Önnur áklögun Gyðinga fyrir Pílató | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Passíusálmar 20

Önnur áklögun Gyðinga fyrir Pílató

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Pílatus hafði prófað nú
bls.22r–22v
Bragarháttur:Níu línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBccddB
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Tón: Óvinnanleg borg.
1.
Pílatus hafði prófað nú
píslarsök Jesú gefna.
Klén virtist honum kóngstign sú
þá Kristur sannleik réð nefna.
Heims sannleik heiðra lést,
hæddi Guðs sannleik mest.
Sannindin elska ber,
orð drottins láttu þér
kærast þó allra efna.

2.
Jafnótt þá ganga jallinn réð
til Júða út að bragði.
Öngva sök þessum manni með
má eg finna, hann sagði.
Gyðingar heldur hart
herrann klöguðu um margt
með æði, ógn og dramb,
en rétt sem meinlaust lamb
lausnarinn ljúfur þagði.

3.
Hann hefur upp æst lýðinn lands,
lengi mjög víða kenndi,
frá Galílea og so til sanns
um síðir allt hingað vendi.
Pílatus hugði hér
hrinda þeim vanda af sér.
Heródes hafði því
hirðstjórn þeim parti í,
til hans því herrann sendi.

4.
Fyrir mig, Jesú, þoldir þú
þjáning og beiska pínu.
Hjartað gleðst því eg heyri nú
hrósað sakleysi þínu.
Syndin lá sárt á mér,
sök fannst engin hjá þér,
so er sakleysið þitt
sannlega orðið mitt.
Við málefni tókstu mínu.

5.
Lögmál drottins þá hefndum hart
hótar mér eftir vonum
aftur minn Jesús ansar snart:
Engin sök finnst hjá honum.
Sakleysið mitt til sanns
segi eg nú orðið hans.
Engin áklögun fljót
orka skal neitt á mót
mínum þollyndisþjónum.

6.
Ónytjuhjal og mælgin mín
mér til falls koma ætti,
en, Jesú, blessuð þögnin þín
það allt fyrir mig bætti.
Skylda mín aftur er
eftir að breyta þér,
þegjandi í þýðri trú
þola nær líð eg nú,
þörf er eg þess vel gætti.

7.
Pílatus meinti mannvitsslægð
mundi óbrigðul standa,
koma vill því með kænskunægð
kóng Heródi í vanda.
Kunna þá aðferð enn
allmargir veraldarmenn.
Bið Guð og gæt þín vel,
gjarn er heimur á vél.
Gálausum svikin granda.

8.
Krossgangan, Jesú, þessi þín
þar fyrir eflaust skeði
so hvílast mætti sála mín
sætt í eilífri gleði.
Embættisómak langt
oft þó mér finnist strangt,
til lofs og þóknunar þér
það vil eg gjarnan hér
líða með ljúfu geði.


Athugagreinar

Amen
(Sjá einnig: Passíusálmar 1996, bls. 102–105).