Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði

Fyrsta ljóðlína:Nóttin var sú ágæt ein
bls.123
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer,- þrí- og fimmkvætt aaaBB
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612

Skýringar

Kvæðið er undir vikivakahætti og er viðlagið:
Emmanúel heitir hann
herrann minn enn kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
„Kvæði af stallinum Kristí
sem kallast Vöggu kvæði“
Emmanúel heitir hann
herrann minn enn kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

1.
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröldu ljósið skein,
það er nú heimsins þrautar mein
að þekkja hann ei sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
2.
Í Betlehem var það barnið fætt
sem best hefur andar sárin grætt;
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
3.
Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann;
í lágan stall var lagður hann
þó lausnarinn heimsins væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
4.
Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum þrátt;
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
5.
Í Betlehem vil eg nú víkja þá
vænan svein í stalli sjá,
með báðum höndum honum að ná
hvar að eg kemst í færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
6.
Betlehem kallast kirkjan svinn,
kórinn held eg stallinn þinn,
því hef eg mig þangað, herra minn,
svo heilræðin að þér læri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
7.
Upp úr stallinum eg þig tek
þó öndin mín sé við þig sek;
barns mun ekki bræðin frek,
bið eg þú ligg mér nærri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
8.
Örmum sætum eg þig vef,
ástarkoss eg syninum gef,
hvað eg þig mildan móðgað hef,
minnstu ei á það kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
9.
Þér gjöri eg ei rúm með grjót né tré,
gjarnan læt eg hitt í té,
vil eg mitt hjartað vaggan sé,
vertu nú hér minn kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
10.
Umbúð verður engin hér
önnur en sú þú færðir mér,
hreina trúna að höfði þér
fyr hægan koddan færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
11.
Eilífs Guðs míns einka son,
undir hann breiði eg stöðuga von,
hjartans vil eg en heita bón
að hvílu böndin væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
12.
Á þig breiðist elskan sæt,
af öllum huga eg syndir græt,
fyr iðran verður hún mjúk og mæt,
miður en þér þó bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
13.
Af kláru hjarta kyssi eg þig,
komdu sæll að leysa mig;
faðmlög þín eru fýsilig,
frelsari minn enn kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
14.
Vertu yfir og undir hér,
Emmanúel, fagna eg þér,
á bak og fyr og í brjósti mér
og báðum hliðunum nærri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
15.
Ver þú mitt eð veika brjóst
fyr veraldar sárum bræðiþjóst,
metnað deyð og mun það ljóst
að mér er þín ástin, kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
16.
Skapaðu hjartað hreint í mér
til herbergis sem sómir þér,
saurgan allri síðan ver
svo eg þér gáfur færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
17.
Gullið hreint, minn Guðs son kær,
gef eg þér því þú dvelst mér nær,
það er mín trúin skyggn og skær,
skaparinn bið eg að næri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
18.
Enn reykelsið ilmar sætt,
ofan á gullið því skal bætt,
bænin hrein, þar hef eg um rætt,
hún vilda eg það væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
19.
Myrran gjörir svo meiðslin klár,
má hún því heita lækning sár;
raunir mínar reikna eg fár,
rétt þó stærri væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
20.
Þó vil eg myrran þetta sé,
eg þakka af ást og fell á kné;
þinn líknar kross mér léstu í té
þó líði eg hann ei sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
21.
Mér er nú ánauð engin sár
þó oft eg felli sorgartár;
öllu linar þú, Jesús klár,
og ert mér sjálfur nærri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
22.
Umsker, herrann, hjartað mitt
og hrær það að geyma orðið þitt;
yfirhúð synda held eg hitt
sem hamlar að eg það læri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
23.
Alla limuna lækna þú,
löst og syndum frá mér snú;
þitt eð sæta nafnið nú
mér nytsemd alla færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
24.
Þú heitir Jesús, heillin mín,
hjálpaðir mér frá dauðans pín;
í allri neyð þá minnstu mín
og mjúklega endurnæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
25.
Þó skelfi synd eða Satan mig,
sæti Jesús, beiði eg þig
að heljar ógnin hræðilig
í hugarvíl ei mig færi.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
26.
Af voru holdi hold og bein
hjálparinn tók fyr utan mein
að óspjallaðri guðdóms grein
svo Guð og maður hann væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
27.
Hann kennir í brjósti um bræður sín
og bjargar þeim frá synd og pín;
í dauðans neyð þá minnstu mín
og mjúklega endurnæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.
28.
Þá sálin skilur við sjúkan búk
sé þín, Jesús, lækning mjúk,
en fyrir henni upp þú ljúk
unaðarstaðnum kæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.


Athugagreinar

Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000), bls. 123–125)