Vísur af konunni kanversku | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vísur af konunni kanversku

Fyrsta ljóðlína:Suptungs bjór vil eg seggjum færa
bls.348–350
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AbAbAb
Viðm.ártal:≈ 1600
Með lag sem Lassarus vísur
1.
Suptungs bjór vil eg seggjum færa
og senda af hendi lítinn brag,
mildan Guð mig bið eg að læra,
svo mætta eg slíku koma í lag.
Það er hin hæsta heimsins æra
að heiðra Jesúm nátt sem dag.
2.
Föður og son bið eg fyrst í kvæði,
að fá mér mælsku og orðin svinn,
svo auka mætti eg orða sæði
um æskilegastan máttinn þinn.
Heilags anda hæstu gæði
hellist í mitt hjartað inn.
3.
Þýða vil eg þess þrenning biðja,
að þarflega hlutina veiti mér,
sú göfugasta guðdóms iðja
gagnist vel þeim með hana fer.
Þú eilífur Guð munt ýta styðja,
alla þá sem að treysta þér.
4.
Víst af hjarta vil eg þess biðja
voldugan herra Jesúm minn,
þó kólnuð sé mín kvæðasmiðja
þá komist ei síður upp bragurinn þinn.
Það er eg skyldur aumur að iðja,
að útsegja þín verkin svinn.
5.
Ljúfur með sína lærisveina
lausnarinn Jesús ferðaðist þá
um landsálfur, að ljóst má greina,
lýðir sóttu hans fundinn á.
Í Týro og Sídon svo eg meina,
seggir munu hans miskunn fá.
6.
Sjá þú að ein kanversk kvinna
kom að Jesú og tilbað hann:
Sonur Davíðs – svo réð inna –
sóttir allar lækna kann.
Allir segja þig öngvu minna
en eilífan Guð í himnarann.
7.
Af djöfli kvelst mín dóttir góða,
Drottinn minn, þú sjá til ráð.
Þú ert líkn og lausnin þjóða,
láttu hana nú hljóta náð.
Gef þú henni þann guðdóms gróða
að gangi hún heil um þetta láð.
8.
Hann ansaði ei orði einu,
það auma kvinnu gleðja má.
Hringþöll var með huganum hreinum,
hvörgi veik hún trúnni frá.
Hraut þá vatn af hvarmasteinum,
hún mun um síðir miskunn fá.
9.
Lærisveinar með líknar æði
lausnarann Jesúm kalla á:
Sætan er með sorg og mæði,
segist vilja miskunn fá.
Gef þú henni þín guðdóms gæði
að ganga megi hún oss í frá:
10.
Af Ísraels húsi eru þeir sauðir
sem eg er sendur að hjálpa nú,
fortapaðir og furðu snauðir,
að færa þá á rétta trú.
Hin kanverska með krankar nauðir,
kallar enn til Jesúm sú:
11.
Heyr þú mig nú, herrann frómi,
himna kóngurinn, Drottinn minn,
þú ert lifandi líknar blómi,
leystu mig fyrir kraftinn þinn,
af krankri neyð og kvalanna dómi
að kappar lofi þín verkin stinn.
12.
Frá börnum tek eg ei brauð að sinni
og býta þar nökkuð hundum af,
fjærri er það forsján minni
að fari eg slíku þanninn að.
Hennar varð ei harmurinn minni,
þá heyra réð með eyrum það.
13.
Satt minn herra segir þú þetta,
sannlega má það tala til mín,
nær molar af borðum drottna detta
þá draga þó hundar þá til sín,
en virðar þeir sem vita eð rétta
með von og trú munu koma til þín.
14.
Guð mælti með miskunn ljósa:
Mikil er kona trúan þín.
Verði þér sem viltu kjósa,
vík þú heim í sveit til mín.
Auðgrund má því allvel hrósa,
af henni tók þá sorg og pín.
15.
Heilbrigði fékk hennar dóttir,
herrann Jesús lofaður sé.
Sá kann lækna lýða sóttir,
líst mér þetta betra en fé.
Með orði græðir hann aumar dróttir
og aldrei mun þar verða á hlé.
16.
Vér búum oss sem baugskorð þessi,
bar hún á sínum herðum kross,
og gætum að þeim glæpa sessi
er grimmur Satan situr um oss.
Stundum það með styrkvu versi
að stökkvi af augunum tárafoss.
17.
Ljúflega vil eg þess lausnarann biðja
að leiða oss á rétta trú,
í ást og kærleik er það þriðja
sem ýtar eiga að halda nú,
með elsku að annast auma niðja
og allra mest vor fátæk hjú.
18.
Af vegunum tveimur víst vil eg greina
og virðum nökkuð af þeim tjá.
Annar er víður með væna geima,
veglegur og breiður að sjá,
en hinn er þröngur, það vil eg greina,
og furðu þungt að ferðast á.
19.
Víst hef eg farið á veginn þann breiða
og villustigunum gengið á,
af þeim vilda eg aftur sneiða,
aðrar brautir finna má,
sú mun oss til lífsins leiða
þó lýðum þyki hún þröng að sjá.
20.
Virðum segi eg víst ei fleira,
vegunum þessum tveimur frá.
Skatnar mega það skællega heyra
hvað skulu menn eftir dauðann fá.
Látum oss það loða við eyra,
líkn sálar að hljótum þá.
21.
Komið er þetta kvæði á enda,
Kristur Jesús lofaður sé.
Þangað skulum vér vona og venda,
sem vísleg öll er hjálp í té.
Mildur Guð mun miskunn senda,
svo má þar aldrei verða á hlé.
Amen.