Tólfta ríma [Jesús Síraksbók í rímur snúin] | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Síraks rímur 12

Tólfta ríma [Jesús Síraksbók í rímur snúin]

SÍRAKS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Tilætlaðan tólfta óð
bls.402–405
Bragarháttur:Stafhent eða stafhenda (stuðlalag)
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Rímur

Skýringar

Rím er alls staðar karlrím sé stoðhlójði sleppt í endarímsorðum, nema í seinniparti 60. vísu þar sem ríma saman ’snjalla’ og ’kalla’.
1.
Til ætlaðan tólfta óð
tíni eg fram úr mærðar sjóð,
vandrataður visku brunnr
veldur því hvað mælir munnr.
2.
Foreldrarnir finna hér
fósturnám það börnum ber,
Sírak kennir mönnum mest
mundangshóf á öllu best.
3.
Eins og skinni kappinn klæddr
kvíðulaus og vel til bræddr,
sá mun vos og veðraföll
viðbúinn að standast öll.
4.
Svo mun halur hegðun prýddr,
hyggindum og dyggðum skrýddr,
sturlan heims ef stirfin hót
standast vel og finna bót.
5.
Heldur fátt af heimsins þjóð
hagneytir sér ráðin góð,
þó skal aftur inna til
uppbyrjað að lengja spil.
Þrítugasti kapituli
6.
Hvör sitt leggur elsku á
eigið barn og hyggst að fá
þar af fögnuð elli í
undir vöndinn heldur því.
7.
Hvör því undir agann heldr
eitthvört sinn það fögnuð geldr,
barnsins vegna virðum hjá
víst þarf ei að blygðast sá.
8.
Hvör sem reynist rækslugjarn
rétt að tyfta sjálfs þíns barn,
óvin hans það eirir verst
ástmönnum þó lyndir best.
9.
En þó slíkur falli frá
fróman son ef átti sá,
afgenginn sem ekki er
því eftir lætur líkan sér.
10.
Í lífi fann sá fögnuð víst,
á feigðar stund hann sorgar síst
vondum gegn því verndar mann
en vinum aðstoð leyfir hann.
11.
Hinn of linur ekki líðr
undar ben ef barni svíðr,
angrast lundin áður kát
ef þess fær að heyra grát.
12.
Ungur sá sem ögun brestr
ódæll er sem galinn hestr,
ef þú honum hampar þrátt
hræðast hann þú seinna mátt.
13.
Hlæ þú ei að né hrósa því
hans sem ljótt er hegðun í,
má því valda misgjörð sú
að með honum seinna grátir þú.
12.
Ungan son lát ekki þinn
allan hafa viljann sinn,
afsaka ei heimsku hans
í hvörju sem hann braut til sanns.
15.
Barn þíns ungan beyg þú háls
sem best kanntu til verks og máls,
svo það ei þá aldrað er
arga þrjósku sýni þér.
16.
Menntum lát það aukast í,
iðjuleysi forða því
viljir þú við vítum sjá
og vera ei smáður mönnum hjá.
17.
Hvör mann kýs sér heldur léð
hraustlegt líf og fátækt með
en þó veitist auður mestr
ef því fylgir heilsu brestr.
18.
Heilbrigði og hreystin full
hvörjum manni er betri en gull,
hans líkaminn heilsu góðr
hentugri en aura sjóðr.
19.
Auður heims er allri þjóð
enginn jafn sem heilsan góð,
öngvan finnum fögnuð þó
frægra þeim í hjarta bjó.
20.
Dauði er betri en dagleg sótt
dregur af manni lífsins þrótt,
fánýtur er ferskur réttr
framliðnum að munni settr.
21.
Gagn er ekki goðunum neitt
að gáfa og offur þeim sé veitt,
því þau liggja dumb og dauð,
daunsna ei né bíta brauð.
22.
Auðugur maður eins er sá
sem eymdin sóttar liggur á,
eign sína með augum sér,
af því styn og hryggðir ber.
23.
Í góðri hvílu gildir ei
geldingur hjá fríðri mey,
öngvan kennir eðlis mátt,
andvarpar af slíku þrátt.
24.
Set þér ekki sjálfur hryggð
og sær þig ei með angurs styggð,
hjartað glatt í holdi hér
hægð og lífið mannsins er.
25.
Við þig sjálfan veiting í
vel gjör þú sem hæfir því,
hjartað gleð en hrittu þá
hryggðinni þér langt í frá.
26.
Hryggðin stór um hjartans þel
hefur svo margan fært í hel,
öngvu nýt er öllum þó,
enginn gang ef henni dró.
27.
Hatur, reiði og heiftar kíf
heldur styttir mönnum líf,
sést á ungum ellimót;
áhyggjan því veldur ljót.
28.
Hægt er þeim sem hjartans byggð
hvörn dag kætir gleðinnar dyggð,
þessum ljúft og lystugt er
hvað leggur hann til fæðis sér.
Þrítugasti og fyrsti kapituli
29.
Eftir að vaka aura gnótt
út spennir það holdsins þrótt,
áhyggjunnar öflug stærð
ýtum bannar svefn og værð.
30.
Þegar að maður mæddur liggr
með áhyggju náðir þiggr,
hún upp vekur hann oft um nótt
eins og nökkur þungleg sótt.
31.
Sá má reiknast ríkur sé
af réttu starfi græðir fé,
hefur síðan hvíld og ró
en hagsamlega neytir þó.
32.
Fátækur sá virðist víst
er vinnur frekt en auðgast síst,
nær hann hættir þrautum þjáðr
þurfamaður er samt og áðr.
33.
Án syndar er enginn sá
sem elskar fé og stundar á
forgengilegt fegurðar glys;
það fellir mann í skaðleg slys.
34.
Margur oft fyr auð og seim
til ófalls kemur af völdum þeim,
bæði hann og fallvalt féð
fordjarfast um síðir með.
35.
Ríkur maður sæll er sá
er seggja enginn straffa má,
vel fallinn í öllu er,
æra og heiður slíkum ber.
36.
Ríkur hvör sem reyndur er,
að réttvíslega hegði sér,
mjög sá verður mönnum kær
og maklegt lof af öllum fær.
37.
Ógagn vinna öðrum má,
öngvum vill þó sælast á,
helst þeim lengi heiður og auðr,
hans ölmösu prísar snauðr.
38.
Vertu, rekkur, ráða vitr
þá ríkis manns við borð þú sitr,
ofát fremdu ekki neitt,
allmikið þó fram sé reitt.
39.
Heldur skaltu þenkja það
þér muni einhvör gæta að,
ótrútt auga og öfund sú
angrast við að neytir þú.
40.
Taktu ei á öllu greitt
er þú sér að fram er reitt,
óboðið það ekki sker
sem öðrum liggur nær en þér.
41.
Þó sá væri vilji þinn
vel það ei sem girnist hinn,
þér í skipun skikka átt
skynsamlega á allan hátt.
42.
Eins og maður et þú rétt
af því sem fyr þig er sett,
ekki vertu ofmjög ger,
enginn svo að gremjist þér.
43.
Hæverskunnar hafðu sið,
að hætta fyrstur borðun við,
óvináttu aflar sér,
sá óseðjandi svelgur er.
44.
Einninn skyldir að því gá,
ef þú situr mörgum hjá,
enn þótt værir allmjög lystr
etir ei né drekkir fyrstr.
45.
Hvör siðsamur maðurinn mætr
mat sér lítinn nægja lætr
því í hvílu hægri ró
hefur og náðir líka þó.
46.
Sé að hófi haldinn kviðr
hægri er manni svefn og friðr,
ólúinn má árla strax
upp rísa að morgni dags.
47.
Of mikið sá etið hefr,
óvært hann á nóttu sefr,
iðraverkur illa slær
og innantökur líka fær.
48.
Ef þig henti heimskan sú
hófi meir að neyttir þú
leita við þér lágni kviðr,
legg þig strax til hvíldar niðr.
Þrítugasti og annar kapituli
49.
Fræðið, sonur, fest við þig,
forsmá þú í öngvu mig,
elligar seinna sannar þú
sagnir þær eg kenni nú.
50.
Alltíð skaltu iðka það
eitthvört verk sem gagn er að,
illur kvillinn öðrum stríðr
undir mun þig leggja síðr.
51.
Matar og drykkjar mildan mann
mjög vel lofar alþýðan,
þar af hefð og hylli rís,
held eg þetta góðan prís.
52.
Byggðin öll og beima lið
brjóstleysingi stuggar við,
ámæli og atvik þétt
oft hann fær og slíkt er rétt.
53.
Vínsvelgur þú vert ei neinn,
varð svo steyptur margur einn,
allt járn reynir eldsins glóð
eins og vínið hjartans móð.
54.
Með hófi drukkið heilnæmt vín
hjartað gleður, sviptir pín,
nærir líf og náðir gefr,
neyð er þeim er ekkert hefr.
55.
Vín er skapað veröldu í
svo verði mönnum glatt af því,
sálu og lífi indælt er
eftir þörf ef drekkum vér.
56.
Aflar þeim í annan stað
of mikið sem drekka það
öngva hægð í hjartans byggð
heldur trega og meiri hryggð.
57.
Ofdrykkjan svo ærir þann
sem aldrei var þó stilltur mann,
þar til skvaldrar skálkur þver
að skemmdir fær á sjálfum sér.
58.
Vandræði og vondsleg orð
vek þú ei við drykkju borð,
gleðinnar stund þá stendur mann
sturla þú ei með hæðni hann.
59.
Seggjum líkstu siðunum í
samsæti sem hæfir því,
um hugsa hvað á er sett,
af því máttu sitja rétt.
60.
Dragðu ei undan drykkjuféð
ef drengjum viltu sitja með,
það mun gleðja gumna snjalla
og góðan vin þig síðan kalla.
61.
Elstur maður alltíð skal
í samkundum hefja tal,
hugvit nægst ef hjá þeim bjó
hindrist ekki spilmenn þó.
62.
Sönglist hlýðir siðugs manns,
síst þó fellir skemmtun hans,
kveðling þinn ef einhvör er
til annars tíma geymdu þér.
63.
Karbunkulus kveikir skart,
í kláru gulli lýsir bjart,
vísnasöngur síst til meins
samdrykkjuna prýðir eins.
64.
Eitt sinn tala og aftur þá
ungmenninu leyfast má,
aðspurður skal andsvar glöggt
ærlegt gefa og segja snöggt.
65.
Ei þó þykist orða ríkr,
ekki jafn né herrum líkr,
aldraðir þar eiga tal
aftur munni halda skal.
66.
Eins sem birtist elding oft
áður en þruma kemur í loft,
ást og hylli aflar blygð
ungmennis og táknar dyggð.
67.
Árla dags þú uppi vert,
ekki í þessu sístur sért,
höndla síðan hvað sem vill,
hugsa þó að forðist illt.
68.
Þakkir gjörðu Guði þeim
sem gaf þig lífs í þennan heim
og upp fæddi með auði sín.
Endist þanninn ríman mín.