Bíleams rímur – fyrsta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Bíleams rímur 1

Bíleams rímur – fyrsta ríma

BÍLEAMS RÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Þó förlist tungu mælskumáttur
bls.A1v (bls. 2–11)
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur
1.
Þó förlist tungu mælsku máttur
og minnið taki að þrjóta
samt skal fróðleiks fagur þáttur
fram af munni hrjóta.
2.
Mér hefur aldrei gengið greitt
greina mál að skjalda.
Nú er geðið gamalt og þreytt
glósunar sal að tjalda.
3.
Upp frá því menn elli-snert
á sér taka að finna
það er allt góðra gjalda vert
hvað gamall kann að vinna.
4.
Aldurhnignum ætla þarf
allra til líkinda
svo honum sé ei stofnað starf
stórra óhæginda.
5.
Fleira en færra fyrir hann leggst,
forföll má það reikna,
stirðum fingrum staurlega tekst
stafi á blað að teikna.
6.
Bilar líka brúna-rós
bækur í að rýna
þá brigðljós dagur og baðstofu ljós
birtu litla sýna.
7.
Hugurinn verður hér af tregur
hagyrðin að finna.
Hinn ellimóði ýsur dregur,
engu gáir að sinna.
8.
Af ölllu þessu aðkenning
á mig tekur að leita.
Er því nýrri orðhending
ekki hægt að breyta.
9.
Til flestra hluta er fýsnin sljó
í fyrning vorra krafta.
Þeir larast eins og lasið hró
með list og prýði tapta.
10.
Eftirstöðvar eru þó
oft í mannsins þanka
af því sem fyrr í brjósti bjó,
bragna vill til ranka.
11.
Mér eins fer um málstað þann
mærðir þó eg nefni.
Tvístrast mjög um rænu-rann
ritað hróðrar efni.
12.
Ævintýri ætla eg mér
einu í brag að snúa.
Fáort en þó fallegt er,
firðar mega því trúa.
13.
Finnst í Mósis fjórðu bók
fróðleikssaga þessi
hverri eg mér fyrir hendur tók
að hreyfa í Sónar versi.
14.
Illt sem hryggir og gott sem gleður
góða menn á láði
innir þessi annáll téður
anda Guðs af ráði.
15.
Það illa er áform Andskotans
sem öllum hrekkvísari
skerða vill heiður skaparans,
skaðfús mannhatari.
16.
Sveigja kann með svika-hand
suma menn til villu,
hvetur svo að gjöra grand
góðum þá ena illu.
17.
En(n) gleður oss fögur Guðs umsjá
sem grandi kann að varna,
sneiða lætur háskann hjá
hópnum sinna barna.
18.
Andskotans þó illskan röm
allra vildi freista,
Guðs er hlífðin gæskusöm,
gott er henni að treysta.
19.
Efnið það sem eftir fer,
oss gjörir hér um fróða,
heilagur andi hjálpi mér
heilagt mál að ljóða.

> – – –
20.
Í þann tíð sem Ísraels lýður
áði á Móabs völlum
og við Jórdan búinn bíður
en burt af eyðifjöllum.
21.
Búðir sínar höfðu hjá
heiðinna manna byggðum
mæddir hvar eð mættu þá
mörgum rauna-styggðum.
22.
Þriggja kónga magtin megn
mót þeim rísa vildi.
Ákafur við odda-regn
illsku lýðurinn trylldi.
23.
Kóngurinn Arað kylfu skók,
Kanaans grimmt afsprengi.
Af fólki Guðs til fanga tók
fylkir nokkra drengi.
24.
Ammoritanna sjóli sagður
Sihon brá og vigri.
Fyrir uppreist varð hann undirlagður,
öngvum stýrði sigri.
25.
Hilmir þessi í Hesbon sat,
hreppti skjótan dauða.
Og hét þriðji er ekki gat
Ísrael stefnt til nauða.
26.
Guð gaf sínu fólki fremd
fram yfir heiðna lýði.
Blótmenn goða biðu skemmd,
bana en enga prýði.
27.
Borgir þeirra, byggð og lönd
blessaða fólkið hreppti
og á því festu eignarhönd
sem illsku lýðurinn sleppti.
28.
Til forna var því fyrirheitið
forföður þeim enum svinna:
Þín börn skulu eignast borgarhliðið
blóðs-hatara sinna.
29.
Þegar Balach Siporsson
svoddan fékk að spyrja
sér meinti enga sigursvon
þó sóknir vildi byrja.
30.
Af Mósis fylking mikill stóð
Móabítum kvíði
því Ammoritanna eydd var þjóð
öll í fyrra stríði.
31.
Við Madíans presta mælti þá
múgurinn hjartablauði:
Flokkur þessi er fer hér hjá
fyrða mun oss auði.
32.
Eins og þegar uxar grös
yrja burt af fróni
svo mun gráðug grúa ös
ganga oss að tjóni.
33.
Þeirra kóngur, Balach, byrstur
bjó til grimmt illræði,
í Ísraels barna þrúgan þyrstur,
þrunginn heift og bræði.
34.
Útsendara með haturs-hams
hann lét fara að bragði
burt til fundar Bíleams
og boðskap fyrir þá lagði:
35.
Kallið til mín konstra-mann
og kveðju berið slíka:
Án allrar dvalar eg bið hann
á minn fund að víkja.
36.
Og segið hönum að horskur her,
sem hylur andlit jarðar,
af Egyptalandi að kom hér.
Um það miklu varðar.
37.
Að kuklarinn með konstrum sín,
sem kunna margan tæla,
hvatlega komi hér til mín,
her þessum formæla.
38.
Má sá lýður meir en eg
eða mengið það eg stýri,
en óbæn kannske ógnarleg
auðnu þeirra rýri.
39.
Kunni eg síðan með köppum mín
koma þeim að grandi
og með ummælum þungum þín
þessa keyra úr landi.
40.
Bænir þínar og bjargvæn trú
með blessan margan krýndi
í banni er sat sem bölvar þú,
bragða-maðurinn rýndi.
41.
Móabíta magtar-lið,
af Madian þeir elstu,
létu á ferðum lítil bið,
liðstjórnarmenn helstu.
42.
Spakir tóku af spíru bör
spáfarar launin kláru,
gæðingar í glæstri för
gersemarnar báru.
43.
Hittu síðan Bíleams byggð
og birtu kóngs erindi,
en hann vel þeim tók með tryggð
því tæring var í hendi.
44.
Þér skuluð hjá mér þreyja í nótt,
þreyttir komnir af vegi.
Eg vil eftir hlera hljótt
hvað mér Drottinn segir.
45.
Árla skuluð þér andsvör fá
eftir því eg merki.
Guðs kemur mér góð forspá.
Gistu þeir svo hjá klerki.
46.
Í svefni kom til sagnamanns
á sömu nótt hinn skæri
Guð og spurði glöggt til sanns
gestir hans hverjir væri.
47.
Bíleam Guði birti frá
Balachs kóngs erindi:
Mitt vill orða fullting fá
og fyrir það hingað sendi.
48.
Fylkir þessi fer á leit
með formælingum eg grandi
ókunnugri ýta sveit
sem áir í Móabs landi.
39.
Svo útrýmt geti þjóðher þann
sem þeim af ótti stendur;
er hér þó með allan sann
ekki neinum kenndur.
40.
Blíður Guð gaf Bíleam ans:
Balach sættu eigi,
gakk og ei með görpum hans,
grimmd er á þeirra vegi.
41.
Að bölva líka banna eg þér
brögnum þeim eg unni
því sagður hópur signaður er
sjálfs míns út af munni.
42.
Árla dags þegar blundi brá
Bíleam upp nam standa.
Við sveina Balachs svaraði þá:
Segið fylkir landa:
43.
Himna drottinn hefti mig
herra yðvarn finna
því má hverfa hvör fyrir sig
heim til byggða sinna.
44.
Móabíta herrar heim
hvurfu skjótt að bragði,
fundu kóng með fréttum þeim
fyrir þá spámann lagði.
45.
Í annað sinn þá gjörði gramur
göfugri menn til ferða
með erindi sömu einka-tamur
í áræði sig að herða.
46.
Þessir líka fóru á fund
forvitringsins merka
og sögðu honum á samri stund
siklings beiðni sterka.
47.
Þetta lætur Sípörsson
sikling Móabs ætta
segja þér í sannri von,
svoddan máttu hætta.
48.
Kæri! þinni komu ei dvel
að krenkja óvini mína.
Eg skal gjöra við þig vel,
virt og æru sýna.
49.
Hvað þú æskir vera skal veitt
og vináttu minnar njóta
fái eg þig til fúsan leitt
fólki þessu að blóta.
50.
Bíleam gaf þá svoddan svör
sendimönnum tiggja:
Ekki eru hjá mér öll þau kjör
sem yðar vill kóngur þiggja.
51.
Þó hilmir gæfi mér hús sín full
með handarskaflinn fína
og annað slíkt með eðla gull
í eigu léti mína
52.
í mér fyndi eg ekkert megn
orði Drottins hæsta
mæla neitt eða gjöra í gegn
svo gagn þess sjái hið smæsta.
53.
Náttstað skuluð hafa þó hér
og hvíld svo að eg megi
gá að hvört nú gegnir mér
Guð ellegar eigi.
53.
Styttist bragur en stirðna hljóð,
stendur svo á tíma.
Endast dagur og einninn ljóð.
Úti er fyrsta ríma.