Barnadilla | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Barnadilla

Fyrsta ljóðlína:Dikt heilnæman / hér skal þylja
bls.154--160
Bragarháttur:Fornyrðislag
Viðm.ártal:≈ 1625

Skýringar

Kvæðið hefur Einar sent Margréti litlu Oddsdóttur biskups, sonardóttur sinni, og er það heillaóska og heilræða kvæði.
1.
Dikt heilnæman
hér skal þylja
ungri meyju
svo allvel gangi.
Heilög þrenning
hlýði minni
barnadillu.
Bið eg þér heilla!

2.
Fyrst bið eg drottin,
föðurinn hæsta,
og Krist þann
þig endurleysti,
heilagan anda,
að hjálp þér sendi
svo þér nærist best
nám í brjósti.

3.
Gefi þér sinni
Guði að unna
og helgri trú
hreint að fylgja
svo skírnareiði
allt til dauða
og orði Guðs
ei afhuga verðir.

4.
Þitt eð unga líf
þýður drottinn
þroskast láti
þegar í æsku,
spök og angurlaus
lifir þú lengi,
heilbrigt sé þitt
hold með sálu.

5.
Málið gefi þér
milding sólar
og mannvit hreint,
meyjan svinna,
heyrn og skilning,
hlýðnust barna,
svo boðorðum Guðs
þú best að hlýðir.

6.
Guðhræðslan þér
gefist af hæðum,
ást og trú
með eðli bestu,
svo þú þekkir Guð
og þar með lokkist
heiður skyldugan
honum að bjóða.

7.
Dýrðarnafn þér
drottins verði
sinni hvörju
sætt í munni,
á bæn og þakklæti
bið eg þú *venjist,
en *varist án þarfa
við það að sverja.

8.
Guðs orð bið eg
þú gjarnan hirðir
ört og vandlega
innst í hjarta
svo vel unnir þeim
sem þau kenna.
Vissulega þér
veitist blessan.

9.
Föður og móður
fremsta þú heiðrir
og aðra þá
sem yfir þig bjóða.
Sú hlýðni undirbýr
heillir góðar
og langgæða
þú lukku fengir.

10.
Hreinlífi skært
er há Guðs gáfa
og hindrar þig ei
frá hjónabandi
en þú forðast
sem þrekk á jörðu
þann lifnað
sem Guð hefur bannað.

11.
Gættu þess vel,
sem gaf þér drottinn
en drag ei undir þig
annars eigu
nema vélalaust
með hug heilum
og hreinu kaupi
hinum best launir.

12.
Heilagan sannleik
hafðu að mæla
ef verður þú krafin
til vitnisburðar
því enginn limur
er æðri en tungan,
leiðir af henni
líf og dauða.

13.
Unn þú vel öðrum
eigna sinna,
því öfundin má
svo margan blinda.
Lögvillur
með ágirnd allri,
það er undirrót
alls hins vonda.

14.
Hreinferðug lund
hjá þér skíni,
það varðar mest
til máls og gjörða.
Með táli ekki
frá öðrum lokkir
hans besta vin,
hús né þjóna.

15.
Bið eg þú hræðist
herrans reiði,
til fjórða liðar,
þar hótar hörðu,
afbrota feðra
á börnum vitja
og þeim ranglátu
refsing veita.

16.
Gleðji þig meir
sú guðdóms ræða
þar eð drottinn
í þúsund ættir
lofar þeim hlýðnu
heill og náðum.
Ört falli þér
ást til hjarta.

17.
Unni drottinn þess
æsku þinni
sæta hlýðni
honum að veitir,
undir mjúkri best
móðurhendi
til Guðs dýrðar
tyftuð verðir.

18.
Barnæska þín
frjóvgan ferska
undir mjúkri fær
móðurhendi
því ögun veitir þér
vísdóm frægan
og mannkostablóm
einna besta.

19.
Hata þú aldri
hrís foreldra,
fyrir það situr margur
hátt í heiðri
þar eð agalaus
ávallt lægra
í þrekk og forað
varð þræll að sökkva.

20.
Vildi eg þegar meira
vitið með aldri
þér vex svo fleira
verður að hugsa
að þú kvennaverk
kunnir að vinna
og reikir iðjulaus
aldri síðan.

21.
Frá ungdómi
er til lækningar
að verklund skuli mann
verja syndum.
Því sett hefur þetta
sjálfur drottinn:
Fyrir þrifnað skulu menn
þiggja fæðu.

22.
Lær þú bókfræði
og bænrækni
og haf þá venju
alla ævi
lítið stundarkorn
lesa og biðja,
glaðvær síðan
gakk til iðju.

23.
Gleymdu aldri
gleðisiðsemdum,
það er meyjablóm
mest til prýði.
Lærðu að hegða
líkamans burðum
kurteislega
með kvenmanns skarti.

24.
Ung ef að til þess
aldur fengi
og geðsvinn vildi
giftast manni
gefi drottinn,
sá vitið oss veitti,
guðhrædd að þér
gifting bjóðist.

25.
Það ráð skaltu,
þó með hug góðum,
furðulengi
fyrir þér virða.
Lát ei girndarráð
fyrir þér flýta
eða blinda ást
búa þér vanda.

26.
Bið þú Guð
að gefa þér fróðan
og hóglyndan mann
þér til húsbónda
svo í ótta Guðs
að þið mættuð
samlynd vera
og siðgóð fundin.

27.
Fylg þú síðan
foreldra ráði
því að Guð bauð oss
þessum að hlýða
svo með orði Guðs
samtengd verðir
við bónda þinn
og blessan fyndir.

28.
Mildur Guð,
sem manni á foldu
til unnustu gaf
ektakvinnu,
stundlegt veiti þér
óvalt yndi
og eilífa síðan
gleði að heilu.

29.
Ef þinn húsbóndi
hefur lifandi
föður og móður
þau haf í heiðri
svo sem þú vildir
þína foreldra
maður þinn líka
mætti rækja.

30.
Manni þínum skalt
mjög vel unna
með undirgefni
allar stundir
því honum setti Guð
herradæmi
og bauð að heiðrist
hvört af öðru.

31.
Vinnuhjú þín
vil eg þú kunnir
hófsamlega
að hafa til verka.
Það þú heitir þeim
haldast látir
sem þú vildir þau
við þig héldi.

32.
Ven þig sjálfa
á hófsemd hreina
til skírlífis
um alla ævi.
Laugað kvennaskart
finnst ei frægra
en mannkostablóm,
meyjan svinna.

33.
Verði, brúður, þér
barna auðið
gef þú fóstur þitt
Guði með fyrsta
í móðurkviði
og mjög þrátt síðan,
með bæn og hirting,
svo blessan fengir.

34.
Ven þú börn þín,
þá þau vel skynja,
á lærdómsmennt
og listir fleiri.
Haf þú fyrir þeim
hvörs kyns æru
og lát þau öll
þar eftir breyta.

35.
Heiður er mestur
hússins prýði,
það köllum vér
kvinnu góða.
Vertu rækslufull,
vífið bjarta,
og gætin að því
sem Guð þér veitir.

36.
Vertu gestrisin
Guði til ástar
mest við þann
sem minnst á kosti.
Aumum skaltu
aldri gleyma,
og mun drottinn þig
æ við rétta.

37.
Það er mitt einkaráð,
að þú heiðrir
guðsorðsþjóna
af geði hreinu.
Sérdeilis þann
sálu þinni
harla sæta
huggan veitir.

38.
Bið af öllum hug
að þér falli
skært sannleiksorð
sætt í hjarta,
svo unnir þeim
sem það vel kennir
og styggir aldri þann
þig vill hugga.

39.
Þína veika trú
og sál sjúka
græða verður hann
Guðs með orði.
Altarishelgan
aflausn fylgir
og sættir þig við
sjálfan drottinn.

40.
Yfir þig falla
hæstu heillir
fyrir líf og sál
alla ævi
ef þú dýrðarljós
drottins orða
ýtarlega les
og varðveitir.

41.
Því láttu aldri
þér sið settan,
málsnjöll brúður,
úr minni falla,
að gjörðri bæn
Guðs með orði
hjarta þitt
svo helgir drottni.

42.
Ætíð skyldir þú
virðing veita
settri valdstjórn;
sú er af drottni.
Hræðast þarftu ei
hennar stríðu;
fyrir góð mildiverk
mun hún þig heiðra.

43.
Til kirkju þinnar,
sem kanntu að orka,
vitja skyldir
og vel þess gæta
að mannfundur sá
sviptist syndum
sem fyrir englakóngs
augsýn gangi.

44.
Þín börn og hjú
þar til venjir
að oftast komi þau
öll til skiptis;
síðan spyrjir þau
og sjálf ræðir
hvað þá lærðuð
af herrans orði.

45.
Viður þurfamenn
og þá sem starfa
breyttu svikalaust;
bauð svo drottinn
að lögskyldur
allar greiðir
og samkomu heitir
sem þú játar.

46.
Eg minni þig nú
næst á nágranna
og sambúðarmenn;
þeim sért til góða.
Breyttu eins við þá
eftir mætti
sem þú láta vilt
við þig breyta.

47.
Með ráði og forsjá
eitt með öðru
byrjaðu víst;
það varðar mestu.
Lít á endalykt
allar stundir
því óstaðfestin
illa hlýðir.

48.
Við vini þína,
sem þú vel reynir,
haltu *tryggðir best
hvað sem mælt er;
frændur og styð
með hjálparhendi
því heitast mun blóð
hjarta hið næsta.


49.
Forsjá góða
er gott að læra,
hóf og hagsemi
hvör mann leyfir,
að glysyrðum ei
gefa sig vísir,
alþýðuhól
er þríleiðast.

50.
Góðra manna orð
vil eg þú virðir
en fávísra lof
fæstir kjósa.
Þekk þú sjálfa þig
og *það vakta
að lundprúð reynist
með ráðvendni.

51.
Víla þú aldri
svo að vont mælir
þó að fengur þinn
á grunn gangi.
Treystu Guði
af tryggleik bestum
því hugsjúkur
mun harm sér auka.

52.
Guð á himnum
gefi þér bæði
hugprúða lund
og heillir góðar
svo í mótgangi
og meðlæti
á þol og jafnlyndi
vel þú vendist.

53.
Lifir þú fram
á elliævi
þá er meiri von
margra tára;
því bústu jafnan
við mannraun mestri
í þessum eymdardal
allar stundir.

54.
Eldur hörmungar
hér er á foldu,
þann er villumenn
í víti kölluðu.
Fyrir raunir þær
vér fáum búna
sæta himnavist.
Hvör vill gráta?

55.
Hvað er þetta líf
utan armæða?
Guðhræddur því
gleðst við dauða.
Dag og nótt skaltu,
dóttir fræga,
vakandi búin
við honum líka.

56.
Þinn lifnaður sé
milli manna
hreinferðugur
með hjartans bænum.
Afgang hafa þeir
allir fengið
góðan sem svo
búnir bíða.

57.
Festist þér nú
fögur í brjósti
ljúf heilræði
alla ævi.
Jesúm bið eg þér
veginn vísa
og leiða þig svo
til lífs frá dauða.

58.
Þulið hef eg einu
þessa gælu
meybarni því
mér var kærast.
Eignist heillabörn
öll og fagni
til vöggukvæðis;
vil eg þau hugga.

59.
Það fylgi nú
þessu kvæði:
Angurlaus sé
sú yfir er sungið.
Njóti heilræða,
hér eru ljóð úti.
Englakóngi lof
allir syngjum.