Kvæði af páfuglinum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af páfuglinum

Fyrsta ljóðlína:Fuglinn sá ber fagran lit
bls.354
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer,- þrí- og fimmkvætt aaaBB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612

Skýringar

Þriggja línu viðlag framan við.
Rím er ýmist aaaBB eða AAABB
Páfugl sína prýði ber,
hann plagar sig af henni stæra,
hlýðið þér mér sem hofsiðinn vilja læra.

1.
Fuglinn sá ber fagran lit,
sem fegurst kann verða saumað glit,
það blindar hans eð veika vit,
hann vill sig af því stæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

2.
Fjaðraskrauti hreyfir hann
og hrósar páfugl slíkt sem kann.
Það hendir og líka heimskan mann
sem hefur sig lært að stæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

3.
Páfuglshamur er skammvinnt skraut,
það skart sem stoðar í öngri þraut,
harla skjótt það hverfur braut,
hvað er sig vert að stæra?
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

4.
Því skjaldan hleðst svo allt á einn,
enn þó að hann sé stoltur sveinn,
að fylgi þar ekki fölski neinn,
flesta trú eg það kæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

5.
Sú er og páfugls prýðigrein,
hann plagar að hindra fótamein,
rómar eins og rjúpan ein,
rödd hefur ekki skæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

6.
Þá sína lítur hann sárar fætur
sagt er að fuglinn metnað lætur,
sjaldan að þeim gefur hann gætur,
gjörir það fiðrið skæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

7.
Á þessum fugli merkja má
metnað heims sem allir sjá,
að sínum lýtum sjaldan gá,
þeir sig hafa lært að stæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

8.
Fótamein það fuglinn ber,
finn eg að sérhvörs lösturinn er
sem maðurinn enginn sjálfur sér,
satt mál hef eg að kæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

9.
Fuglsins rama raddar hljóð
er raup og skrum hjá nýtri þjóð,
það er ein venja þeygi góð
og þykir þó mörgum æra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

10.
Þó hafir þú bæði vöxt og vit,
væna rödd og fagran lit,
færðu þér það fyrst í nyt,
fremd og kurt að læra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

11.
Þó hafir þú auð og alla mennt,
sem einum manni best er lént,
þetta ráðið þér skal kennt,
þakkir Guði að færa;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

12.
Þar næst lær þú að lækka þig,
lukkan mun sú prýðilig,
hvör sem að þekkir sjálfan sig,
sjaldan mun hann sig stæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

13.
Hvört þú kannt að heyra eða sjá
hvað sem nökkrum verður á,
skúlki og hæðni skildu þig frá,
þú skalt til betra færa;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

14.
Afdrifin fær sá einka góð
sem alla dagana lækkar móð.
Lykta eg þanninn lítinn óð,
lofið sé Drottni skæra;
hlýðið mér sem hofsiðinn vilja læra.

(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 354–355)