Þakkargjörð fyrir Kristí pínu og friþæging við Guð | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þakkargjörð fyrir Kristí pínu og friþæging við Guð

Fyrsta ljóðlína:Herra Jesú Guðs heilagt lamb
bls.C1v (bls. 62–66)
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar
1.
Herra Jesú, Guðs heilagt lamb,
heims alls berandi syndir,
líflátinn fyrir vort lasta-dramb
og lögbrota allar skemmdir!
Af öllu hjarta eg þakka þér,
þolandi pínu og dauða,
til frelsis þess sem fannstu mér,
fyrir þitt blóðið rauða.
2.
Sé þér lof fyrir sára hryggð
sálar þinnar til dauða
þá heimsins alla harma styggð
hjartað þitt reyndi góða:
Sorg, neyð og kvíði sérhvers manns
sveið allt í brjósti þínu.
Enginn kann skýra út til sanns
alla þá feiknar pínu.
3.
Ó, þá sárustu sálarneyð
samt hjartans ókyrrleika
og hugarangur sem herrann leið,
heiftar dauðastríð líka!
svo að blóðsveita baðið heitt
braust út af Jesu holdi,
því var á jörð sem vatni veitt
og varði Guðs reiði-eldi.
4.
Svo hafa öll vor synd[a]völd
saklausan Jesúm kvalið
og á hann hlaðið ótal gjöld
illverknaðs, ljóst og hulið.
Synd, víti, dauði, sálu hans,
satan og lögmál kvaldi,
réttlætið strangt og misgjörð manns
miskunnarlaust að fylgdi.
5.
Lof Jesú fyrir blíða bæn,
blessaður þá framlagðist
flatur á jörð, sú fórnin væn
fram kom þá sál hans hryggðist,
*lagði föður sinn vilja á vald,
var síðan fjötrum bundinn.
Kristur gekk fús í kvalanna hald,
komin var píslarstundin.
6.
Lof sé Jesú að leið hann slög
ljúflega minna vegna,
hrakinn, spýttur og hæddur mjög,
húðláti varð að gegna;
þolinmóður sem lambið ljúft
lét það yfir sig ganga;
stillandi svo mitt straffið hrjúft,
stórglæpi bætti ranga.
7.
Lof sé Jesú sem lét sig hér
lífláta á krossins gálga.
Ei mun Guð leyfa að aumum mér
andskotinn nái sálga;
því fyrir Kristí dauðadóm
dýrkeypt mín sála lendir
ályktuð hrein og einka [?] fróm
almáttugs Guðs í hendi.
8.
Lof sé þér, Jesú, kóngur kær,
að krónaður varst með þyrnum.
Ærunnar kransi er eg því nær
með útvöldum Drottins börnum.
Herran sem bölvan hékk á tré,
höndum og fótum negldur
svo eg í heitu helvíte
héngi ei af djöfli stegldur.
9.
Ó, þú heilaga offrið mest!
Ó, Guðs lamb flekklausasta!
Ó, þú hreinláta hjartað best!
höfuð verðuglegasta!
ásjóna fögur og augun skær,
eru hrein, fætur og hendur:
Aví! hvað gekk þér eymdin nær
en allt mér til bóta stendur.
10.
Ó, þú hreinasta húsið Guðs,
herrans Jesú líkaminn!
Því ertu þanninn án alls friðs,
undum særður og kraminn?
Þinn faðir hefur þér ei hlíft
þegar hann hefna vildi;
svo mér vesölum vært og líft
verða um eilíifð skyldi.
11.
Hið innra kvaldi þrautin þig,
því réð Jesús að kalla:
Guð minn! því yfirgafstu mig?
Það gefur mér huggun alla.
Þitt elskulega orð og brjóst,
eg vil því trúa og játa,
aldrei muni mig leynt né ljóst
lausnari minn forláta.
12.
Sé þér lof fyrir sjö þín orð,
sætasti ó, Jesú Kristí!
Þar með og eilíf þakkargjörð
að þig svo deyja lysti,
mælandi gott og minnisstætt
í mínu lífi og dauða,
með orði og verki blessað og bætt
böl minna allra nauða.
13.
Sé þér lof fyrir þá síðu-und
er sofnaður fékkst af spjóti
og hjartablóð sem hverja stund,
herra! gef mér eg njóti:
að syndir mínar sökkvi þar
en sálin hreinsun fái
og eg skjóli til eilífðar
í því bjarg-fyl[g]sni nái.
14.
Ó, minn Jesú! nú ertu mitt
eilíft og fullt réttlæti,
helgasta nafn eg heiðra þitt
með hjartans sálarkæti.
Guðs sonur hefur goldið allt
fyrir glæpi og syndir manna.
Þér sé lof sungið þúsundfalt,
þú Guð miskunnsemdanna.
15.
Minnstu faðir þú eitt sinn ert
orðinn við mig vel sáttur:
Sættir þær hefur sonur þinn gjört,
sá minn frelsari réttur.
Vegna þess, Guð, mér vertu ei
vesölum manni reiður,
lát mig njóta, hvort lifi eða dey,
lausnarans, Drottinn góður!
16.
Eg segi þér þökk og syng af rót
samt öllum kristnum þínum.
Jesú réttlæti er blessuð bót
brotum og syndum mínum.
Guð er minn styrkur, Guðs er dýrð,
Guð virðist náð mér senda.
Guðleg heiðran sé Guði skírð,
Guði sé lof án enda.
> Amen


Athugagreinar

5.5 lagði föður sinn] > lagðist föður síns [?]