Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Passíusálmar 38

Um háðung og brigsl sem Kristur leið á krossinum

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Þeir sem að Kristí krossi senn
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Tón: Jesús, sem að oss frelsaði
1.
Þeir, sem að Kristí krossi senn
komu og fram hjá gengu,
hristu með háðung höfuðen,
honum til brigslis fengu,
heitorð sín hefði hann haldið lítt
herrans musteri að brjóta,
á þremur dögum annað nýtt
efna með bygging fljóta.

2.
Tveir lugu soddan falsmenn fyrst
fyrir Kaífas dómi
af því hafði það útborist
eftir fjölmennis rómi.
Þessir, þó hafi heyrt og séð
herrans jarðteiknir fríðar,
lygin þeim betur gafst um geð.
Gengur so enn til víðar.

3.
Öldungar landsins, fólkið flest
og flokkur heiðinn stríðsmanna
herrann vorn Jesúm hæddu mest
með höfðingjum prestanna;
sögðu: Ef ertu son Guðs kær,
sá þig með krafti styður,
kom þú hér, so það sjáum vær,
sjálfur af krossi niður.

4.
Hann, sá eð öðrum hefur hér
hjálpað og læknað marga,
megnar nú ekki að sönnu sér
sjálfum úr neyð að bjarga.
Soddan háðyrði, hróp og dár
hlaut þá Jesús að líða.
Stóð það yfir um stundir þrjár.
Stutt var andláts að bíða.

5.
Þá fram hjá Kristí krossi nú
kallsandi held eg ganga
sem ekki af hjartans ást og trú
elska hans pínu stranga,
heilagleik sínum hrósa frí,
við holdsins fýsn sig binda,
síðan falla örvænting í
eða forherðing synda.

6.
Að þínum krossi, Kriste kær,
kem eg sem einn framandi.
Gef þú mér leyfi að ganga nær,
geð mitt styrki þinn andi
so eg hugleiði hvað til kom,
háðung, brigslorð og pínu
leiðstu, manngæsku mildin fróm,
móti andláti þínu.

7.
Sál mín og líf þær sæmdir hlaut
sjálfs Guðs musteri að heita
í skírninni því eg þín að naut;
það nam Guðs andi veita.
Síðan hefur það syndin mörg
sárlega gjört að brjóta.
Holdsnáttúran mjög elskar örg
athæfið heimsins ljóta.

8.
Á þremur dögum þar á mót
því hét eg mörgu sinni
með iðrun, trú og yfirbót
aftur það bætast kynni.
Æ, hvað veitir slíkt erfitt hér,
efnin og dug vill þverra.
Brigslið, sem til var búið mér,
bar nú Jesús, minn herra.

9.
Í velgengninni eg hrósa hátt
hraustleika trúarinnar.
Í mótlætinu hún bilar brátt,
brest finn eg stóran hennar.
Enginn fullkominn á mér sést
ávöxtur dyggða sætur.
Bar því fyrir mig brigslið verst
blessaður Jesús mætur.

10.
Hjálpa læst eg með heilnæm ráð
hinum sem illa breyta,
sjálfs míns lýta þó síst fæ gáð;
soddan má blindi heita.
Mér var þar stærsta minnkun að,
mátti háðyrðum kvíða.
Burt tók nú Jesús bölið það,
brigslin því vildi hann líða.

11.
Jesú, í þínu andláte
yfir þig brigslin dundu
að so í friði önd mín sé
á minni dauðastundu.
Hæddur varstu af öllum, einn
alla frá háðung leystir.
Aldrei tapast sá nokkur neinn
sem nafn þitt upp á treystir.

12.
Nær sem hrekkvísra háðung ný
hjartað mitt sárt vill stanga
undir þinn kross eg feginn flý,
fram hjá skal eigi ganga.
Þar stend eg kyrr þó kalls og spé
kveiki mér heims óblíða.
Upp á þig, Jesú, einn eg sé.
Allt vil eg með þér líða.

13.
Fyrst þú varst hæddur, herra, þá
harmakvöl leiðstu slíka
so heiðri þig nú héðan í frá
himnar og jörðin líka.
Allir englar og öll heims mynd
undir þitt vald sig hneigi.
Og eg þar upp á, aum mannkind,
amen af hjarta segi.