi faldinn granagrá,
gaf oss ríka pressu.
Fyrr eg aldrei augum sá
áður slíka skessu.
7.
Ef ei dáðin einmánuðs
iðkaði mildi dýra
held eg ráðin góða Guðs
góa vildi rýra.
8.
Verði hún með í vetur stríð
og vonsku hreyfi gallin
eg skal kveða um hana níð
eins og Leifi um jallinn.
9.
Kynni hún þjóakláða að fá
kvillanum til léttirs
kappar góu klóri þá
með kömbunum hans Grettirs.
10.
Harla þéttur hafís grár
hart fékk grandi ollað.
Hann hefur þetta heila ár
hér við landið tollað.
11.
Sigling hrekur höfnum frá,
hamlar strengja dýri.
Alls kyns vekur sorgir sá,
sjávarfenginn rýrir.
12.
Byrgir sól en beltar láð,
bægði landsins gróða,
kuldann ól en svæfði sáð,
sefaði mannsins góða.
13.
Grasár lítið víða var,
vann ei ljár á jörðu,
góð þó nýting blíða bar
bót við fári hörðu.
14.
Aflaveiðin austanlands
af er lögð að kalla.
Það er neyð hjá múga manns,
máltíð sögð fæst varla.
15.
Syðra gengur skötnum skár,
skip þeir vestra hlaða,
norðan fengur fréttist smár,
fólk þar brestur taða.
16.
Nokkra meiðir sorgin sár,
sútir finna tvistir.
Aðra leiðir herrann hár
himna inn í vistir.
17.
Biskup Hóla, herra Jón,
hvarf frá meinsins kjarna,
lambs hjá stóli, laus við tjón,
ljómar eins og stjarna.
18.
Dýran sigur fékk og frið,
frjáls af lasta gildi,
síra Vigfús Setberg við
sem prófastur skyldi.
19.
Síra Skafti sálaðist
sem var austur á Hofi,
heimi tapti en himnavist
hreppti traust þó sofi.
20.
Kirkjubóli kjörinn á
klerkur *séra Illugi,
nauðaróli frelstur frá
friðar ber nú hugi.
21.
Hann úr kaupstað heimferð bjó,
hreppti óraveður.
Dauðastaup þá drakk í sjó
drengjum fjórum meður.
22.
Ögurs prestur, Sigurðsson
síra Jón, hjá drottni,
listahresstur lífs á von
lagður í frón þó rotni.
23.
Listahraður, lærður vel,,
laus við vöndu dóma,
Sveinn lögmaður hreppti hel,
hans er önd í sóma.
24.
Markaðs vörðinn Hartmann hér,
helsótt marðan viður,
dauðans hörðu drómarner
drógu í jarðariður.
25.
Vestmanneyjum er Jón í
undirkaupmann látinn.
Ekkjan segist súpa af því
sorgarstaupið grátin.
26.
Fréttu nesi Álftar af
ýtar kargan skaða.
Nú má lesa nauðahaf
nógu margir vaða.
27.
Bæja milli maður gekk
mitt um voðabalann,
víst með snilli virðum fékk
varning boðið falann.
28.
Stóra skjóðu í barmi bar
benja stýrir nöðru
hvar í voru hvatir þar
hnífar þrír með öðru.
29.
Þunga stríðu þoldi um sinn
þjassa vessa beimur.
Hann fannst síða helstunginn
af hnífum þessum tveimur.
30.
Margt er yrkismálið oft,
meining skilur flestra.
Eyrarkirkju upp í loft
einn tók bylur vestra.
31.
Eftir stóð þar altarið,
annað fór í mola.
Mátti góða guðshúsið
grandið stóra þola.
32.
Förlast tekur mærðin mér,
minnisrásir hamla,
illa lekur æðahver
úr honum Kvásir gamla.
33.
Spjölluð óðar mælskan mín
mál er ending finni.
Gölluð ljóða dælskan dvín,
dregin að lending sinni.
20.2 séra] < síra ;leiðrétt frá texta vegna ríms;.
(Tíðavísur Jóns Hjaltalíns yfir árin 1779 til 1834, bls. 8–10)