Enn aðrar boðorðavísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Enn aðrar boðorðavísur

Fyrsta ljóðlína:Öllum skipar skyldan
bls.248
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður) þrí- og ferkvætt AbAbcoc
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612

Skýringar

Og er tón sem við Dikt vil eg dýran hefja.
1.
Öllum skipar skyldan
skapara að lofa sinn.
Eg vesæll einninn vilda
vegsama Drottin minn,
og ætíð syngja um hans dýrð.
Vísilega veit eg þó
hún verður ei fullskýrð.
2.
Hæstur himna smiður,
hjálpar eg þig bið,
glæstur guðdóms niður,
gef þú mér þitt lið,
svo lýsa mætta eg lofgjörð þín.
Til að tjá þín tignar verk
tunguna greið þú mín.
3.
Hindra þú hugsun ljóta,
en hjartað lýs upp mitt,
svo eg öðlist skynsemd skjóta,
að skýra lofið þitt,
einkanlega fyrir öllum þeim,
er þitt girnast orðið skært
um allan þennan heim.
4.
Huggun heilags anda,
hjartans kveiki rót.
Eg megi svo í stríði standa
stöðugur illu á mót
og falsarans allan forðast prett
en girnast það hið góða á
og gjöra ávallt rétt.
5.
Ómaklegur með öllu
er eg að nefna þig,
því sárt í synda föllum
saurgað hef eg mig.
Boðorðin þín eg braut svo þrátt,
hvörki gáð né gætt að því
sem gjöra hefða eg átt.
6.
Blíður í boðorði þínu
bauðstu mér það fyrst,
eg skylda af mætti mínum,
megni, kraft og lyst,
óttast þig og elska af dáð.
Eg hafnaði því og hélt ei þitt
hið háleitasta ráð.
7.
Gleymda eg gæsku þinni,
en gjörða eg aðra meir
af aumri iðju minni
afguði hjá þér.
Skepnuna í skaparans stað
hefi eg dýrkað harla títt;
hræðileg synd er það.
8.
Trúlega eg tíðka átta
tignar nafnið þitt.
En hafa hvörgi mátta
við hégóma talið mitt,
því sá er ekki sýkn fyrir þér
sem það leggur lygarnar við.
Ljóst er það fyrir mér.
9.
Þó hafi eg þvert á móti
þunglega Drottinn minn,
með eiðum, banni og blóti
brotið viljann þinn.
Lygarnar framda eg ljótar þrátt
við signað nafn þitt sór eg oft
og særði eg margan hátt.
10.
Hvíldardaginn með heiðri
halda bauðstu mér
og læra af gæsku greiðri
göfug orð þín hér.
Miskunnar verkin að frema fús,
rekka að leiða á réttan veg
og rækja bæna hús.
11.
Eg hefi þó allt að einu
óhóflega mér breytt
og ekki af huga hreinum
heiður né dýrð þér veitt,
sýst eg gjörða sem mér bar.
Lausnarans orð að læra
latur eg næsta var.
12.
Svo má eg glöggvast greina
glæpina efalaust.
Hef eg ei haldið neina
hlutina þá mér bauðst,
sem á fyrra spjaldi Drottinn dýr
ritaðir þú sem ritning þín
ræðir harla skýr.
13.
Þú skipaðir skaparinn góður
að skylda eg heiðra rétt
fúslega föður og móður
og fyrirmanna stétt.
Ef langætt vilda eg lífið fá,
eg skylda að vísu valdstjórn allri
verðuga lotning tjá.
14.
Eg hafnaði ráði réttu
og reitta oft og þrátt.
Foreldra lagða eg að léttu
og lýtti á margan hátt.
Eg forsmáði alla firða þá
er mig vildu eggja á gott
og illu hrinda frá.
15.
Býður boðorð þetta
að bræður skylda eg
elska af öllum létta
en aldrei á nökkurn veg
með bræði úthella blóði hans,
einna sýst að særa í hel
eða sitja um lífið manns.
16.
En eg hefi af hjarta
hatað náungan títt,
með brigslum og bölvi svarta
bæði hann styggt og nítt.
Og hefði ei verið hefndin bráð
munda eg hafa allskjótt hann
aumlegana smáð.
17.
Hér næst hórdóms greinum
hafna átta eg,
með sárum synda meinum
og saurlifnaðarins veg.
Þó hefi eg þvert á mót
brotið þrátt með breytni mín
bæði og hugarins rót.
18.
Eg gekk með girndar hótum
guðlauslega fram.
Eg drýgða í löstum ljótum,
lausung og alla skamm
með ofneyslu á allan hátt.
Sárlegt er að segja frá
syndum dag sem nátt.
19.
Þú bauðst mér faðirinn fríður
að forðast stuld og rán.
Þú gafst mér Guð minn blíður
góss og peninga lán,
svo ekki skylda eg öðrum frá
girnast neitt af gripum manns
né gull með röngu að fá.
20.
En eg má meðkenna
mína syndalyst
að löstinn þrátt hef eg þenna
þenkt og framið víst,
yfir að komast annars fé
og forsvara það með flærð og fals
sem fullvel rétt það sé.
21.
Forðast fús eg ætti
fals að bera og lygð,
þar náunganum mætti
mein að verða og styggð.
Heldur skylda eg hönum tjá
hjástoð mína og hjálpa úr neyð
og háska öllum frá.
22.
Nú hef eg nei við þessu
nálega flestu sagt,
með grimmdargeðinu mestu
gjald á aðra lagt.
Drottni mínum það er ei þekkt,
til lýta öðrum lagða fram
lygarnar nógu frekt.
23.
Hin síðustu boðorð að sönnu
svo hafa bannað mér,
eign af öðrum mönnum
ekki að girnast hér,
hvörki kvinnu, hús né hjón,
ambáttir sem yxn eða fé
og öngvum gjöra tjón.
24.
Boðorðin þessi bæði
braut eg þrátt og títt,
framda eg fárlegt æði
frekt með lyndið strýtt.
Ágirnd mín var ekki smá,
síð og snemma sat eg um það
sæmd af öðrum að ná.
25.
Ranglátan með réttu
reikna eg mig þrátt.
Á spjaldi seinna settu
sem eg hafða átt,
með gáti öllu að geyma víst.
Það sem mér frekast flýja bar
forðaðist eg síst.
26.
Öllum efnum mínum
er nú þanninn vart,
af blessuðum boðorðum þínum
braut eg jafnan hart.
Hvað er til ráða skaparinn skýr?
Verkin mín eru vond og ljót
og virðast munu þau rýr.
27.
Blíðra boðorða þinna
beint hef eg sjaldan gáð.
Er eg því fús að finna
hið fegursta hjálpar ráð
og falla þér til fóta brátt,
gefa mig á þitt guðdóms vald;
get eg þá einskis fátt.
28.
Hér hef eg birt hvað bannar
blessaður Drottinn nú.
Hyggi að hvör sem annar
sem hreppt hefur skírn og trú,
hvað oss vantar hér upp á,
að halda þessi heilög boð
sem hróðurinn skýrir frá.
29.
Játa eg því með öllu
upp á sjálfan mig.
Herrann í himnahöllu,
hef eg svo styggðan þig
og brotið svo oft af boðorðum þín,
yfir mig steypt með illsku verk
eymd og allri pín.
30.
Drottinn, dýrð og sómi
dásamleg sé þér,
heiður og hæstur blómi,
haldist sá sem er.
Föður og syni sé frábær prís,
helgum anda hvörs kyns magt
og haldist friðurinn vís.
(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 248–250)