Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Áminning til guðlegrar lofgjörðar af dæmum heilagra forfeðra

Fyrsta ljóðlína:Lofgjörð hæfir þrenning þér
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aaaaoo
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1600

Skýringar

Síðustu tvær línurnar eru viðlag.
Fjögurra lína erindi fremst.
Hvað er í heiminum hollara
en hafa um sig sem minnst,
þar með lofa sinn lausnarann
meðan lífið vinnst.

1.
Lofgjörð hæfir þrenning þér,
þjóðir allar veiti af sér,
skepnu hvörrar skyldan er
skaparann heiðra rétt sem ber.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

2.
Pálus segir að kristin drótt
kveði og syngi dag sem nótt,
lausnaranum lofgjörð fljótt
af lyst og hjartans eðlis þrótt.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

3.
Móyses áður en hreppti hel,
hann hélt á loft með engin vél
lof þakklætis vir[k]ta vel
fyrir veiting Guðs við Ísrael.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

4.
Debora sem dæmdi sveit
af Drottni vísan sigurinn veit,
æru og dýrð með ástarheit
æðstum söng af hjartans reit.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

5.
Marga sálma diktar dýr
Davíð kóngur, vitur og skýr,
til æru Drottins öllum snýr,
ekki var sú lofgjörð rýr.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

6.
Salómon kóngur orti einn
eðla dikt í lyndi hreinn,
hyggnari ekki hittist neinn,
hann var ei á lofgjörð seinn.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

7.
Tobías helst var hyggjan fljót
þá harma fékk hann allra bót,
greiða lofgjörð Guði á mót
gjörði hann slíkt af hugarins rót.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

8.
Hólofernis heljargöng
hlaut að gá fyrir orðslög röng,
Júdit fagran orti söng
þá seggja bættist ánauð ströng.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

9.
Úr eldsins ofni þrír í þrá
þegnar leystust brunanum frá,
þeim miskunnaði mildin há,
mjúka lofgjörð sungu þá.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

10.
Þá hvalsins kviðurinn huldi Jón
í hafsdjúpi frá allra sjón,
lofgjörð söng með sætan tón,
sönnum Guði í hæstum trón.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

11.
Jesajas í anda sá
eilífan Guð, hans stjórn var há,
englar sungu honum í hjá
til heiðurs sanctus hvör sem má.
Því vil eg lofa minn lausnarann
meðan lífið vinnst.

(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 336–337)