Fyrsta sunnudag í níu vikna föstu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallasálmar Einars í Eydölum 20

Fyrsta sunnudag í níu vikna föstu

GUÐSPJALLASÁLMAR EINARS Í EYDÖLUM
Fyrsta ljóðlína:Jesús tjáði efnið slíkt
bls.23–24
Bragarháttur:Tíu línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBccDccD
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Fyrsta sunnudag í níu vikna föstu
Evangelíum Matt. xx (1–16)
[Lag:] Í dag [eitt] blessað barnið er.
1.
Jesús tjáði efnið slíkt
enn fyrir lærisveinum
að himnaríki er harla líkt
húsbóndanum einum.
Árla morguns út gekk sá
og sér leigði verkmenn þá
í víngarð sinn að vinna,
sami um dagsverð settur á
að sérhvör skuli peninginn fá
en hvörki meir né minna.
2.
Út gekk þá um þriðju stund
þar með á hinni séttu
og níundu, á það lagði lund
leigja að kaupi réttu
verkmenn í sinn víngarð þá,
vottar að sérhvör skyldi fá
hvað sem að réttvíst væri.
Um stund elleftu eftir á
iðjulausa nokkra sá,
þeir bað þangað færi.
3.
En að kvöldi sagði svá
sínum ráðamanni:
Vinnumönnum ver[ð]kaup fá
víst með fullum sanni;
frá síðustu til fyrsta fer,
fékk sinn pening einn sérhvör,
þeir fyrstu mögla á móti:
Vér höfum unnið allan dag
og ólíkt stundað vinnulag
þó þess nú ekki njóti.
4.
Einum þeirra svaraði svá
sjálfur húsráðandi:
Varstu ei sáttur við mig á
verðkaup sem þér samdi?
Ekki gjöri eg órétt þér
þó öðrum gefi eg það líkar mér,
hvað þitt er burt skalt bera.
Ekki slíkt að öfunda ber
ef eg af mínu góðgjarn er.
Rétt er ei rangsýnn vera.
5.
Síðustu, sagði hann hátt,
svo þeir fyrstu verða;
vér sjáum og fyrstu þanninn þrátt
þá seinasta gjörða
því kallaðir eru margir menn
með Guðs orði allir senn
en því ekki halda.
Fáir útvaldir finnast því
frá eg að hinir og líka því
sjálfrar vonsku valda.
6.
Vor Guð og herra, þú vildir hér
í víngarð þinn oss kalla;
sú víneik að þinn sonurinn er,
vér sjúgum af gæsku alla.
Láttu oss nú um litla hríð
letjast ei þó kæmum síð
skyldug verk að vinna.
Jesú góði, leggðu oss lið
að lifum ei eftir Gyðinga sið,
vér njótum náða þinna.
Vísan
1.
Húsfaðir, herrann tjáði,
sá hjarðir á, réð víngarði.
Í lýsing leigir menn þangað
og líkir við himnaríki.
Um þriðju stund og svo síðar
senda varð enn í garðinn;
ör gaf heila hýru
fyr hátt nafn öllum jafna.
2.
Vor víneik hin dýra
veit eg að Jesús heitir;
vínkvistir hans vænu
verum því hlaðnir berjum,
sætum, svo að ei hljóti
súrt hrat slá oss burtu;
komum nær kvöldsins tíma,
kappsinnaðir því vinnum.