Móðars rímur – Síðari ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Móðars rímur 2

Móðars rímur – Síðari ríma

MÓÐARS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Skáldin fyrri skröfuðu margt og skemmtu þjóðum
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1550–1650
Flokkur:Rímur
Móðars rímur
Síðari ríma
1.
Skáldin fyrri skröfuðu margt og skemmtu þjóðum
ágætlega með orðum fróðum,
ýtar hlýddu vísum góðum.
2.
Nú er ei nema dramb og dár so dvínar mætti,
lygar og háð með ljótum hætti,
lítt það trú eg fólkið sætti.
3.
Ég minntist á að Móðar *sókti menja strindi,
gaf henni bæði ást og yndi
ammorslegt með blíðu lyndi.
4.
Vissi ei í veröld neitt með vænstu hóti
lindi gulls hann léti á móti,
ljúft varð allt af örvabrjóti.
5.
Heim kom bóndi og brúðir tvær í burt frá tíðum,
ambátt vönd með orðum stríðum
æddi móti hjónum blíðum.
6.
Ykkar dóttir er áburt höfð af illum tröllum,
hún er geymd í háum fjöllum
hvörgi nærri görpum snjöllum.
7.
Margrét kvað það karga lygð sem kvendið sagði,
heldur mun með hýru bragði,
hrund sú jafnan gott til lagði.
8.
Ambátt fékk þá ekki gott af orða línum
bæði af frú og bónda fínum,
bryðjan sú var hæf hjá svínum.
9.
Móðar unni ungri frú í ástar ranni,
réttri trú hélt siðugur svanni,
sagt var það ei garpurinn banni.
10.
Þá svanninn vildi syngja á bók hinn sæmdargildi,
Móðar svaf hjá menja hildi,
mætur gjörði víf hvað vildi.
11.
Árið leið með öllu út sem ýtar skilja,
var með barni bauga þilja,
bráðust forlög hafa sinn vilja.
12.
Hátíð jóla hófst nú enn hjá heiðurs köllum,
inntur bóndi á Ásgeirsvöllum
enn nú frétti af menja þöllum.
13.
Vilji þið kirkju víkja til og vísdóm sækja,
orðið guðs er gott að rækja
en girndum heims sig ekki flækja.
14.
Hýrar sögðust hrundir ætla heima sitja,
einn fór þá sá eyðir fitja
enn nú jólatíða vitja.
15.
Dagurinn leið, en dimm kom nótt og dvínar kveldi,
Móðar býst í bónda veldi
blíður og högg ó dyrnar skelldi.
16.
Drós fór Margrét dyggðafulla dyrum upplúka,
kæran hendi kveðju mjúka,
kappinn heilsar lindi dúka.
17.
Sætast biður sæmdarvífið sér með ganga,
á bak sér lagði býtir spanga
brúði, hún nam svefn að fanga.
18.
Fyrr ei svefni sínum brá sú sætan blíða
en hún byggð sá bjarta og fríða,
býsna skraut réð hana prýða.
19.
So úr hnakki sögðum fór og sér nam flýta,
veik að svanna veifir ríta
vænn og hýr þá á að líta.
20.
Rétt hann leiddi refla skorð í reisugt setur,
höggvið var, so hermir letur,
hamarinn í þó skafið betur.
21.
Afhýsi þar allmörg lítur innan gátta,
ljósin þar með einninn átta,
ei var dimmt þó tæki nátta.
22.
Afhýsinu einu náði upp að ljúka,
sett var allt með silkið mjúka,
selju leiddi þar inn dúka.
23.
Systur þekkti sína þar er sótt bar stinna,
kyssti tíðum kæru svinna,
kveðju bar henni móður sinnar.
24.
Hin réð gleðjast, heftast tekur harma slagur,
settist hjá henni svanninn fagur,
senn þá greiddist hennar hagur.
25.
Sveinbarn fæðir silkinift, sem segir í kvæði,
vöfðu hann í voldugu klæði,
vella skorðin hrindir mæði.
26.
Bón við systur ber þá fram og bestu gjafir
Barn til skírnar bið eg hafir,
brátt ef deyr, við kirkju grafir.
27.
Mætum þetta Móðar linnti, má það sanna,
leið að beina burðugum svanna
býr sig halur, valið manna.
28.
Hann bar í hnakki hýrlegt spurnd og hér með arfa,
fór so heim með fljóðið þarfa,
frægur þetta kunni starfa.
29.
Mæta barnið móður færir mengrund trúa,
til fells síns aftur fljótt réð snúa
fleina lundur kænn að búa.
30.
Til Mýrar kirkju mæðgur fóru meður jóði,
presturinn veik að prúðu fljóði,
pellan spyr hvör hans sé móðir.
31.
Mín er dóttir móðir hans, kvað mætur svanni,
honum lék sorg í hyggju ranni,
halurinn réði mæla þanninn:
32.
Leikur hvort eða lærður er sá lestir spjóta,
hann skal aldri hennar njóta
heldur en sveinninn dægur hljóta.
33.
Heilög skírn hvort hlotnaðist þeim hýra sveini,
þátturinn ekki þar um greinir
þótt að margir menn so meini.
34.
Ei þó lifði ungi sveinninn ævi langa,
drengurinn hlaut sinn dauða fanga,
drós bar Margrét hyggju stranga.
35.
Meyjan gaf sig furðu fátt að fölnuðum sveini,
þó flaut vatn af hvarma steini
hvörn dag fyrir systur meini.
36.
Til fríðrar kirkju flytja létu feigðar niðja,
árið leið so út hið þriðja,
enn mun Móðar mæðgur biðja.
37.
Hann var nú so hljóður og fár sem höldar líta,
mjög tók angur á Móðar bíta,
með sér bar þó lilju hvíta.
38.
Sína dóttur sætan fann í sorgar línu,
hún bar bæði harm og pínu
og hætta sótt að barni sínu.
39.
Meybarn fæddi menja nift í mæðu kífi,
sóttin gekk so sárt að vífi
sjálfur guð hana firrti lífi.
40.
Móðar gjörði mæta kvinnu mjög að sýta,
allur fölur á að líta,
angrið gjörði sárt að bíta.
41.
Brátt þá tekur börurnar gulls þó bundinn stríði,
voru af frægu fornmanns smíði,
færð skal á þeim svanninn þýði.
42.
Holdið smurt var harla vel af hjörva runni
kistulagt, því ljósri unni,
líni vafið best sem kunni.
43.
Síðan lætur silfur, gull og silkið græna
ofan í kistu allt hið væna,
auðþöll skal það gefast til bæna.
44.
Fátækum skal fénu býtt í frúar nafni,
betri aura bæn er safni,
brátt so innti fæstra jafni.
45.
Sjálfur flutti hann seima gefni svinna og teita
til Mýrar kirkju margra reita,
mey skal eftir Signý heita.
46.
Gróf hann sjólfur geðuga frú í grundu niður,
fénu tærði fleina viður,
furðu vel þá margur biður.
47.
Býtir aura burt réð ganga bráðast síðan,
óríkt missti mengið kvíðann,
meyju ungri tilféll blíðan.
48.
Presturinn tók það prúða barn af pella eyjum,
skírði unga skikkju freyju,
skýrlega beiddi vel fyrir meyju.
49.
Mær hét eftir móður nú, sem maðurinn sagði,
kennifaðir í fang sér lagði
fljóðið unga enn að bragði.
50.
Ekki mátti unga barn hjá öðrum liggja,
sjálfum hjá réð sæng að þiggja
so var kært við nafnið friggjar.
51.
Meyju gjörði mennta hann til munns og handa,
les og skrifið vel að vanda,
vitur þótti liljan banda.
52.
Ólst hún so upp árin tólf hjá eyðir spjóta,
kallsar hann þá til kærleiks hóta
kurteislega við prýði snóta.
53.
Vífið so var viskufullt og vænnra dáða
um það lét hann öngvu ráða,
eitt sinn klæddist seljan þráða.
54.
Bækur sínar brúðurin tók og bestu klæði,
gekk í burt með geðilegt æði,
gjörði mæla hátt, eg ræði.
55.
Hvar sem frægur faðir minn er sem fljóð vill rækja,
mætan bið eg mig að sækja,
mér so verði ei neitt til klækja.
56.
Móðar kom með mjúkri elsku meyjar vitja,
í gylltum hnakki grund réð sitja,
gekk so burtu eyðir fitja.
57.
Flutti hann þá fögru mey í fellið Móðar,
lærði hana á listir fróðar,
líka býtti gjafir góðar.
58.
Reynirsstaðar reistu klaustri rekkurinn prúði,
abbadísi ungri brúði
innta gaf hann þorna þrúði.
59.
Helgilifnað hélt vel sinn sú hringa sunna,
vífin gjörðu vænnri unna,
var hún þar síðan klausturs nunna.
60.
Messuklæði Móðar gaf því mæta klaustri,
lifði so með lukku traustri
ljúft sem hæfði kempu hraustri.
61.
Síðan víkur sögunni frá um seimgrund ljósa,
Margrét fékk hin mæta drósa
mann sem vildi sjálf til kjósa.
62.
Mér var ekki meira sagt um Móðar að sinni,
ætla eg mál að óðurinn linni,
einn guð geymi oss úti og inni.