Tólfta sunnudag eftir trínitatis | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 60

Tólfta sunnudag eftir trínitatis

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Frá Týri og Sídons takmörkum
bls.64
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Sálmar
Tólfta sunnudag eftir trínitatis
Evangelíum Mark. vij (31–37)
Með lag: Sæll er sá mann sem hafna kann
1.
Frá Týri og Sídons takmörkum
trúi eg að Jesús færi
beint að þeim tíu borgunum
byggðarlags sjónum nærri.
Leiddist til hans sá heyrði ei,
hvörki gat talað já né nei;
svo þann með hendi hrærði.
2.
Afsíðis leiddi Jesús þann
eins sem að vér nú heyrum,
fingur berlega færði hann
fyrst að hans daufum eyrum,
eftir það spýtti út á jörð,
er hans tungu svo lækning gjörð
enn með aðburðum fleirum.
3.
Til himins leit vor herra þá,
hátt stynjandi, og sagði,
orðið talandi hefetá;
opnuðust strax að bragði
eyrun hans og hindran máls
svo hann varð allra meina frjáls;
yfir því ekki þagði.
4.
Bannaði hann að birta frá,
bera það út frá neinum;
þess meir víðfrægðu þeir það þá
með þvílíkum orðagreinum:
Allt gjörði vel sá góði mann,
gefa þeim heyrn og málið kann;
sögðu allir með einum.
5.
Daufur var eg og mállaus með,
miskunnsamasti herra,
en þú, Jesús, fær lífgan léð,
lést mér þau meinin þverra.
Fyr anda þinn og orðsins kraft
uppleystir þú mitt tunguhaft
sem allt gott kann að gjöra.
Vísan
1.
Máls og heyrnar var varnað
víst þeim færðist hér Kristi;
honum veik út af einum,
í eyrun stingur fyrst fingri;
með hráka hrærði líka
hans tungu, blés þungan.
Við orð Krists strax að urðu
eyru skær og málfæri.
2.
Eyru mín, Jesús kæri,
æ og meir léstu heyra
og mjúkfært tungutæki
tandrað fyrir þinn anda.
Munnvatn þitt er minni,
mál og orð lækning sálu;
heyrn og sjón og mál einninn
til æru þér mitt að nærist.
(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 64–65)