Vélræði holds og heims | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vélræði holds og heims

Fyrsta ljóðlína:Átt hef eg við hold og heim
bls.274–276
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
1.
Átt hef eg við hold og heim
harla margt að spjalla,
minnst var eg á móti þeim,
mjög vel þótti mér falla.
2.
Heimurinn þóttist hollur mér
og hvíslaði í mitt eyra.
Hann fýsti mig að fylgja sér,
fínt var þetta að heyra.
3.
Huggun skaltu hljóta af mér
og hjartans gleðina nóga,
fjárhlut drag þú fast að þér
og flest allt þar til voga.
4.
Mannorð þegar að mektast þú
mun þér vaxa þaðra,
því sá er enginn nýtur nú
sem náir ei beygja aðra.
5.
Ef þú villt þér verkist það
og voldugan skuli þig kalla,
útvegu þína í öngvan stað
undan láttu falla.
6.
Meðan að þessa líkams list
þú leggur þér til nýta,
haf með þá sem heiðra Christ
harla fátt að býta.
7.
Því þeir telja úr tignar ráð
og tjá sér allt til rauna,
en þvætta um sína seinni náð
og segja sig vænta launa.
8.
Holdið kvað, það heilsu ráð
að heimurinn lét þig finna,
sá er nú ei maður á láð
sem minnast vil eymda sinna.
9.
Meira er ráð að rækja plóg
og rausnar verkum hrósa
en sýta í sína sálar dróg,
svo munu flestir kjósa.
10.
Hygg eg þá sé gamanið greitt
og gleði á hvörju þingi,
hvað skal þér að halda neitt
með hræddum vesalingi.
11.
Þá mun kram í kistu þín
og kaupmanns skrúðinn mæti,
að hinn hefur eymd og ylur sín
og önnur sultarlæti.
12.
Hugða eg nú að hefjast fast
og hlýða þessum báðum.
Elskulega mér að þeim gast
og öllum þeirra ráðum.
13.
Á þessi ráðin þegar í stað
mig þurfti ei lengi eggja.
Hugðist eg sem heimurinn bað
hvörn mann undir leggja.
14.
Ávallt vilda eg eignast flest
en ekkert leggja á móti.
Af því varð eg vesæll mest
og virtur að minnsta hóti.
15.
Lagða eg ást við auð og skrjál
eftir fremsta megni,
eins og eg ætta öngva sál;
illa trú eg það vegni.
16.
Hélt eg mig að heimskri sveit
sem heiminn stunda og brasta,
en til þeirra illa leit
sem ódyggð vildu lasta.
17.
Lærða eg að þeim lygar og blót,
last og vonda eiða,
umlestur og orða rót
og illu að mörgum sneiða.
18.
Fyrirlitning og fátækdóm
fékk eg æ þess meira,
hjá vitrum mönnum vondan róm
og vann þar ekki á fleira.
19.
En sjálfur Drottinn sá mitt vamm
og segir upp dóminn fljóta:
Ef þú fer lengi þessu fram
þá er þér fátt til bóta.
20.
Hvörn eg hygg að hafa til mín
og hjartanlegana unna,
öngvan hlut með ágirnd sín
eg afla læt hann kunna.
21.
Svo var eg í heimi hér
að heiðri þótti sæta,
ríkdóm öngvan reif eg að mér
og ráð mun slíks að gæta.
22.
En þeir sem ríkdóm rífa að sér
og ræna kært [er] alla,
ekki kann eg þá að eigna mér
sem alvarlega svo falla.
23.
Eg kann senda í sálu inn
með sætu orði mínu
fullkomlegan fögnuð hinn
og friðinn í hjarta þínu.
24.
Heimugleik og himnesk ráð
sem holdið ei kann skilja
eg læt í þeirra lyndi skráð
sem lifa að mínum vilja.
25.
Mínir vinir kunna klárt,
það kemur af helgum anda,
er mér til þeirra einka sárt
ef þeir koma í vanda.
26.
Útvaldir ei hirða hér
heiminum eftir að sníkja,
því þeir vita að víst er sér
að vera með mér og ríkja.
27.
Við helga mína herðir tök
heimurinn oft, hinn ljóti,
en þeir gefa mér öngva sök
oft þó þeim gangi á móti.
28.
Sá sem skapaði hauður og haf,
himna og mannkyn líka,
hann úti mína öndu gaf,
orð og ræðuna slíka.
29.
Nær eg þessar listir leit
og lifnað góðra manna
samviskan mig sárum beit,
sorgir réð eg að kanna.
30.
Þrengdi að mér hin þrútna kvöl
sem þeygi er dælt að stilla,
hafða eg þetta bannsett böl,
búið mér lengi og illa.
31.
Síðan var mér sent í hug
hvað sonur kunni að vinna.
Tók eg þá að drýgja dug
því Drottinn lét sig finna.
32.
Fann eg þá í helgun hans
hreinsun allra synda,
endurlausn og auðlegð manns
sem Adam hafði hann sýnda.
33.
Ef Adam mátti einn fyrir sig
öllum mönnum tapa,
framar kunni Christur mig
kvittan aftur að skapa.
34.
Það var illt sem Adam vann,
af því spilltist fleira,
en hitt var gott sem faðirinn fann
og fyrir því er það meira.
35.
Ef satt og rangt það sækist að,
svo mun skriftin hljóða,
ævinlega ef þreytt er það
þá skal ráða eð góða.
36.
Dauðinn hugði drepsótt sín
að drjúgur skyldi forðinn,
en nú er lausn og lífgjöf mín
langtum stærri orðin.
37.
Eg var dreginn díki úr
með dauðans stríði hörðu.
Sá var minni sálu trúr
sem sigurinn vann á jörðu.
38.
Sannleik hefur þú sýndan mér,
sigurvegarinn stóri,
eg skal fylgja eflaust þér
ávallt meðan eg tóri.