Kvæðið um fuglinn Pellikanus | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæðið um fuglinn Pellikanus

Fyrsta ljóðlína:Þessi fugl hefur eina art
bls.352–353
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer- og fimmkvætt aaaaO
Viðm.ártal:≈ 1600

Skýringar

Síðasta línan er viðlag.
Fyrsta erindið er þriggja lína viðlag
Pellikanus heitir hann,
hefur sá dyggðir fleiri,
ástin hans er öllum kölluð meiri.
1.
Þessi fugl hefur eina art,
ungakynið hann fæðir margt,
fyrir þá líður hann furðu hart,
frá því verð eg að skýra snart;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
2.
Pellikanus óvin á,
eiturdreki heitir sá,
með eitri drepur hans unga smá,
þá ekki er fuglinn hreiðri hjá;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
3.
Ungana dauða dagana þrjá
dyggðarfuglinn syrgir þá,
sig bítur síðan brjóstið á,
blóð af hjarta vill sér ná;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
4.
Pellikanus fuglinn þann
fegursta ráð sem verða kann,
ungana dauða hittir hann,
af hjartablóðinu lífga vann;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
5.
Hér næst verður að herma frá
hvörnin að breyta ungar smá,
er þeir lífinu aftur ná,
ekki þekkja föðurinn þá;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
6.
En sumir hafa þá elsku art,
að honum hænast nökkurn part,
fagnar þessum fuglinn snart
en frá sér drífur aðra hart;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
7.
Nú skal lýðurinn læra hér,
ljósa grein að skilja gerr.
Vor Pellikanus Jesús er
en þeir kristnu ungarnir;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
8.
Illur Satan eitri spjó,
allt mannkyn til heljar dró,
fyrir þá synd vor Drottinn dó,
dagana þrjá bar angist þó;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
9.
Í grasgarðinum grátinn stóð,
gekk og til kross með harðan móð.
Hans eð rauða hjartans b[l]óð
hefur oss lífgað auma þjóð;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
10.
Ungar þeir sem elska hann
að sér faðma góðleik þann,
herrann þeim af hjarta ann;
á þá dáðlausu fellir bann;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
11.
Af hjartans rót eg hvörn mann bið
að herrans ást þér kannist við,
Kristur hefur oss keypt í frið,
hann kostaði dýrt að veita oss lið;
ástin hans er öllum kölluð meiri.
12.
Af sætleik þeim eg fögnuð finn,
mér faðirinn sendi í brjóstið inn,
eg prísa af hjarta prúðleik þinn
Pellikanus, Jesús minn;
ástin hans er öllum kölluð meiri.