Bíleams rímur – önnur ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Bíleams rímur 2

Bíleams rímur – önnur ríma

BÍLEAMS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Annað sinn við orðaspil
bls.A6n (bls. 11–21)
Bragarháttur:Stafhent eða stafhenda (stuðlalag)
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Annað sinn við orðaspil
enn verð eg að hætta til,
koma á nafni og kveða við tón,
kappar hlýði á mærðarsón.
2.
Ekki kveð eg til afhalds mér,
óvandaður því bragurinn er,
heldur að fræða fávitring
með fróðrar sögu útlegging.
3.
Hér má heyra hver sem vill
heiðinna manna samtök ill
sem í villu hafa gengið geyst,
góðum sig á móti reist.
4.
Og þar sem tveir sig til samans
*tóku í nafni falsarans,
millum þeirra myrkra refur
makráður þá setið hefur.
5.
Aðill að tveggja illum ráðum
er Andskotinn og stjórnar báðum.
Einn þar kitlar annan til
illt að gjöra hönum í vil.
6.
Líkur sækir líkan heim,
líkt var margt með báðum tveim
sem heita máttu hálf-nafnar,
hverigur mikið af öðrum bar.
7 Veraldar kænskan var þeim léð,
vildu fara dult þó með.
Fylkir þenkti að friða sitt land
með Fítons krafti og hvössum brand.
8.
Hinn var fróður í Fítons mennt,
Fjandinn hafði honum lengi kennt.
Í Svartaskóla sjálfur var,
sat hann efstur lengi þar.
9.
En lukkusnauð sú listin er
að lesa og skrifa galdrakver,
sálum voga sínum þar,
Satans heita meistarar.
10.
Gamla höggorms *geyglerí
gikkar þann sem leggst þar í
fjölkynnginu að flíka hér
og frægðar þar með leita sér.
11.
Þó er allra þyngsta bann
þegar það hendir kristinn mann
Guðs stórmerkja að glata gaum
og gefa Satan lausan taum.
12.
Hrapaður er sá himnum af
heljar myrkra ofan í kaf.
Örvæna er á einkis manns
útför góðri svo sem hans.
13.
Afguðadýrkari er sá mann
og allir þeir sem heita á hann,
því galdrastyrkinn göfga meir,
en Guð óbeðinn láta þeir.
14.
Þó yfir að fljóta eigi það,
í annarra þörf sé rúnablað,
til heilsubótar, lukku og liðs
*eða lýðir mega vera til friðs.
15.
Í sömu meining setja þar
svarta leturs meistarar,
saman við finna sagna-tál,
sálmavers og heilagt mál.
16.
En Bíleams er það bölvan líkt
og bannsett list að iðka slíkt.
Villa er engin verri manns
en vinskap girnast Andskotans.
17.
Andskotinn vill engum gott,
að þeim dregur hann mesta spott
sem ætla upp á aðstoð hans,
er það stærstur skaði hans.
18.
Djöflinum engin dáð er hjá,
dugir þá síst er liggur á,
fullur upp með fals og lygð,
fannst hjá honum aldrei tryggð.
19.
Þó meinvætturinn magni seið,
mönnum stofni fár og neyð,
ekki kann það orka hót
ef orðið Guðs þar stendur mót.
20.
En seiðmaðurinn sjálfur er
í sálarhættu þegar hann fer
til fjölkynngis í fjanda soll,
fá vill Satan verkatoll.
21.
Galdramaðurinn gjörir sér annt
að gefa Djöfli sál í pant
þá hann ristir rúnirnar
eða raunar yrkir særingar.
22.
Og hvert sem töfrar framgang fá
eða feil kann þeirra list að slá
launin skammtar sjálfum sér,
sálartöpun manns það er.
23.
Ef maður manni bölva biður
bölvunar er sá rétti niður
því hann girnist tveggja tjón,
trylldur fordæmingar þjón.
24.
Engu betri en Balach var
sem bauð til fé og virðingar
vitringnum að vinna mein,
en vildi mörgum böl og kvein.
25.
Þeir eð túlka töframenn
sem til kann dæmi finnast enn,
að gjöra öðrum galdrasting
og gefa þeim til þess foræring
26.
Þeir munu bera Balachs frægð
en blessunar finna enga nægð.
Utan gjöri yfirbót,
á þeim hrína laganna hót.
27.
Heilla má við hjörtun fróm
að heyra og vita um kristindóm
forneskjunnar framdar sé
fyrrum sem í heiðninne.
28.
Spottleg var sú spekingslist
er spáði um fyrirheitinn Krist
en jafnframi til frétta fór
fjölkunnugur í Baals kór.
29.
Skammheit sömu hendir hann,
sem heldur sig fyrir kristinn mann,
Satan leggur lag þó við
og lærir af hönum heiðinn sið.
30.
Gárungar í grellsköpum
gjöra sig oft að blót-börgum
og bölva þeim sem blessaður er;
bannsett villa sýnist mér.
31.
Svoddan orða ófögnuð
alvarlega hefur bannað Guð.
Eiturlegar óbænir
enginn skyldi temja sér.
32.
Brúkar hver af bölvan valdur
Bíleams þann rétta galdur.
Guði hlífð má þakka þá
þó hann ekki hríni á.
33.
En svo sem það ber til sannlega oft
að sá er varpar steini í loft
sjálfum hönum í höfuð hrýtur;
hvör svo sinna óska nýtur.
34.
Fyrir alla veraldar æru og fé
ekki er það til vinnande
vilja Guðs að brjóta á bág
en bera sig gera mönnum þág.
35.
Afstýri Guð þeim ósköpum
sem alla leiðir af stórglæpum,
svo menn varist samtöl ill
en sjái við því sem púkinn vill.
36.
Blessaður Guð sem bölvan hans
til blessanar sneri í náðan manns.
Bölvan taki oss burtu frá
en blessaninni láti ná.

> – – –
37.
Í fyrra brag var seinast sagt
að sendimenn af Balachs makt
í annað sinn með orðsending
enn heimsóttu forvitring.
38.
Þó hann svörin téði trauð
tiggja mönnum gisting bauð.
Í meining þeirri hann mundi kyr
ef mælti Guð við sig sem fyr.
39.
Og það skeði að inn kom hljótt
englagramur á þeirri nótt.
Við Bíleam sagði: Bústu á stig
ef Balachs sveinar kalla á þig.
40.
En þó skaltu á annan veg
ekkert gjöra en tilsegi eg.
Af Bíleam síðan blundur rann,
í bítið reis og klæddist hann.
41.
Sína ösnu söðla nam
sér til reiðar Bíleam
og af stað með flýti og fum
fylgdi Móabs höfðingjum.
42.
En hans reisa á þann veg
ei var Guði þóknanleg.
Ritning segir að reiði-stríð
rynni á hann í þeirri tíð.
43.
Til mótstöðu Guðs fram gekk
góður engill heiðnum rekk
þar hann einn á ösnu reið,
undirsátar fylgdu á leið.
44.
Og það skeði að asnan sá
engil Guðs þar leiðin lá,
standandi með brugðinn brand,
sem bardagamann, í sinni hand.
45.
En asnan út af veginum veik,
varð hún svo fyrir engli smeik,
í afvik sig að akri dró
allt þar til hana Bíleam sló.
46.
Gekk þá engill Guðs í eitt
garðshlið það sem ei var breitt.
Hjá víngarði einum var sú slóð,
veggja tveggja á millum stóð.
47.
En sem asnan Engil sá
upp að veggnum hún sér brá,
þrengdist garði þá svo nær
þar við kreistist Bíleams lær.
48.
Bíleam þar braut var mjó,
beisladýr enn aftur sló
því honum þótti hún þverreið mjög,
þar með líka áfram treg.
49.
Engill Drottins ennþá gekk
áfram lengra á veg fyrir rekk
þar sem mjótt var einstig eitt
svo afvik fannst þar ekki neitt.
50.
Þegar nú asnan engil leit
einstigs þess á miðjum reit
til jarðar niður féll þá fram,
fælin undir Bíleam.
51.
Reiði fylltist rekksins önd,
reiddi upp staf [með] heiftar hönd.
Með atvik grimm og einninn snögg
ösnu sinni greiddi högg.
52.
Sýndi Guð þá sérlegt spil
sem síðar og áður ei bar til.
Ösnu munni upp lauk hann
svo asnan talaði þá við mann.
53.
Hvað hef eg, sagði hún, þér gjört
að heiftugur þú svo við mig ert;
grimmlega með þungan þjóst
þrisvar sinnum til mín slóst.
54.
Bíleam svarar: eg því sló þig,
þú hefur illa hæddan mig,
og væri nú hjör í hendi mér
til heljar skyldi eg steypa þér.
55.
Asnan spurði í annað sinn:
Er eg ekki gripur þinn
þeim þú hefur um þína tíð
þrálega riðið fyrr og síð?
56.
Hvenær hefi eg, hermdu mér,
hopað þannig undan þér?
Orðum dýrsins hann ansa réð:
aldrei hefur það fyrri skeð.
57.
Hinn almáttugi upplauk þá
augum þess er skyldi spá
svo engil Guðs hann sannlega sá
sínum vegi standa á.
58.
Bíleam leit og beint til sanns
brugðið sverð í hendi hans.
Felmtsfullur á frónið mitt
fram laut þegar á andlit sitt.
59.
Orti síðan orði á hann
engill Guðs og herma vann:
Því vildir þú þrisvar slá
þína ösnu? en eg til sá.
60.
Sjáðu að eg útsendur er
sannlega að standa á móti þér
því að reisa þessi þín
þóknast ekki augum mín.
61.
Þessi asna því var smeik,
þrisvar sinnum frá mér veik,
heimsk þó væri hneigði sig,
hennar augu sáu mig.
62.
Ef húnhefði ei opað sér
út af götu, burt frá mér,
þér hefða eg ekki látið líft
en lífi þinnar ösnu hlíft.
63.
Sýrlands klerkur sá þá kvað
við sendiboða Guðs í stað:
Aví! mín eru upptök blind.
Alvarlega drýgða eg synd.
64.
Ekkert vissa eg af þér,
að þú stóðst á móti mér.
Eg vil snúa aftur á veg
ef mín reisa er gagnstæðleg.
65.
Guðs engill gaf svoddan svar:
með sendimönnum veg þinn far,
en ei skal hrjóta orð af þér
utan þau sem koma frá mér.
66.
Eftir það hélt ferðum fram
með fylkirs mönnum Bíleam
allt þar til fyrir utan grand
inn var kominn í Móabsland.
67.
Buðlung spyr til bragð-amanns,
að Bíleam var í landeign hans
innkominn fyrir óska-hót.
Öðling stefndi honum á mót.
68.
En hvað eð fleira í fréttum var
þá fundi þeirra saman bar
greint mun síðar glöggt til sanns.
En gömlum verður orða-stans.