Fimmtánda sunnudag eftir trínitatis | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 63

Fimmtánda sunnudag eftir trínitatis

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Tveimur af trúskap þéna
bls.67
Bragarháttur:Níu línur (tvíliður+) þríkvætt AbAbCdCCd
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Fimmtánda sunnudag eftir trínitatis
Evangelíum Matt. vj (24–34)
Með lag: Hæsti Guð, herra mildi
1.
Tveimur af trúskap þéna,
tállaust, að enginn kann;
við hinn mun ræktin réna
rétt ef einn elskar hann,
eða ef þýðist þennan
þá fyrirlítur hinn;
svo réð Kristur að kenna
og kosti býður tvenna,
styrkjandi sannleik sinn.
2.
Guði og Mammon megið
mjög vel ei þjóna senn;
því vil eg þér vísið eigi
sem veikir æðrumenn
um yðar föt og fæði
fávíslegana hér
því líf og líkaminn bæði,
lausnarinn frá eg svo ræði,
æ meira verður er.
3.
Fugla loftsins álítið
er láta ei akra sá,
í hlöðum safna hveiti,
himna Guð fæðir þá;
munu þér miklu kærri
mínum föður en þeir?
Hvör getur orðið hærri
þótt hugsótt beri stærri,
því vilji þér víla meir?
4.
Vænum vallanna blóma
vil eg þér gætið að;
grasið með sínum sóma,
sjáið Guð prýðir það,
hafandi handverk engin,
hugsið um fyrr í heim,
eg segi í sínu gengi
Salómon ekki fengi
þá fegurð sem fylgir þeim.
5.
Fyrst Guð vill nú svo gæða
gras, það í dag þú sér,
sem eldur skal þó eyða,
í ofn á morgun fer,
skyldi hann yður eigi
unna slíks sóma þá;
veiktrúa víst eg segi,
vílið á hvörjum degi,
sérhvör sem mest hann má
6.
Þér skuluð þess ei geta,
þjáðir af sorg og þrá:
Hvað eigum vér að eta
ellegar drekka þá,
hafa til hafnarklæða?
Heiðnir menn víla svá.
Þetta ei þurfið ræða,
það veit gjafarinn gæða,
liggi yður þar á.
7.
Fyrst bið eg glöggt þér gætið
Guðs ríki leita að,
hér næst og hans réttlæti
hvör einn í sínum stað;
hverfa þá hvörs kyns gæði
í hönd sem þurfið við;
annars dags ekki mæði
áhyggja þig né hræði;
daglega drýgðu lið.
8.
Leið mig frá ágirnd illri
og æðru, Jesú minn;
gef mér með hyggju heillri
að hugsa um dugnað þinn;
svo sem þú fugla fæðir
og fagra gras jörðin ber
orð þitt oss svo græðir,
eins líka sem þú ræðir
með blessan börn þín hér.
Vísan
1.
Fyrirbauð Kristur kvíða,
kennir oss hug til renna
fugla lofts, er ei eiga
akursæði, Guð fæðir;
sýnir liljugras græna
og getur þess menn sé betri;
ef hyllunst Guð að með öllu
allar hægðir til falla.
2.
Náði Guð aum úrræði
allra vor, það má kalla,
föður eigum Guð góðan,
græðarinn mun svo ræða.
Sá veit og vill þess gæta
hvað vantar oss, gefur í panta
soninn þó allt að einu
ástríðir samt kvíði.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 67–68)