Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Eitt kvæði af fuglinum Halkion

Fyrsta ljóðlína:Fuglinn sá sem fræðið tér
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612

Skýringar

Þriggja línu viðlag fyrir framan
Halkion frá eg að heitir fugl
hafs í miðju flóði,
hann á lítur himnafaðirinn góði.

1.
Fuglinn sá sem fræðið tér
fram í miðjum sjónum er,
á hafs öldum býr hreiðrið sér,
hvört ár slíkt um veturinn sker;
hann á lítur himnafaðirinn góði.

2.
Um miðjan vetur verpir hann,
votta eg þetta á minn sann,
aldan stríð þó ekki kann
umbúning að hindra þann;
hann á lítur himnafaðirinn góði.

3.
Herrann einn sá allt gott má,
öldu hafs svo stillir þá,
hann lætur fuglinn lagið fá
og lifandi sínum ungum ná;
hann á lítur himnafaðirinn góði.

4.
Á þessum tíma skaparinn skær,
skynja ættum þetta vær,
svo dásamliga vor Kristur kær
kristni sinni hjálpað fær;
því hana á lítur himnafaðirinn góði.

5.
Í miðju flóði hennar hreiður
hindrað fær ei Satan reiður,
þó storma æsi lygari leiður,
sá lægja vill Guðs barna heiður;
hana á lítur himnafaðirinn góði.

6.
Mörg er villan mikil og stór,
má það kallast illskusjór,
vondra manna þrá og þor,
þó sér Drottinn samt til vor
og hjálpar ávallt himnafaðirinn góði.

7.
Voði er stór í veröldu hér,
því vetrartíminn harður er,
kulda og frost það köllum vér
sem kirkju Guðs til meina ber;
hana á lítur himnafaðirinn góði.

8.
Á millum djöfla mun eg það tjá,
marga voða enn greina má,
frelsarinn er þeim flokki hjá,
friðinn og blessun lætur fá
og hjálpar ávallt himnafaðirinn góði.

9.
Stillir hann bæði storm og flóð,
stjórnin hans er harla góð,
honum sé lof af hvörri þjóð.
Hér skal enda þennan óð;
hjálpi oss öllum himnafaðirinn góði.

(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 353)