Tuttugasta og fjórða sunnudag eftir trínitatis | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tuttugasta og fjórða sunnudag eftir trínitatis

Fyrsta ljóðlína:Þá Jesús var enn að ræða
bls.78
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) þrí- og tvíkvætt ABABCdCd
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Tuttugasta og fjórða sunnudag eftir trínitatis
Evangelíum Matt. ix (18-26)
Með lag: Drekkum af brunni náðar
1.
Þá Jesús var enn að ræða
það áður kenndi
því fólkið vildi fæða
sem fram að vendi.
Jaírus hét höfðingi,
á hné kraup fram í stað,
svo af honum andsvar fengi,
með auðmýkt herrann bað.
2.
Mín dóttir er nýönduð,
Jaírus innir,
þú kom með heilla höndum
að hjálpa henni;
leggir þú hönd á hana,
hún mun þá lifna við.
Guð[s] son að góðum vana
gekk með honum á leið.
3.
Hans lærisveinar þá líka
með ljúfum gengu;
fyr guðdóms gæsku slíka
þeir glaðning fengu.
Ein kona í kvenna meinum
þá kemur á bak við hann;
hér segir það glöggt með greinum
hvað góð trú hennar vann.
4.
Heil tólf ár á henni
lá hörmung stríða
að blóðlát ekki linnir
með löngum kvíða.
Svo frá eg sjálf hún ræði
í sinni hugarins rót:
Kynni eg að snerta klæði
Kristí þá fengi eg bót.
5.
Konan snart fald hans klæða,
sig kennir grædda;
Jesús réð þá ræða
við raunamædda:
Sértu mín dóttir sæla
sannlega styrk í trú,
hún gjörði þig nú heila,
héðan í friði snú.
6.
Sem herrann kom til húsa
höfðingjans ríka
og leit þá lúðra blása
og buldra líka
frelsarinn fyrst sem hæfir
frá sér þeim víkja bauð,
segir að stúlkan svæfi
en sú væri ekki dauð.
7.
Þeir hæða herrann þenna
þó hljóti að rýma;
hann tók í hendur hennar
sem svaf þann tíma.
Þá stúlku biður hann standa
styrkva upp við það;
svo verður eftir vanda;
hún vaknar þegar í stað.
8.
Út barst af honum rykti
á Júða landi
þó þeir ekki þekkti,
það var hans vandi
sinn almátt í orðum
að opinbera þeim
og svo með guðdóms gjörðum
glöggt um allan heim.
9.
Undir alls kyns meinum
vér aumir búum;
af alhuga, Jesú, hreinum
því að þér snúum.
Tendra þú trúna rétta
til þín hvörja stund
svo leiðist lífið þetta
en langi oss á þinn fund.
Vísan
1.
Við bæn Jaírus eina
Jesús verður til ferðar;
á leið hans kom við klæði
kvinna og blóðfall innir.
Herrann fann fyr trú hennar
frá sér renna kraft þenna;
dóttir höfðingjans hitti,
hægt af svefni brátt vakti.
2.
Auk mér trú, Jesús, líka
að eg þinn kraft svo finni
renna til mín í minni
mæðu þá um þig ræði.
Allra handa það hindrar,
helga trú, frá mér snúir;
sjáðu, minn svefn er dauði,
seinna líf gleður mig einninn.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 78–79)