Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Eitt kvæði af sjö dauðlegum syndum

Fyrsta ljóðlína:Mildur Drottinn, miskunn þín
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Tón sem Adams óður.

1.
Mildur Drottinn, miskunn þín
muntu oss öllum veita,
þó forþént höfum vér fár og pín
og fjandans bálið heita.
Aumleg var þá ævin mín,
að eg þig gjörði að reita.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

2.
Guðlaus er sú glæpa nægð
sem gjörir menn heim að sækja,
von er ei á að verði vægð
fyrir vonsku minna klækja.
Fyrir holdsins vild og heimsins slægð
hafnaði eg Guð að rækja.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

3.
Býsna mjög mun bálið það heitt
sem bölvaður púkinn kyndir,
honum mun heldur ganga greitt
að greina vorar syndir.
Sjálfan skaparann svo höfum reitt
að sárar eru þær myndir.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

4.
Boðorðin Drottins beint hefi eg
brotið fram úr máta,
sem ráðlaus maður á röngum veg
réttilega má eg því játa.
Viskan af því verður treg,
hún vill sem hörundið láta.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

5.
Af Jnuidia eg hefi fyrst
og öllum hennar rótum.
Hörmulega var hjartað byrst
með hugrenningum ljótum,
fyrir þá krönku kroppsins lyst
að koma má varla bótum.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

6.
Superbia situr þar með,
sannlega má eg því játa,
víst fyrir hennar vondsligt geð
væri mér skylt að gráta,
sálina hefi eg sett í veð,
sárlega fram úr máta.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

7.
Accidia ein er sú
sem ei vill frá mér ganga,
þessi hefur mér þjónað frú,
þrátt um ævi langa.
Systur þær sem segi eg nú
sárlega gjöra mig fanga.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

8.
Avaritia er ein af þeim
sem ei vill frá mér venda.
Eg girnist þrátt á gull og seim,
góss og silfrið brennda
og venda skjaldan huganum heim,
hvörnin það mun lenda?
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

9.
Ira hefur eignast byggð
svo oft í hjarta mínu,
víst með hatri, heift og styggð
og hörðu valdi sínu,
visku kann hún að venda í lygð
með vondri lasta línu.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

10.
Gula hefur mig ginntan þrátt
með grimmleik sinna niðja,
hér fyrir verður holdið kátt
og hyggst þess fleira að biðja.
Góðra verka gjörða eg fátt,
grátleg er sú iðja.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

11.
Luxuria er sú ljótust ein
sem leiðinlega má kalla,
því fyrir hennar girndar grein
gjöri eg þrátt að falla.
Gott mun ei að græða það mein
sem grefur um ævi alla.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

12.
Þessar sjö hafa systur sig
sett með sterku valdi
í hjartað mitt með hörðum ríg
og hafi mig svo í haldi.
Skaparinn við þær skilji mig
svo að skaði þær mig aldrei.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

13.
Síðan eg kunni að gjöra grein
góðs og ills á milli,
söfnuðust að mér margföld mein,
mest í drambi illu,
en bótin var sú brygðu sein
með bráðri heimsins villu.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

14.
En hvað sem eg gjöri Guði á mót,
gripinn í villu strangri,
með orð og verka illsku hót
á ævi minni langri,
þá vilda eg gjarnan vinna á bót
og venda frá hugsun rangri.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

15.
Dóminn þann sem drengir fá
af Drottni himins og landa,
með orð og verk að enginn má
öðrum á móti standa.
Þá dreyrugan krossinn dróttir sjá
og dreifast að allra handa.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

16.
Svo er þá nærri nauðsyn sett,
að náir sér enginn forða,
verður þá hvörki vald né stétt
eða við reist nökkur skorða,
nær þjóðin öll skal þola sinn rétt
fyrir þenking hugarins orða.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

17.
Þá skiptist fólk af flokkum tveim
föðurs í himna stræti,
viskan brjóstsins vendar þeim
vinstra megin í sæti,
sem þýðast fastlega þennan heim
og þjónuðu fátt með gæti.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

18.
Skapari heimsins skýrir þá
skjótt til sinna manna:
Þér skuluð æðstan fögnuð fá
með frægð og virðing sanna
og hæstum sitja himni á
og hvörs kyns ræðu sanna.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

19.
Dróttir aumar hann dæmir hér,
dýr með veldi sínu.
Þeir vondum glæpum vöfðu að sér,
villu og lasta línu,
bráðlega farið í burt frá mér
í bitra vítis pínu.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, líknaðu mér.

20.
Hér skal óðurinn enda fá
og allir bið eg þess gæti,
að hverfa heimsins girndum frá
svo heiður með lítillæti
hreppa kynni himnum á
í helgu dýrðar sæti.
Lausnarinn heimsins, lýt eg þér,
lifandi Drottinn, hjálpaðu mér.

Amen.

(Vísnsabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 251–253