Bíleams rímur – þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Bíleams rímur 3

Bíleams rímur – þriðja ríma

BÍLEAMS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Þögn eg slít í þriðja sinn til þægðar mengi
bls.A10r (bls. 21–34)
Bragarháttur:Braghent – frárímað
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Þögn eg slít í þriðja sinn til þægðar mengi
því sem girnist guðdóms anda,
góða ræðu að undirstanda.
2.
Þungskilið er þetta mál í þenking vorri.
Biblíu þarf fyrir börnum þýða,
bati er ei annars á að hlýða.
3.
Bíleam fyrst þá beðinn var að bölva lýðum.
Friðarins Guð hönum forbannaði
að fara með það sem yrði af skaði.
4.
Í annað sinn þá ánýjað var erindi sama
fararleyfi af Guði góðum
gefið var þá manni fróðum.
5.
En skilyrði hafði skaparinn þó í skikkan þeirri
að hann engin álög segði
önnur en þau sem Guð til-legði.
6.
Því valdið er Guðs þó vilja illan vondir hafi.
Ekkert sker nema í hans leyfi
þó ógott margt sér víða hreyfi.
7.
Vitraðist því voldugur Drottinn véla-manni.
Aftra vildi illu ráði,
olla því hann góðu spáði.
8.
Ef nokkur hefur góða gáfu af Guði þegið
sem geðþægileg er Guði sönnum
en gagn má vinna kristnum mönnum.
9.
Hennar vegna umlíðst oft einn illskudrengur,
áminnt svo sem eldiskálfur
en ábyrgjast þó má sig sjálfur.
10.
Balach trylltur allar árar úti hafði
að heiftaráformi hann framkæmi,
hafa nokkrir það hans dæmi.
11.
Fjandmönnum þegar fatast slagur í fyrsta sinni
í annan tíma átök herða
allt til þess að við vill verða.
12.
En Gus vandlæti gremur sig yfir glæpa-áformi.
Er hann svo fús þess illa að letja
sem óvinurinn þar til hvetja.
13.
Þess heiðna spekings heimanferð var himna kóngi
óþægileg í margan máta,
munnur hans þó gjörði að játa.
14.
Því hrösun þá er af henni leiddi hann sá fyrir
sem síðar verður sagt í kvæði
svo sem greinir Mósis fræði.
15.
En upp á það að Beors bur hinn bragða-teiti
ofmjög treysti ei íþrótt sinni,
almátt hefði Guðs í minni.
16.
Stýrir himna stríðsengil einn sterkann sendi
á veg fyrir hann með brugðnumbrandi
sem Bíleam varð þó ekki að grandi.
17.
Mótstæðan hönum sýndi sig sá sendiboði.
Mannsaugu á mjóum vegi
máttu óséðan varast eigi.
18.
Asnan, heimskust allra dýra í þann tíma,
olli því að engils vegur
ei var klerki skaðsamlegur.
19.
Margvitugur mátti þar sitt megnið þekkja
er síst fékk grillt með sjónar grjóti
sjálfur þann hönum stóð á móti.
20.
Varla kom honum vitið í hald á vegi sínum.
Eftir því sem innir letur
asnan réði þá langtum betur.
21.
Var hönum sýnt að varla mundi hans vera færi
á blessað fólk með bölvan herja
fyrst bilaði sjálfs síns líf að verja.
22.
Hjá múga þeim þó mannhjálpirnar minnka kynni
engla Drottins fylking fríða
fyrir og með því mundi stríða.
23.
Sýndi Guð því tákn þau tvö þeim töfra-ræki.
Engill Drottins á stóð vegi
sem asnan sá en Bíleam eigi.
24.
En Bíleam hann brá þá á sig bófa-hætti
þegar sem þurs í þoku starði,
þrisvar sinnum ösnu barði.
25.
Skapillsku er það skemmdarbragð og skálka æði
málleysing að bukka og berja
sem Bíleam gjörði á ösnu herja.
26.
Engill Drottins að því fann og ekki þótti
sómi neinn á foringja fínum
fénaði að misþyrma sínum.
27.
Nýtur maður níðist aldrei á nokkri skepnu.
Blessan guðs oss bestíur lénar
en bestían vorri nauðsyn þénar.
28.
Andvarpa þær allar undir oki voru,
ódrengskapur er þær pína
án nauðsynja og heift þeim sýna.
29.
Grip sinn aukar góður maður sem gagn af hefur.
Hinn fer eins og Bíleam byrstur,
í bræði sem hann tíðum lystur.
30.
Grunnhygginn ef Guðs fyrir engli gjörir sig lágan
er skýrri þeim í söðli situr,
sér ei veg en þykist vitur.
31.
Englinum leist þess asnan verðug að hún lifði
þar eð Bíleam banað væri.
Bið eg menn þessa meining læri.
32.
Um villumenn er vitanlegt þó visku hrósi
þeir margir verr en asni og uxi
aðhafist og líka hugsi.
32.
Sagðar skepnur sannlega verða sakaráberar
villudólgum er vitkast eigi
í viðurvist Guðs á dómadegi.
33.
Þá allir hlutir aðsúg gjöra illum mönnum
mest og flestt af makt og seimi
sem misbrúkuðu hér í heimi.
34.
Illskiptinn sér engil Guðs á yfir höfði
hverjum helst sem hann er á móti,
heilla er lítil von hann njóti
35.
nema sú asnan heimskan holdleg hofmóð lægi
og sálar opnist sýn á vegi
svo að maðurinn hjálpast megi.
36.
Eins og Bíleam bata fékk af birting augna
er engil Guðs með ásjón hvíta
öndverðan sér gjörði að líta.
37.
Naut þar vondur gæsku Guðs að gljúpur yrði
og hræðsla sú honum héldi í skorðum
svo hefti sig frá vondum orðum.
38.
Játaði hann þá sína synd með sinni smeyku,
aftur snúa einninn skyldi
ef það hæstur Drottinn vildi.
39.
Ef Bíleam hefði ei brugðið af að blífa í hlýðni
við almáttugan engla gæti
öðlast hefði hann himneskt mæti.
40.
Því vísdómsanda háan hafði hann í brjósti
sem lént hafði hönum skaparinn skæri,
skynjaði margt þó heiðinn væri.
41.
Verða má í veröld finnist verri maður,
hjá villu-fólki var hann í heiðni
en varðist kóngs að fylla beiðni.

> – – –
42.
Er þess vitni efnið það sem eftir kemur.
Þá fundur varð að fyrsta bragði
fylkir svo við Bíleam sagði:
43.
Til þín senda eg tignar-boð af trausti sterku.
Hvar fyrir vildir heiðri þínum
hafna og líka fundi mínum?
43.
Eða ertu svo óframsýnn um auðlegð þína,
veistu gjörla í veðri hæru
veitt gat eg þér stóra æru.
45.
Sipors syni sjáandinn þá svara gjörði:
Horfið nú á helst til friðar,
hér er eg kominn á fundinn yðar
46.
en enganeiginn þó einhlítur í orðum mínum
því eg má ekki mæla fleira
en munnur Guðs mér segir í eyra.
47.
En Balach hafði búið sér til brennifórnir
afguðum sínum ör til handa
ölturin lét þar til vanda.
48.
Bíleam gekk á Baals hæð á björtum morgni
móabískum meður tiggja
er magt á þessu þótti liggja.
49.
Mátti þaðan mengi sjá til Mósis tjalda
að ystum hluta er vér köllum
Ísrael lá á Móabsvöllum.
50.
Sjáandinn, sem siður var til, að sikling heimti
að sjö ölturu setja léti
og síðan skyldi hann offra kjöti.
51.
Uxa og hrúta ákvarðandi til offurs gjörðar
eins marga sem ölturin væri
og öðlings-fórnar hátíð bæri.
52.
Kóngurinn, svo sem Bíleam bauð, lét breyta þessu,
við ölturin báðir í senn stóðu
og offurs-stykkjum niður hlóðu.
53.
Spekingur við sprota njót þá spjalla gjörði:
Upp yfir stattu offri þínu,
eg geng burt að ráði mínu.
54.
Er til vonar æðstur Guð muni enn mig finna,
eg skal þér svo undirvísa
allt það hann vill mér auglýsa.
55.
Fljótt svo burt frá fylkir gekk sá forvitugi.
Mildur Guð að mæltu bragði
mætti honum, en Bíleam sagði:
56.
Sauði og naut eg sæfa lét og sjö ölturu
uppbyggja til offurs-gjörðar,
eru þær fórnir mikilsverðar.
57.
Komið var að því klerkurinn skyldi kóngs vild þéna,
mál þá Guð í munn hans lagði:
Milding hermdu hvað eg sagði.
58.
Hvarf svo aftur á hæð til kóngs og herra manna
stoltur þar sem stillir og mengi
stóð upp yfir fórnar-rengi.
59.
Bíleam hóf með munni mál og merkur sagði:
Af Sýrlandi lét Sipors-arfi
sækja mig, hinn mektar-djarfi.
60.
Frá Austurfjöllum eg var heimtur að öðlings ráði,
beðinn að ragna besta mengi
svo buðlung á því sigur fengi.
61.
Þeirri ebresku Ísraels ætt vill ýta gramur,
Balach þessi, bölva láta
en bón hans þeirri eg ei kann játa.
62.
Hvörninn má eg harðmæla með haturs blóti
eða hrakspá þeim sem heiftug völva
er himna Guð vill ekki bölva?
63.
Á hóp þann fagra horfi nú af hæðum þessum,
sjá það fólk mun sér í lagi
en samlagast ekki hrekkja tagi.
64.
Hvör kann Jakobs dýrlegt duft fyrir Drottni að reikna?
Tölur varla finnast fróðar
af fjórða parti Ísraels þjóðar.
65.
Mæli eg til að mín sál fái mjúkan dauða
svo ævilokin í allan máta
eins séu mín og þess réttláta.
66.
Þá Balach heyrði að Beors son svo breytti máli
horskur spurði: hví vilt haga
hegðun þinni mér til baga?
67.
Lét ég þig um langa vegu leiða hingað
óvinum mínum að formæla
en í orðum þínum gjörir þá sæla.
68.
Sjáandinn þá siklings orðum svo réð ansa:
Skal eg það ekki halda og hjala
sem himna-kóngurinn vill befala?
69.
Í öðru sinni upphóf gramur erindi sama:
Svo af þér fái eg annað svara
í annan stað skalt með mér fara.
70.
Svo auga kommir á þessa þjóð, en þó ei alla,
og bið eg þar þá banni hrellir
og bölvan þína yfir fellir.
71.
Niflung á einn njósnarhól hann náði leiða
og hönum sýndi Ísraels sveitir
af því fjalli er Píson heitir.
72.
Eins mörg voru þar ölturin sett og áður fyrri:
Sjö uxar og svo gemlingar
sæfðir þar til fórnfæringar.
73.
Allt gekk þetta á einn veg til og áður greinir.
Bíleam að guði gætti,
Guð hönum þá og líka mætti.
74.
Leggjandi hönum mál í munn og mælti sjálfur:
Balach kóngi birtu þetta
ef buðlung spyr þig nokkra frétta.
75.
Kom hann svo en kóngur stóð hjá kjöti sínu
og hof[f]menn hans með bljúgu bragði,
Balach spyr hvað Guð til sagði.
76.
Beors son sín birti orð og byrjar þanninn:
Rís upp Balach, ræsir lýða,
réttvaxinn svo megir hlýða.
77.
Mína ræðu Sipors son þér set í minni
og að meiningunni gaum skalt gefa,
á Guðs orði haf engan efa.
78.
Guð er eilífur fólki á fold svo fals hann segi,
sonar manns jafni svo ei heldur
sem með nokkru verði hrelldur.
79.
Skyldi hann fleipra og fylla ei það sem fyrrum sagði
ellegar nokkuð uppskátt gjöra
sem ekki vill þó láta vera.
80.
Hingað er eg af honum hafður hátt að blessa.
Þeirri eg ekki blessan breyti
né brigða hans orð að neinu leyti.
81.
Menn sjá ekki meðal Jakobs mæðu neina
né erfiði hjá Ísraels sveitum
eftir þó vér gjörla leitum.
82.
Drottinn Guð er dásamur hjá dýrum flokki
og lúðrar kóngs með lifandi snilli
láta fagurt þeirra á milli.
83.
Af egipska ánauðarlandi út þá færði
sem einhyrnings án allrar veiki,
er hans dýrðar hár styrkleiki.
84.
Hjá fólki Jakobs fjölkynngi kann finnast eigi,
né spáfarar málið megna
meðal góðu Ísraels þegna.
85.
Á sínum tíma sagt mun vera af sveit þessari
og hverri dásemd dýrðarverka
Drottinn prýddi með þá klerka.
86.
Sjáðu að þetta signað fólk skal sig upphefja
eins og ljón sem eirir öngvu
þá út kemur af legri þröngvu.
87.
Fer það ekki fyrri í ból en feng sinn hefur
etið og að sér dýrið dregið,
dreyra þess í hel var slegið.
88.
Sé þeim lof er signað mál af syndugum munni
til lærdóms kunni oss fram að flytja,
fræðagjörð um kyrrt skal sitja.