Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Passíusálmar 21

Um Heródis forvitni og hvíta klæðið

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Þegar Heródes herrann sá
Bragarháttur:Níu línur (tvíliður) fer,- þrí- og tvíkvætt aBaBcDDcD
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Með lag: Jesú Kriste, þig kalla eg á
1.
Þegar Heródes herrann sá
hann varð mjög glaður næsta.
Af honum heyrt hafði og helst vill fá
hans ásýnd líta glæsta.
Forvitinn mörgu frétti að,
fýsn holdsins kapp á lagði
með byrstu bragði.
Jesús tók ekki undir það,
við öllum spurningum þagði.

2.
Margir finnast nú hér í heim
Heródis líkar réttir.
Guðs orð er skemmt og gaman þeim
sem glens eða nýjar fréttir.
Holdsins forvitni hnýsir þrátt
í herrans leyndardóma
með fýsn ei fróma.
Aumri skynsemi ætla of hátt
aldrei til skilnings kóma.

3.
Mannvitsforvitni og menntaglys
margir þá vilja reyna.
Að orði drottins gjöra gys,
gaman loflegt það meina.
Varastu, sál mín, vítin reynd,
virtu í hæsta gildi
þá mestu mildi.
Alvarlega með góðri greind
Guð við þig tala vildi.

4.
Guð gjörir ekki að gamni sér
glæpamönnum að hóta.
Kallsmælgi honum og engin er
að þú megir miskunn hljóta.
Auðmjúklega með allri gát
áttu um slíkt að ræða
og fleiri fræða,
en af þér heyrast aldrei lát
orð drottins skulir þú hæða.

5.
Heyri eg um þig, minn herra, rætt
í hjálpræðisorði þínu,
allt sýnist mér þá búið og bætt
bölið í hjarta mínu.
Í sakramentinu sé eg þig
so sem í líking skærri
með náð mér nærri.
Ó, hvað gleður sú ásýnd mig,
engin finnst huggun stærri.

6.
Heródis fýsn var holdleg sú,
hann réð forvitnin ginna,
en mín sála af ást og trú
andvarpar þig að finna.
Lofsamleg er sú lukkustund
þá lít eg þig, herrann þýði
í þinni prýði.
Gef mér loksins þann fagnaðarfund
þó fyrst um sinn hér bíði.

7.
Það kennir herrans þögnin fróm
þar næst í annan máta:
Hann vill ei sínum helgidóm
fyr hunda kasta láta.
Drottinn forsmáir drambsamt geð,
dárlega margs þó freisti
og frekt sér treysti.
Hugstoltum niður hrinda réð,
hógværa sál við reisti.

8.
Heródes og hans hoffólk lítt
um herrann akta vildi,
færði hann í eitt fatið hvítt,
forsmán það heita skyldi.
Til Pílatum síðan sendur var.
So komst í friðarstilli
ofstopinn illi.
Drambsöm öfundin áður bar
óvinskap þeirra á milli.

9.
Hvítt klæði gjörði háðung þér,
herra minn, Jesú sæti,
dýrðarskrúða so skenktir mér,
skínandi Guðs réttlæti.
Sakleysismerki þetta þitt
þíns föðurs gæskan hreina
þá þekkti alleina.
Hann sér og prófar hjartað mitt,
hvað sem illgjarnir meina.

10.
Heilagra sálna hópur skær
á himnum með skikkun fríða
til heiðurs þér, Jesú, herra kær,
hvítum klæðum sig skrýða.
Eins hér á jörðu upp frá því,
eflaust í minning slíka
með röksemd ríka,
birtust snjóhvítum búning í
blessaðir englar líka.

11.
Veittu, Jesú, þá miskunn mér,
meinleysis skrýddur klæði,
þjóni eg tállaust í tryggðum þér
með trú, von og þolinmæði.
Réttlætisskrúða skartið þitt
skíni á sálu minni
þó líf hér linni.
Eins láttu holdið einnig mitt
afklæðast þrjósku sinni.

12.
Forlíkast gjörðu fjandmenn tveir
þá fórstu þar, Jesú, milli.
Eg veit mér gefst því miklu meir
miskunn og friðarstilli.
Hjá Guði föður so til sanns
sést engin reiði lengur
né styggðarstrengur.
Daglega milli mín og hans
minn trúr frelsari gengur.

13.
Hvar sem ófriður hreyfir sér
af holdsins veikleik bráðum
millum kristinna manna hér
móti Guðs vilja og ráðum,
gakktu þar, Jesú, milli mest
með þínum friðaranda
og varna vanda.
Hjálpa þú so vér hugsum best
í hreinum kærleik að standa.


Athugagreinar

Amen

(Passíusálmar 1996, bls. 104–111)